laugardagur, júlí 23, 2005

Það er sjálfsagt að gleðja tvo ólíka vini (og misfríða þó að bæði séu fríð) með þeim tíðindum að ég hef bæði stundað sjósund og borðað kirsuber á Krít. Ég kem heim á mánudaginn. Það getur verið að ég farið eitthvað að hreinsa til í kommentakerfinu í framtíðinni, er ekki búinn að gera það upp við mig. Það vita allir að ég er ekki viðkvæmur enda snýst þetta ekki um það. Það er til fólk sem vill halda uppi umræðum í kommentakerfinu og það verða að vera einhver takmörk fyrir öllu bullinu sem flýtur með. Auk þess vil ég að kommentað sé á íslensku. Menn geta því átt von á að glórulaus della verði þurrkuð út. En verið samt óragir við að gagnrýna meistarann, þetta snýst ekki um það.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

http://www.bokmenntir.is/hofundur.asp?cat_id=847&module_id=210&element_id=1107&author_id=106&lang=1 Herna er skemmtileg yfirlitsgrein um sogurnar minar.


35 komment vid sidustu faerslu. Og allt fullt af vitleysingum. Hvers vegna dregst svona folk alltaf ad mer? Thad gerdi thad lika adur en eg byrjadi ad blogga. Mamma er svona lika.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Ég hef ekki minnst á matinn. Hann fellur vel að mínum nýju reglum um mataræði enda hef ég líklega haldið eitthvað áfram að grennast hér. Grískur ostur er frábær og hef ég gert mér far um að prófa margar tegundir. Bestur er osturinn grillaður eða bakaður. Kjötréttir eru líka margir ágætir. Gríska salatið er eitthvað sem þeir hafa alltaf handbært á veitingastöðum og kemur á borðið jafnsnögglega og drykkur ef maður pantar það sem forrétt. Þar má finna þykkan fetaost ofan á og síðan tómata, lauk og annað grænmeti. Í hvert sinn sem maður biður um reikning á veitingastað koma þjónarnir með ávaxtakörfu og flösku af ragi. Mér finnst það ágætt en uppáhaldsdrykkurinn minn hér er Metaxa, grísk útgáfa af brandy. Ég held reyndar að það þyki ekkert sérlega fínn drykkur.

Dálítil uppákoma varð þegar við Erla tókum strætóinn heim frá Chania til Stalos. Tveimur smábílum hafði verið lagt svo óhönduglega þar sem vagninn reyndi að beygja inn í aðalgötu að hann stóð þar fastur góða stund eða allt þar til nokkrir vegfarandur færðu báða bílana til með handafli.

mánudagur, júlí 18, 2005

Jæja, kominn aftur á sænska kaffihúsið með íslensku stöfunum í eldgömlu tölvunum sínum. Tímanum eyði ég ýmist hér í Stalos sem er steindauður strandbær, í Platanías þar sem er mun meira líf og loks í títtnefndri Hania, Chania, Xania. Þangað förum við Erla í kvöld í rómantíska ferð eða svo á að heita. Bróðir hennar og mágkona fara í samskonar ferð annað kvöld og hinir heimasitjandi passa börnin, sem er nú lítið mál því krakkarnir eru orðnir svo stórir. Það er hinn yndislegi lúxus við að vera miðaldra: Stórir krakkar. Ekki gargandi grey í kerrum sem þarf að skáskjóta framhjá túristastraumnum á þröngum gangstéttum.

Ég veit ekkert um Grikkland. Eða réttara sagt, það sem enn tollir í kollinum á mér er tengt Aþenu og ekki er ég þar. Allt annað er runnið saman í hausnum á mér eins og orðatiltækin í kollinum á Bibbu á Brávallagötunni. Ég get heldur ekki myndað mér neinar sérstakar skoðanir á hinum almenna Krítverja. Þetta er náttúrulega allt ferðaþjónustufólk, beint og óbeint, þeir sem maður á einhver samskipti við. Veitingahúsaeigendurnir og þjónar eru alltaf vingjarnlegir, þakka skyldi þeim. Strætisvagnastarfsfólkið er einstaklega ruddalegt og óbilgjarnt enda ekki ætla ég meðalgrikkjanum það, þetta er bara einhver kúltúr í þeim bransa.

Ég er að lesa bók sem gerist í grísku borgarastyrjöldinni rétt eftir seinni heimstyrjöldina. Eleni heitir hún (eða Elini, er ekki með hana með mér hér) og er eftir blaðamanninn Nicholas Gage en marxískir skæruliðar myrtu móður hans árið 1948. Hann gerðist síðan rannsóknarblaðamaður og á miðjum aldri tók hann að beita þeim vinnuaðferðum til að hafa uppi á morðingjum móður sinnar. Bókin er læsileg og ég fræðist þá eitthvað um gríska samtímasögu en fornsagan verður í sama grautnum í hausnum á mér sem fyrr, fyrir utan þetta þokkalega yfirlit um heimspekina sem ég hef.

Léttir var að heyra af 4-0 sigri KR gegn Fram. Gálgafrestur í fallbaráttunni.

Mér hefur gengið vel með skáldsöguna þó að alltaf sé ég jafnóánægður með afköstin þessi misserin. Þetta gæti orðið hin lúnknasta saga.