laugardagur, desember 11, 2004

Karlremban í mér hneykslast á því að feministar séu að ofsæka Björn Jörund fyrir að gefa út máttlaust hálfstrípiblað.

Feministanum í mér (ætli þær langi ekki til að hrækja á mig fyrir að ég skuli leyfa mér að kalla mig feminista) gremst hins vegar 17% launamunur kynjanna hjá hinu opinbera og stöðug sniðganga kvenna í ráðningar hárra embætta, strákaklíkuskapurinn á vinnustöðum osfrv.

Verst að ekki er hægt að berjast fyrir þessum málefnum án þess að klæða sig í bleikan bol og skrækja út af BogB.

Slæmur dómur í Mogganum í dag. Ekki meira um hann að segja. Ja, nema þessi spurning: Hvers vegna skrifar hún þannig um bókina að bókin virðist áhugaverð en gefur henni síðan slæma dóma? Þurfið þið ekki annars að lesa bókina til að átta ykkur á þessum fugli? Þeir sem eru að koma hingað inn daglega ættu að gera það. Hún er á góðu verði.

föstudagur, desember 10, 2004

Ég hélt í fyrstu að Tómas bloggari væri kannski eins og persóna úr sögu eftir mig. Mér fannst því og þykir enn fróðlegt að lesa meira eftir og um hann. En svo þegar ég rak augun í næstnýjustu færsluna hans (og vonandi verða þær reglulegar núna) kemur í ljós að hann er eins og persóna úr bók eftir Mikael Torfason, t.d. Heimsins heimskasti pabbi eða Samúel. Mér fannst ég alltaf skynja sannleika um lífið úr þeim bókum þó að þær lýstu heimi sem ég þekkti ekki. Á bloggsíðu Tómasar, þegar hann nennir að blogga, birtist þessi heimur.

Gunnar Gunnarsson spjallaði um Lömuðu kennslukonurnar hans Guðbergs á Morgunvaktinni í útvarpinu í morgun. Gunnar lýsti Guðbergi sem snillingi er kæmi ekkert til móts við lesendur enda hefði bók hans ekki verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna heldur m.a. bækur miðlungshöfunda á miðjum aldri.

Ógurlegur letingi getur hann verið, hann Tómas á http://raunveruleiki.blogspot.com/
Í fyrsta skipti á ævinni rakst ég á blogg sem vakti mér mikla forvitni og eftirvæntingu, með fullri virðingu fyrir öllum hinum bloggurunum, en maðurinn nennir ekkert að skrifa, hann uppfærir ekki svo vikum skiptir. Kannski fór konan frá honum út af leti?

Mér tókst fyrir einhverja furðulega tilviljun að hreinsa alla vírusa og trójuhesta úr heimilistölvunni í gærkvöld. Þeir sem þekkja mig vita hvað þetta er undarlegt.

fimmtudagur, desember 09, 2004

Ég hef 80 þús. krónur í tekjur sem smásagnahöfundur á árinu sem er að líða. Er ég að væla rétt eina ferðina? Nei, ég er ánægður með þetta. Almennt er álitið að smásögur séu yfirhöfuð ekki birtar og þannig hefur ástandið verið í seinni tíð. En þar sem eru smásagnasmugur þar leynist auðvitað meistarinn. Þetta er samtals fyrir birtingar í smásagnablaði Nýs lífs, í Uppspuna og í 23. apríl, plús smápeningur fyrir lestur á Bókaþingi á Rás 1.

Birtingarnar árið 2003 voru líklega fleiri en tekjurnar minni. Þá birti ég aftur í Nýju lífi og eina í Lesbókinni en þá voru engin safnrit. Svo birti ég eina í Heima er best, en rukkaði ekkert, þetta var verðlaunasaga úr keppni. Birti líka eina í TMM 2003 en reyndi ekkert að rukka; þetta var áður en Silja tók við.

Ég efast um að ég birti smásögur á næstu misserum, þó er aldrei að vita. Umfram allt einbeiti ég mér að skrifunum og tek mér núna góðan tíma.

