Tregafull fegurð
Kristín Steinsdóttir: Sólin sest að morgni
Sólin sest að morgni er meitlað, sérstætt og ljóðrænt verk um bernskuminningar þar sem lífsgleði er blönduð ugg og sorg. Sögunni vindur fram í örstuttum köflum, lýsingar eru myndrænar með áherslu á hina fersku skynjun barnsins á veruleikanum jafnframt því sem ágæt aldafarslýsing birtist á íslensku sjávarþorpi á sjötta áratugnum, ásamt fallegum persónulýsingum, þroska og mótun sjálfsmyndar ungrar stúlku. Oftast er sögumanneskja stödd í fortíð bernskunnar en einstaka sinnum í nútímanum, þar sem Reykjavíkurútsýni í glugganum er skyndilega komið í stað fjallsins í æskufirðinum og minningarnar leita á hugann.
Heitar tilfinningar ólga undir látlausu yfirborðinu, meitlaður og brotakenndur stíllinn þjónar þríþættum tilgangi verksins fullkomlega: að lýsa upplifun barnsins á tilverunni og umhverfinu, að sýna hvernig æskuminningar lifa með okkur og birtast í formi myndbrota í hugskotinu, og umfram allt að miðla sorginni í sögunni.
Höfundur beitir endurtekningum á markvissan hátt en af mikilli sparsemi. Endurtekningar í lok bókar eru sérlega áhrifamiklar og þá nær stílsnilld höfundar hámarki í skáletruðum texta, nokkurs konar prósaljóði, sem er hlaðið margræðri merkingu og kallar á síendurtekinn lestur.
Sagan virðist vera sönn að efni til en stíll og form eru í anda agaðrar fagurfræði.
Sanngildi efnisins staðfestist með ljósmyndum frá æskuárum höfundar. Listrænt samspil ljósmynda og texta er sterkt og áhrifamikið. Til dæmis birtist kápuljósmynd einnig aftast í bókinni og magnar upp þær tilfinningar sem lesturinn vekur. Að lestri loknum virðir maður myndina lengi fyrir sér, gagntekinn tregafullri fegurð, og heldur aftur af tárunum.
Ég fæ ekki betur séð en að hér hafi Kristín Steinsdóttir skapað framúrskarandi verk. Bókin lætur hins vegar of lítið yfir til að geta öðlast þá viðurkenningu sem hún á skilið: orðafjöldinn er á við smásögu í lengri kantinum og efnið býður ekki upp á sprengingar í þjóðfélagsumræðu. En lesanda með þokkalegt fegurðarskyn og tilfinninganæmi í meðallagi á hún að geta orðið kær félagi.
Þessi litla perla á eftir að verða mér hugstæð lengi.