Nei, ekki alveg frí. Klukkan er 11:38. Ég hef fengið minn fyrsta bakverk á ævinni og er á leiðinni í nuddtíma (hér er boðið reglulega upp á nudd, þ.e.a.s á Íslensku auglýsingastofunni) kl. 13. Ég er í svörtum Kalvin Klein jakkafötum sem ég keypti í Outlet-búð í útjaðri San Diego í fyrra. Buxurnar voru alltaf hálfþröngar en passa núna. Fötin eru hins vegar algjört drasl, gsm-vasinn ónýtur og annar hliðarvasinn er rifinn en það sést ekki.
Ég er ákaflega kvenmannslaus. Erla er farin norður. Alltaf er ég skotnastur í henni þegar hún er ekki hjá mér. Freyja hefur sogast inn í vinkvennaveröld hverfisins og ég sé hana varla mikið meira í sumar. Hún gisti hjá vinkonu sinni í nótt. Það er bara ég og Kjartan.
Og þó. Ég hef mömmu. Hún keyrði okkur í morgun og ég var hálftíma að eltast við e-n brúðubíl áður en gat losað mig við drenginn. Hann vann mig í handboltaleik í gærkvöld, við leikum sérstakan innanhúshandbolta og hann hafði ekki unnið leik lengi. Hann var Spánn og ég var Þýskaland. - Mamma er að vinna mjög spennandi verkefni sem ég segi ykkur frá bráðlega, þegar ég fæ leyfi hjá henni.
En mér var að detta það í hug að þó að ég sé oft hræddur við konur og margar þeirra fari í taugarnar á mér þá myndi ég veslast upp ef ég hefði ekki konur í kringum mig. Kvenkyn. Hitti Erlu á föstudaginn. Í huganum dreg ég hana afsíðis í "make-out" en í raunveruleikanum mun það koðna niður í einhverju krakkabrasi eða praktísku viðfangsefni augnabliksins, að eilífu gleymdu í næsu andrá.
Erla er semsagt á Akureyri en við hittumst öll í Skagafirði fyrir helgi og verðum þar í góðum hópi smáborgara. Ég er lítill landsbyggðarmaður en mér finnst alltaf spennandi að koma til Skagafjarðar.
Bókin mín er skáldsaga í augnablikinu, við samruna tveggja nóvelluhugmynda sem voru í senn spegilmyndir og andstæður. Spennandi og erfitt dæmi.