miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Nú styttist í norðurferðina og maður heldur áfram að lesa sig inn í rétta Skaga- og Siglufjarðarandann. Var að klára ferðasögu Benjamíns Sigvaldasonar, hann komst loks til Hóla, en Spænska veikin var næstum því búin að gera hann innlyksa á Siglufirði. Áðan keypti ég Tíma í lífi þjóðar, sem í eru þrjár skáldsögur eftir Indriða G. Ég hef reyndar lesið þær allar en átti bara til eina og mig langar að lesa Land og syni aftur. Auk þess var forvitnilegt að lesa innganginn eftir Kristján B. sem var góður en hefði mátt vera lengri fyrir minn smekk.

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Á laugardaginn var ég í útvarpsþætti með konu sem finnst ágætt að láta börnin sín lesa misjafnlega sannar æsifréttir um barnaníðinga, dýraníðinga, heimilisofbeldi, morð og dóp, en finnst skelfilegt að þau sjái litlar myndir af berbrjósta konum í smáauglýsingadálki sama blaðs. - Reyndar viðkunnanlegasta kona. En stundum finnst mér besta og greindasta fólk tala eins og forritaðir Political Correctness disklingar.

Á hinn bóginn hefur sem betur fer verið mikil og að sumu leyti nýstárleg umræða um nauðganir. Þar er vel að verki staðið að leitast við að fá karlmenn til að taka ábyrgð á þeirri umræðu. Auk þess er ég hlynntur því að tekið sé á raunverulegum vandamálum í aktívisma en ekki ímynduðum. - Og nú á einhver eftir að kommenta og segja að það sé tengsl á milli nauðgana og símaauglýsinganna í DV. Ég fer ekki út á þá braut, það er margra áratuga deiluefni og svarið er bæði já og nei.

Ég hef haldið áfram að lesa minningarbækur Jóns Óskars og er núna staddur í þeirri síðustu, Gangstéttum í rigningu. Hún virðist mér einna best stíluð, hreinlega afbragðsvel skrifuð á köflum og skemmtileg. Við lesturinn hef ég orðið þess áskynja sem ég gerði mér ekki grein fyrir áður, að margar af frægustu ljóðabókum tímabilsins 1940-1960 voru gefnar út í eigin útgáfu og höfundarnir nutu oft minni en engrar viðurkenningar. Þetta gildir um Svartálfadans eftir Stefán Hörð Grímsson, sjálfa Dymbilviku eftir Hannes Sigfússon og meira að segja Þorpið eftir Jón úr Vör. Undarlegt er hvað sú bók hefur orðið fræg miðað við viðtökurnar sem hún fékk fyrst en þær voru verri en engar. Ekki er hægt að segja að Mál og menning og Heimskringla hafi reynst ungum og hæfileikaríkum höfundum haukur í horni á þessum tíma. Satt að segja velti ég því fyrir mér hvaða gagn Kristinn E. Andrésson gerði íslensku bókmenntalífi þegar upp var staðið. Kannski sáralítið þegar upp var staðið.

Ég var í sumarbústað í Úthlíð um síðustu helgi og fór m.a. á ball með Mannakornum. Aldurssamsetning gesta var 17-60 ára. Á dansgólfinu var austurlenskur túristi sem dansaði einn síns lið undir þekktum íslenskum slögurum frá 8. og 9. áratugnum. Það var sérkennileg sjón. Almennt heppnaðist helgin vel en því er samt ekki að neita að mér þykir fátt hrífandi við staði á borð við Úthlíð, Flúðir, Húsafell og fleiri. Á slíkum stöðum er haugur af sumarbústöðum, mikið af trjágróðri sem hefur verið plantað á síðustu árum eða áratugum, verslunar- og þjónustumiðstöð, sjoppur og mikið af fólki sem fer á fyllerí. Þessir staðir eru eins konar sumarbústaða-Grafarvogur.

Um næstu helgi fer ég hins vegar á staði sem höfða til mín: Skagafjörð og Siglufjörð. Ég er að lesa gamla frásögn eftir Sigvalda Benjamínsson sem lýsir því hvernig hann komst með miklum harmkvælum og eftir krókaleiðum til Skagafjarðar sem var fyrirheitna landið í huga hans. Ég gæti aldrei hugsað mér að búa í Skagafirði en birtan þar og litbrigðin í fjöllunum heilla mig. Auk þess er hann sögusvið í mörgum frábærum smásögum Indriða G. Þorsteinssonar og stundum reyni ég að lifa mig inn í þá stemningu þegar ég á leið þarna um. Ekki ósvipað því að sögur Alice Munro eru farnar að vekja mér áhuga á Kanada, hvað sem ég svo á eftir að gera í þeim málum, kannski ekkert.

Ég var að reyna að skrifa í gærkvöld en þetta þróaðist út í undarlegan göngutúr um Reykjavík. Á Hlemmi spjallaði ég við konu sem virðist hafa bitið það í sig að ráðist hafi verið inn í landið upp úr 1960, mikið af fólki drepið og menningarverðmæti eyðilögð. Hún sagði að í Vesturbænum hefði verið mikið af húsum alsett vafningsviði og ámáluðum páfagaukum. Þetta hefði allt verið eyðilagt og ný hús reist. Hún hefði jafnframt misst fóstur og eiginmann í innrásinni. Það stefndi reyndar ekki alveg þar sem hún kvaðst fædd 1959 og í upphafi frásagnar hafði innrásin átt sér stað á bernskuárum hennar.

Bíó-Grill á Laugarásvegi er í bland orðið kaffihús. Þarna er seldur grillmatur og leigðar út vídeóspólur en auk þess eru þarna þrjú borð, ótal smáar kaffikönnur eru til sýnis í hillu. Að sjálfsögðu er þetta ekki eitt af betri kaffihúsum bæjarins en óneitanlega hlýtur að vera gaman fyrir hverfisbúana að hafa svona sjoppu. Ef þeim er þá ekki alveg sama.

Það var tíður rigningarúði, logn og hlýindi og einmanaleg grá kvöldbirta í borginni. Ég endaði í veitingasalnum á BSÍ. Þar var Asíubúi að þrífa undir lokun. Ég skynjaði að ég var ekki bara staddur í minni heimaborg heldur er hún líka borg í Evrópu per se.