laugardagur, apríl 12, 2008

Nostalgía og fleira

Það er ungur og laghentur maður að flytja í kjallarann á Tómasarhaganum. Hægt og bítandi hefur hann verið að endurnýja íbúðina á undanförnum mánuðum, íbúð sem reyndar var endurnýjuð fyrir örfáum árum þegar síðustu eigendur fluttu þangað inn. Þegar ég er að teygja eftir skokkið fyrir framan tröppurnar á húsinu rek ég alltaf augun í kjallaragluggana sem eru byrgðir með gömlum dagblöðum, á meðan hinn nýi eigandi málar og spaslar fyrir innan, gólfslípar, eða hvað það er sem hann gerir (og ég gæti aldrei gert og myndi aldrei nenna því þó að ég gæti það).
Áðan færði ég mig að glugganum og las eitthvað af blaðafréttunum. Blaðið sem þekur gluggana er ekki nema nokkurra mánaða gamalt en þarna er þó ekki minnst orði á yfirvofandi kreppu, hvað þá gengishrun enda var evran í tæplega 90 kalli þegar þessar fréttir voru skrifaðar. Það er að vísu þarna innan um tímalaus óhugnaður á borð við kynferðisbrot en mest áberandi efnið er þras um embættisráðningar Össurs Skarphéðinssonar. Hann réð karl þegar sumum fannst hann eiga að ráða konu og svo réð hann konu þegar sumum fannst hann þrátt fyrir allt ekki eiga að ráða konu í því tilviki, eða ekki þá konu heldur einhvern karl.

Nei, ég er ekki að segja að þetta hafi verið hégómleg eða ómerkileg umfjöllun á sínum tíma. En óneitanlega saknar maður þess nýliðna tíma þegar fátt verulega alvarlegt var í innlendum fréttum á löngum tímabilum og ekkert ískyggilegt vofði yfir.

http://www.baldurmcqueen.com/content/view/581/41/ Í skemmtilegri færslu virðist Baldur McQueen (er hann eitthvað skyldur Steve McQueen?) óska þess að ég verði rekinn af Eyjunni fyrir færsluna mína um dómsmál Jóns Ólafssonar gegn Hannesi Hólmsteini. Ég erfi það engan veginn við hann enda finnst mér gaman þegar menn taka hressilega til orða. Þarna eru hins vegar mjög athyglisverð skoðanaskipti í kommentakerfinu hjá Baldri þar sem maður er segist löglærður færir rök fyrir því að breskir dómstólar hafi enga lögsögu yfir Hannesi í þessu máli og hann hefði átt að halda áfram að sniðganga það. Æskuvinur minn, Marínó G. Njálsson, skrifaði hins vegar skelegg komment og andstæð þessu við færsluna mína um þetta efni. Athyglisvert er að bera þetta efni saman.

Ég er á Café Roma.

Góða helgi.

fimmtudagur, apríl 10, 2008

"Eftir körfuboltaleikinn" eða "Stop Whining, Son!"

Jæja, nú skaltu koma inn.

Nei. Ég er ekkert að fara inn.

Ætlarðu þá að halda áfram að skjóta í körfuna?

Já. Hvert ertu að fara?

Ég ætla að hjóla upp í vinnu.

Hvers vegna?

Af því ég er að reyna að skrifa bók.

Ég vil að þú sért heima á kvöldin.

Já, en ég var að vinna í allan dag og ég verð stundum að skrifa á kvöldin. Það er svo mikil vinna að skrifa bækur.

Þá vildi ég að þú skrifaðir ekkert bækur.

En þá væru aldrei myndir af mér í blöðunum.

Já en þá myndi ég heldur ekki hafa neinn áhuga á því.

Bless.

Bless.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Ekki arða af frumleika

Er búinn að horfa á hálfan þátt af Mannaveiðum í endursýningu. Tilgerð og leiðindi eru ein lýsingin á því sem fyrir augu ber. Klisjusúpa er önnur. Þyngsli og vandræðagangur. Skyldi leikararjómanum aldrei hafa liðið illa í þessum dæmalaust ófrumlega og upptuggna lögguleik?

Reyfaraæðið - mun þeim yfirþyrmandi leiðindum aldrei linna eða verður þetta bara alltaf meira og meira ? Leggur fyrst undir sig bókmenntaheiminn og verður síðan vaxtarbroddurinn loksins þegar leikin sjónvarpsþáttagerð hefst hér á landi fyrir alvöru.

Og eitt í viðbót. Eiga svona þættir ekki að vera spennandi?

mánudagur, apríl 07, 2008

Bækur

Ég er meiri bókmenntaáhugamaður en gengur og gerist en tvennt hefur flest fólk sem jafnvel telst ekki til bókmenntaáhugafólks fram yfir mig: það hefur lesið fleiri íslenskar glæpasögur en ég og það hefur lesið Óbærilegan léttleika tilverunnar eftir Milan Kundera. Nú skyndilega, á miðjum aldri, þegar mesta Kundera-æðið er hér í rénum, þá er ég að verða forfallinn Kundera-aðdáandi. Ég setti það fyrir mig áður hvernig hann blandaði saman heimspekilegum hugleiðingum og sviðsmyndum. Þetta pirraði mig og féll einstaklega illa að mínum ritstíl. Þá var betra að lesa Kjell Askildsen og Raymond Carver sem voru allir í hinu ósagða. Sögðu í rauninni ekki neitt, bara sýndu. Svo sá ég að einkunnarorð síðasta smásagnasafns Carvers voru snilldarleg tilvitnun í Milan Kundera. Þennan mikla meistara sem ég er að byrja að dá núna. Sú tilvitnun breytti þó engu á sínum tíma. Bækur koma til manns, hægt og sígandi.

Reynar var ég alltaf hrifinn af Óljósum mörkum en Brandarinn sem ég las fyrir nokkrum mánuðum gerði útslagið. Milan Kundera er fjársjóður og við erum svo stálheppin að Friðrik Rafnsson er búinn að þýða allar bækurnar hans. Það er rausnarlegt og lofsvert framlag til íslenskra bókmennta.

Bókin sem mig langar til að lesa núna (fyrir utan allar Kundera-bækurnar sem ég á ólesnar, ég er núna staddur í smásagnasafninu hans, Hlálegar ástir) er Veröld sem var eftir Stefan Zweig. Ég sæki hana á bókasafnið fljótlega. Áhuga á henni á ég að þakka Kiljunni hans Egils Helgasonar og einum viðmælanda hans, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.