fimmtudagur, júní 16, 2005

Nú heldur meistarinn sig frá sviðsljósinu á meðan aðrir fjölskyldumeðlimir eru í eldlínunni. Erla kemur fram í söngatriði á stúdentahátíð á Akureyri í kvöld og Freyja er að fara að keppa með KR á eftir. Reyndar er ég með útvarpspistil eftir rúma viku og er búinn að ákveða efnið.
Legg af stað norður á morgun síðdegis með Martin Eyjólfssyni, fyrrv. bjargvætti ÍBV á sínum tíma. Hann vill voða mikið tala um síðustu viðureign ÍBV og KR á leiðinni. Ég tek tölvuna væntanlega með mér og pikka á hana á meðan hann lætur dæluna ganga.

Sjötta kílóið farið.

Fjórði góðviðrisdagurinn í röð runninn upp í Reykjavík og ég er að fara norður í eitthvert skítaveður. Til hvers? Legg af stað í fyrramálið og kem aftur á sunnudagskvöldið.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Kristjón Kormákur flutti rétt í þessu pistil á Talstöðinni og þótti mér hann bæði skemmtilegur og vel uppbyggður. Ég fæst hins vegar ekki við hið undarlega fag, pistlagagnrýni, svo ég hef ekki meira um málið að segja. Ég geri ráð fyrir að Kristjón verði þarna á sama tíma, þ.e. 17.45 á miðvikudögum, framvegis, á Fm 90, 90, en hann getur væntanlega staðfest það.

Bloggsíða Hermanns Stefánssonar

http://nordanattin.blogspot.com/ Tékkið á þessu.

Mér skilst að einn af reglulegum blogglesendum mínum haldi að ég sé húmorslaus. Þarf ég að afklæða húmorinn minn til að fólk fatti hann? Beita honum oftar? Nei, það eru litlar líkur á því að ég breyti svo róttæklega um stíl, þrátt fyrir meintar endurnýjanir.

Svo er það náttúrulega spurning hver er sá húmorslausi ...

Ætli Spaugstofunni þyki Woody Allen húmorslaus? Alltaf þrasandi og barmandi sér.

Helga Braga og Edda Björgvins þykja fyndnustu konur landsins en ég hef nánast aldrei hlegið að neinu hjá þeim. En ég veit að þær eru fyndnar, því ég beygi mig undir meirihlutavald í slíkum efnum.

Mamma liggur alltaf í krampakasti þegar hún horfir á Spaugstofuna. Það þykir mér merkilegt.

Kvenmannsleysi og bakverkur horfin eins og dögg fyrir sólu. Litla systir mín, sem er glæsileg kona, hafði samband við mig í hádeginu og hitti mig á Hressó. Á slaginu eitt var ég síðan mættur til nuddarans og þá kom auðvitað í ljós að ég er miklu aumari og stífari en ég hélt. Skokkið gerir mér hins vegar ekkert nema gott, að hans mati, það eru setur og tölvuhangs sem stífa vöðvana.

Nei, ekki alveg frí. Klukkan er 11:38. Ég hef fengið minn fyrsta bakverk á ævinni og er á leiðinni í nuddtíma (hér er boðið reglulega upp á nudd, þ.e.a.s á Íslensku auglýsingastofunni) kl. 13. Ég er í svörtum Kalvin Klein jakkafötum sem ég keypti í Outlet-búð í útjaðri San Diego í fyrra. Buxurnar voru alltaf hálfþröngar en passa núna. Fötin eru hins vegar algjört drasl, gsm-vasinn ónýtur og annar hliðarvasinn er rifinn en það sést ekki.

Ég er ákaflega kvenmannslaus. Erla er farin norður. Alltaf er ég skotnastur í henni þegar hún er ekki hjá mér. Freyja hefur sogast inn í vinkvennaveröld hverfisins og ég sé hana varla mikið meira í sumar. Hún gisti hjá vinkonu sinni í nótt. Það er bara ég og Kjartan.

Og þó. Ég hef mömmu. Hún keyrði okkur í morgun og ég var hálftíma að eltast við e-n brúðubíl áður en gat losað mig við drenginn. Hann vann mig í handboltaleik í gærkvöld, við leikum sérstakan innanhúshandbolta og hann hafði ekki unnið leik lengi. Hann var Spánn og ég var Þýskaland. - Mamma er að vinna mjög spennandi verkefni sem ég segi ykkur frá bráðlega, þegar ég fæ leyfi hjá henni.

En mér var að detta það í hug að þó að ég sé oft hræddur við konur og margar þeirra fari í taugarnar á mér þá myndi ég veslast upp ef ég hefði ekki konur í kringum mig. Kvenkyn. Hitti Erlu á föstudaginn. Í huganum dreg ég hana afsíðis í "make-out" en í raunveruleikanum mun það koðna niður í einhverju krakkabrasi eða praktísku viðfangsefni augnabliksins, að eilífu gleymdu í næsu andrá.

Erla er semsagt á Akureyri en við hittumst öll í Skagafirði fyrir helgi og verðum þar í góðum hópi smáborgara. Ég er lítill landsbyggðarmaður en mér finnst alltaf spennandi að koma til Skagafjarðar.

Bókin mín er skáldsaga í augnablikinu, við samruna tveggja nóvelluhugmynda sem voru í senn spegilmyndir og andstæður. Spennandi og erfitt dæmi.