Ég hef ekkert minnst á upplesturinn á þriðjudaginn. Hann var fámennur. Flosi var fyndinn, Baldur er með góða bók en er slakur upplesari og ljóðin fóru fyrir ofan garð og neðan. Sögukafli Kristínar Ómarsdóttur virkaði vel og Óskar Árni uppskar mikinn hlátur. Nokkrar hugsjónadruslur voru á meðal áhorfenda, m.a. sú með hattinn, sem hann lagði snyrtilega frá sér á borðið á meðan hann hlýddi hljóður og þægur á upplesturinn. Og ein druslan, Haukur Ingvarsson, las upp úr Niðurfalli. Mér leist ansi vel á textann og upplesturinn var góður. Ég spjallaði lítillega við hann í lokin og þakkaði góðan upplestur. Haukur kom mér strax í dálitla klípu: sagði alvarlegur í bragði að honum hefði mislíkað mjög það sem ég skrifaði um hann og félaga hans í Nyhil. "Að kalla okkur skríl", sagði hann nánast miður sín. Ég sagði skelfingu lostinn að þetta hefði nú bara verið grín en hann sagði, "ég skildi þetta ekki sem grín." Ég tautaði áfram einhverjar afsakanir og útskýringar og hann virtist samþykkja þær og fyrirgefa mér. Eftir það sagðist hann hafa verið að grínast, honum hefði ekki mislíkað eitt né neitt. Það vantar ekki húmorinn á þennan bæinn.

Tregafull fegurð

Kristín Steinsdóttir: Sólin sest að morgni

Sólin sest að morgni er meitlað, sérstætt og ljóðrænt verk um bernskuminningar þar sem lífsgleði er blönduð ugg og sorg. Sögunni vindur fram í örstuttum köflum, lýsingar eru myndrænar með áherslu á hina fersku skynjun barnsins á veruleikanum jafnframt því sem ágæt aldafarslýsing birtist á íslensku sjávarþorpi á sjötta áratugnum, ásamt fallegum persónulýsingum, þroska og mótun sjálfsmyndar ungrar stúlku. Oftast er sögumanneskja stödd í fortíð bernskunnar en einstaka sinnum í nútímanum, þar sem Reykjavíkurútsýni í glugganum er skyndilega komið í stað fjallsins í æskufirðinum og minningarnar leita á hugann.

Heitar tilfinningar ólga undir látlausu yfirborðinu, meitlaður og brotakenndur stíllinn þjónar þríþættum tilgangi verksins fullkomlega: að lýsa upplifun barnsins á tilverunni og umhverfinu, að sýna hvernig æskuminningar lifa með okkur og birtast í formi myndbrota í hugskotinu, og umfram allt að miðla sorginni í sögunni.

Höfundur beitir endurtekningum á markvissan hátt en af mikilli sparsemi. Endurtekningar í lok bókar eru sérlega áhrifamiklar og þá nær stílsnilld höfundar hámarki í skáletruðum texta, nokkurs konar prósaljóði, sem er hlaðið margræðri merkingu og kallar á síendurtekinn lestur.

Sagan virðist vera sönn að efni til en stíll og form eru í anda agaðrar fagurfræði.
Sanngildi efnisins staðfestist með ljósmyndum frá æskuárum höfundar. Listrænt samspil ljósmynda og texta er sterkt og áhrifamikið. Til dæmis birtist kápuljósmynd einnig aftast í bókinni og magnar upp þær tilfinningar sem lesturinn vekur. Að lestri loknum virðir maður myndina lengi fyrir sér, gagntekinn tregafullri fegurð, og heldur aftur af tárunum.

Ég fæ ekki betur séð en að hér hafi Kristín Steinsdóttir skapað framúrskarandi verk. Bókin lætur hins vegar of lítið yfir til að geta öðlast þá viðurkenningu sem hún á skilið: orðafjöldinn er á við smásögu í lengri kantinum og efnið býður ekki upp á sprengingar í þjóðfélagsumræðu. En lesanda með þokkalegt fegurðarskyn og tilfinninganæmi í meðallagi á hún að geta orðið kær félagi.

Þessi litla perla á eftir að verða mér hugstæð lengi.

