föstudagur, maí 02, 2008

Óvænt pílagrímsför

Við Kjartan fórum á Ölver í kvöld og ætluðum að horfa á leik Zenit og Bayern München í undanúrslitum UEFA-keppninni. Kjartan var m.a.s. í Bayern München treyju. En leiknum var þá fyrir löngu lokið, hann hafði hafist kl. hálffimm en ég tók mið af tímasetningu í dagskránni á Sýn (þ.e. Stöð 2 Sport). Þetta var kannski lán í óláni því Bæjarar steinlágu fyrir Rússunum í Pétursborg. Við feðgarnir gerðum okkur að góðu viðureign Fiorentina gegn Glasgow Rangers þar sem Skotar lágu í vörn og höfðu betur í vítakeppni.

Erla sótti okkur en sammælst hafði verið um að við gengjum til móts við hana í áttina að Hlemmi.
Og þá datt Kjartan í hug bensínstöðin á Laugavegi, sögusvið Næturvaktarinnar. Hann vonaðist til þess að við næðum þangað áður en Honda CRV Erlu birtist okkur. Við þuldum senur úr myndinni, ýmis samtöl þremenninganna, og vorum orðnir nánast vissir um að Georg Bjarnfreðarson tæki á móti okkur þegar við gengjum inn á stöðina og keyptum eitthvað til málamynda. Kjartan vonaðist til að Læðan hans Ólafs Ragnars væri inni á smurstöðinni.

Þegar við komum síðan að stöðinni var lokað. Auðvitað. Þetta var alveg í samræmi við þættina: Það er búið að leggja niður næturvaktina á Laugavegi. Þar með var staðfest að Næturvaktin er raunveruleiki.

Lélegt markaðsskyn

Það er rétt sem Vefþjóðviljinn bendir á um helgina: Það mun aldrei nokkur maður kjósa Framsóknarflokkinn til þess að ganga í ESB. Þeir sem vilja gera það kjósa Samfylkinguna, kannski Sjálfstæðisflokkinn.

Valgerður Sverrisdóttir og fleiri ESB-sinnar í Framsóknarflokknum ættu bara að ganga í Samfylkinguna.

Ef Framsóknarflokkurinn vill lifa þarf hann að vera fyrir Framsóknarmenn. Þeirra tími gæti sannarlega komið aftur. Eins og fjallað hefur verið um á þessari síðu og mun betur annars staðar, er vaxandi matarskortur í heiminum og framtíðin í þeim efnum ógnvænleg. Stóraukin innlend matvælaframleiðsla gæti orðið nauðsynleg fyrir Íslendinga. Í framtíðinni gæti jafnvel þurft að fjölga bændum á Íslandi! - Því þegar við höfum ekki lengur efni á korni, hrísgrjónum og sykri, þurfum við éta meira grænmeti (sem vel má vera gróðurhúsaframleitt), borða meira kjöt, meiri fisk og meiri mjólkurvörur.

Ekki gera Vísir.is að sorptunnu

http://www.visir.is/article/20080501/FRETTIR02/223543963 Þjóðin þreytist seint á að tyggja upp sömu fimmaurabrandarana og frasana. Lögreglumaður sem var svo óheppinn að vera á vakt þegar Norðlingaholtsslagurinn átti sér stað fyrir skemmstu, hefur fengið að reyna það. En nú er nóg komið. Samlíkingin í fyrirsögninni á þessari frétt er ólýsanlega smekklaus og það er smekkleysi af því taginu sem virðist eiga sér bara eina skýringu: heimsku. - Það má svo sem umbera endalausar prentvillur, málvillur og sífelldan óskýrleika og ónákvæmni í skrifum íslenskra vefmiðla, enda má gera sér í hugarlund að lág laun og tímaskortur vegi þar þungt, en það verður að vera til staðar ritstjórn sem tryggir lágmarksvelsæmi.

þriðjudagur, apríl 29, 2008

Gula húsið Hafnarfirði, Breiðavík, Armstetten Austurríki ...

... eru örfá dæmi af ótalmörgum til stuðnings því að fólk eigi að skipti sér af hvert öðru. Það er reyndar alltaf auðvelt að vera vitur eftir á og slettirekuskapur hefur aldrei talist til mannkosta. En mannskepnan er vanadýr og verður allt of sljó fyrir umhverfi sínu. Hefur þú lokað augunum fyrir heimilisofbeldi í kringum þig í áratugi?

En það er vandlifað: það getur verið stutt yfir í vænisýki og múgsefjun og ekki vil ég hvetja til slíks.

En eitt er öruggt: Ef þú hefur rökstuddan grun um ofbeldi þá áttu ekki að þegja yfir því, þú átt að tilkynna það. Það er skylda okkar allra, hvers og eins, gagnvart sjálfum okkur og samfélagi manna.

sunnudagur, apríl 27, 2008

Bókin um einhverfu




Dómsmál þar sem móðir stúlku með Asperger-heilkenni var dæmd til að greiða kennara stúlkunnar háar fjárhæðir í skaðabætur hefur vakið mikla athygli og verið endurtekið í fréttum og umræðu undanfarna mánuði, en stúlkan skellti rennihurð í höfuð kennarans fyrir slysni með þeim afleiðingum að kennarinn hlaut varanlegan skaða af.


Fréttir af málinu hafa varið mörgum óþægilegar tilfinningar, réttlætiskenndinni er misboðið en þó er ekki hægt að finna neinn sökudólg, ekki kennarann, ekki stúlkuna né bekkjarfélaga hennar og því síður móðurina; málið einfaldlega sorglegt.


Fyrir stuttu rak á fjörur mínar rit sem heitir Bókin um einhverfu og eftir að hafa blaðað örlítið í henni rakst ég á þá staðreynd að svonefnt Asperger-heilkenni er afbrigði af einhverfu. Á heimasíðu útgefandans má lesa þetta:


Í Bókinni um einhverfu nýta höfundarnir reynslu sína og þekkingu til þess að svara brýnustu spurningum foreldra, vina, kennara og annarra sem að einhverfum kunna að koma, allt frá því hvernig bregðast skuli við þeirri vanmáttartilfinningu sem kemur yfir foreldra þegar þeir heyra um greininguna í fyrsta skipti, til spurninga um orsakir einhverfu, einkenni og meðferðarúrræði. Þá eru í bókinni kaflar um uppeldi, menntun og framtíðarhorfur. Öll eru svörin sett fram á aðgengilegan hátt og taka mið af nýjustu rannsóknum.


Þarna virðist vera á ferðinni afar gagnlegt rit sem gæti hugsanlega fyrirbyggt harmleik eins og umræddan í framtíðinni og verið að öðru leyti til gagns fyrir alla þá sem umgangast einhverfusjúklinga en þeim mun hafa fjölgað mikið í seinni tíð. Lesið meira hér: http://www.graenahusid.is/index.htm