Ég spjallaði við bráðhuggulega konu á Ölstofunni á föstudagskvöldið. Þetta var mjög siðsamlegt hjá okkur en hún sagðist eiga 33 ára gamlan kærasta (sjálf var hún 36) sem væri frekar stjórnsamur og hún vildi satt að segja vera laus við hann í kvöld og geta um frjálst höfuð strokið. Hann væri t.d. svo afbrýðisamur að eflaust yrði hann argur ef hann sæi hana tala við mig. Stuttu síðar birtist kærastinn og reyndist vera allþekktur og í seinni tíð nokkuð umdeildur söngvari. Hann benti á mig og spurði stúlkuna hvasst: "Hver er þetta?" - Þau kvöddu samt friðsamlega. Mér líkaði vel við hana. Þetta var ósköp vinalegt.
Ennþá fallegri kona gaf mér auga við barinn, eflaust til að stríða gömlum manninum. Mér þótti það óþægilegt, leit undan, en auðvitað kitlaði það líka þó að ég reyndi að leggja ekki of mikla merkingu í það. Stuttu síðar rabbaði ég við kærasta þeirrar stúlku á salerninu og hann reyndist vera mikill slagsmálahundur. Kom því í ljós þetta kvöld að gott er að láta konur annarra manna eiga sig.
Annars hitti ég haug af fólki: Einar Örn Gunnarsson, Kristjón Kormák, Guttesen og Hermann Stefánsson stöppuðu í mig stálinu út af skriftunum sem satt að segja hafa ekki gengið vel síðan ég kláraði síðustu bók. Einnig ræddi ég við Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur sem mér á óvart er gengin í Samfylkinguna. Enda er hún gift Ágústi Ólafi Ágústssyni. Ég lét hana líka ósnerta.