Sólarfrí II

Nú er ég sjálfur líka í sólarfríi. Set kannski e-ð inn í kvöld.

þriðjudagur, júní 14, 2005

Helgi Hóseason orðinn mainstream og farinn að berjast gegn reykingum. Hvað á nú það að þýða?

mánudagur, júní 13, 2005

http://www.visir.is/?PageID=90&NewsID=44700 Má fara með 10 ára krakka á svona tónleika?

Þetta er tími mikilla endurnýjanna og kynni að vera, þegar ég lít til baka, tímapunkturinn í lífi ÁBS þegar hann kom í veg fyrir stöðnun á miðjum aldri. Ferskleiki og endurnýjun í ýmsum þáttum er nauðsynleg núna, ekki síst þar sem ég er að glíma við skáldverk sem verður að öllum líkindum töluvert frábrugðið því sem ég hef sent frá mér áður. Núna ætla ég að fara að taka dálítið til í blogglestri mínum. Um töluverða hríð hef ég verið að lesa bloggsíður af vana, síður sem mér þóttu ýmist góðar áður, en hef ekki gaman af lengur, eða síður sem mér hefur í raun aldrei líkað við, en hef lesið vegna þess að ekkert annað bauðst undir mínu áhugasviði. Núna er ég orðinn hundleiður á þessum síðum og fólkinu sem skrifar þær. Mig langar til að kanna hvað fleira er á boðstólum.

Í fyrsta lagi langar mig til að bæta við fleiri síðum í lessafnið frá fólki sem er að segja frá sjálfu sér og hversdagslífi sínu en flokkast hvorki undir rithöfunda ná þjóðmálarýna. Kynnast lífi fólks upp að hæfilegu marki. - Síðan langar mig að finna nýjar bloggsíður um þjóðfélagsmál og lesa reglulega. Ég mun hins vegar halda áfram að lesa tiltekin vefrit, sem ég hef lesið áður, t.d. pólitísku vefritin og Silfur Egils.

Erfiðast er að finna almennilega bókmenntaumræðu. Þó er aldrei að vita hvað leynist í blogginu en ég nenni ekki lengur að lesa bókmenntagtengdar síður bara af því þær eru bókmenntatengdar.

Ég ætla að grauta í þessu á næstunni. Það eina sem er öruggt er að þrjár síður eru farnar af mínum lista og ég les þær ekkert á næstunni. Ég veit hins vegar ekki enn hvað leysir þær af hólmi.

Það þarf að endurnýja þetta eins og annað.

Æsa Bjarnadóttir - Elísabet Ólafsdóttir - síðbúin afsökunarbeiðni

Þetta hefur verið að naga mig í allt vor og nú er best að koma því frá sér svo það sé úr heiminum. Ég hef lent í ýmsu karpi á netinu undanfarin misseri en það eru aðallega þessar tvær sem sitja í mér. Mig langar til að biðjast afsökunar á ýmsum leiðinlegum og niðrandi ummælum, barnaskap, hroka og geðvonsku - sem ég gerði mig sekan um í algjörlega óþörfu hnútukasti við þessar tvær ágætu konur.

Færslan þarfnast engra viðbragða, í rauninni skipta viðbrögð þeirra mig engu. Ég er búinn með þessa vorhreingerningu og þarf ekki að hugsa um þetta framar.

Sólarfrí

Þið þurfið ekki að lesa þessa síðu í dag. Þið megið fara út að leika ykkur.

Háskóla - snobbafbrigði

Augljós merki um að landið sé loksins að rísa hjá mér í skriftunum: Ég hef tekið Who úr eyrunum, læt Miles Davis gutla í staðinn og lækka hressilega. - Who eru alltof truflandi, maður tjúnast upp og verður glaður og barnalegur. Þegar maður er farinn að skrifa af viti vill maður ekki lengur láta músíkina trufla sig.

sunnudagur, júní 12, 2005

http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=44661 Ég skrifaði smásögu um þetta sem heitir Fengitími 1973. Hún var dónaleg en vel skrifuð og vel hugsuð. Er ekki með Hringstigann við höndina og get því ekki snarað fram tilvitnun. En þetta hef ég horft upp á og fékk hugmyndina að sögunni við það.

Af feitum og frægum

Það eru nákvæmlega fimm kíló farin - Vesturbæjarlaugin staðfesti það í dag. Nú mun þetta áreiðanlega gerast mjög hægt og líklega hefur aðeins hálft kíló farið í mánuðinum það sem af er.

Ég hef aldrei spjallað mikið við Össur Skarphéðinsson en við höfum heilsast vegna barna í sömu leikskólum og barnaskólum. Í hádeginu kom hann hins vegar askvaðandi á móti mér í Lækjargötu og upphóf hávært spjall um megrun. Kvaddi mig síðan með mjög traustu handabandi og óskaði mér velgengni. Mér fannst hann ansi þykkur að sjá en það fer honum ekki illa og hefur aldrei gert það.

Nú, svo er það sá þriðji feiti. Sá Þorstein Guðmundsson á göngu niður Bankastræti í gær með fjölskyldu sinni. Ég sé ekki betur en við höfum mæst á miðri leið og séum komnir í sama fituflokk, ég með því að grennast, hann með því að fitna. Nú er spurning hvert hann stefnir?

Bókmenntir? Hvað er nú það? Hér ríkir slúðrið. Annars er ég að fara að skrifa á eftir.