Óvænt pílagrímsför
Við Kjartan fórum á Ölver í kvöld og ætluðum að horfa á leik Zenit og Bayern München í undanúrslitum UEFA-keppninni. Kjartan var m.a.s. í Bayern München treyju. En leiknum var þá fyrir löngu lokið, hann hafði hafist kl. hálffimm en ég tók mið af tímasetningu í dagskránni á Sýn (þ.e. Stöð 2 Sport). Þetta var kannski lán í óláni því Bæjarar steinlágu fyrir Rússunum í Pétursborg. Við feðgarnir gerðum okkur að góðu viðureign Fiorentina gegn Glasgow Rangers þar sem Skotar lágu í vörn og höfðu betur í vítakeppni.
Erla sótti okkur en sammælst hafði verið um að við gengjum til móts við hana í áttina að Hlemmi.
Og þá datt Kjartan í hug bensínstöðin á Laugavegi, sögusvið Næturvaktarinnar. Hann vonaðist til þess að við næðum þangað áður en Honda CRV Erlu birtist okkur. Við þuldum senur úr myndinni, ýmis samtöl þremenninganna, og vorum orðnir nánast vissir um að Georg Bjarnfreðarson tæki á móti okkur þegar við gengjum inn á stöðina og keyptum eitthvað til málamynda. Kjartan vonaðist til að Læðan hans Ólafs Ragnars væri inni á smurstöðinni.
Þegar við komum síðan að stöðinni var lokað. Auðvitað. Þetta var alveg í samræmi við þættina: Það er búið að leggja niður næturvaktina á Laugavegi. Þar með var staðfest að Næturvaktin er raunveruleiki.