Ég er hættur öllu plöggveseni og fer að huga að efni næstu bókar. Í augnablikinu er líklegast að næsta bókin mín verði stutt skáldsaga. Líklega mun ég skiptast á við skáldsagna- og smásagnaskrif í framtíðinni. Það sem er komið af kynningu fyrir utan fréttatilkynningar: Ýmiskonar kynning á Kistunni, viðtal í Vesturbæjarblaðinu, viðtal í Fréttablaðinu, lofsamlegur dómur í DV og sæmilegur dómur í Fréttablaðinu. - Mogginn umgengst mig eins og daunillt kvikindi og myndi líklega eitra fyrir mér ef hann fengi til þess tækifæri. Hef ekki hugmynd um af hverju þau sinnaskipti stafa, líklega er þetta þó einhver ringulreið, blankheit og doði á blaðinu. Ég fæ ekki einu sinni ritdóm í blaðinu eins og eiginútgáfuskáldin hafa þó verið að fá undanfarið. En það skyldi þó aldrei vera að ég yrði langlífari en Mogginn? Ekkert er varanlegt í tilverunni og ég veit ekki betur en óveðursskýin hlaðist upp yfir blaðinu.

- Mér hefur verið marglofað viðtali í Víðsjá en er ekki viss um að það gangi eftir.

Þannig að þetta verður að duga. Ég býst við að salan verði skárri en á undanförnum bókum en þó ekki mikið skárri. En rithöfundar eiga að skrifa, aðrir þurfa að sjá um hitt og maður hefur ekki tíma til að velta sér upp úr því að þeim takist illa upp. Ótal sögur bíða óskrifaðar og nú er bara að hrista þetta jólabókaflóð af sér sem fyrst og láta jólaatið ganga yfir. Markvissar skriftir byrjar strax milli jóla og nýárs og Þýskalandsferð er ráðgerð í janúar.

miðvikudagur, desember 08, 2004

KSÍ framlengdi ekki tveggja ára ráðningarsamning við Helenu Ólafsdóttur, landsliðsþjálfara kvenna í knattspyrnu. Hún náði mjög góðum árangri með liðið en Eggerti Magnússyni þótti frammistaðan í lokin gegn þjóðum í allra fremstu röð ekki vera nógu góð. Á sama tíma eru landsliðsþjálfarar karlaliðsins, þeir Ásgeir Sigurvinsson og Logi Ólafsson, gjörsamlega búnir að missa tökin á starfinu og liðið er að slá margra áratuga met í ömurlegri frammistöðu og hrynur bókstaflega niður heimslistann. Samt kemur ekki til greina að víkja þeim félögum frá. Ég veit að samningur Helenu var runninn út og þetta var spurning um endurráðningu en Logi og Ásgeir eru ennþá á sínum samningi, en í mínum huga vegur þessi munur ekki ýkja þungt. Það sem skiptir máli er að hyldýpisgjá er orðin á milli frammistöðu kvennalandsliðsins og karlalandsliðsins kvennaliðinu í vil. Erfitt er að trúa því að árangursmat ráði þessari niðurstöðu. En hvað er á bak við þetta? Þetta eru satt að segja ekki trúverðug vinnubrögð.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Ritdeilur um trúleysi hafa vakið athygli mína undanfarið þó að fátt í þeim komi á óvart. Í dag er ágæt grein í Fréttablaðinu þar sem minnt er á þá staðreynd að almennt eru það ekki trúleysingjar sem ofsækja aðra vegna trúarskoðana sinna. Trúarbragðastríð hafa ekki verið háð af trúleysingjum. Alþekkt er þó að kristni hefur átt undir högg að sækja í kommúnistaríkjum enda minna pólitískar öfgar oft á trúarofstæki.

Ég á vin sem er þekktur bókmenntamaður (augljóslega á ég ekki nógu marga svoleiðis vini)
og sendi honum meil í gær þar sem ég ráðfærði mig við hann um upplesturinn sem er í kvöld. Ég ætla að lesa úr lengstu sögunni úr bókinni, Eftir sumarhúsið, en hún er 27 blaðsíður. Sagan skiptist í þrjá hluta og ég var að bræða með mér hvaða hluta ég ætti að lesa. Svar hans var eftirfarandi:

"Ég mundi lesa fyndna kaflann þar sem eiginmaðurinn er stöðugt skammaður af konunni sinni. Það fannst mér óborganlegur kafli og ég gæti trúað að margir eiginmenn geti samsamað sig honum. Ég las þessa sögu aftur í síðustu viku og naut hennar á ný. Hún fangar með makalausum hætti hið hversdagslega ströggl hjónalífsins og í rauninni miklu meira en það þegar tekið er mið af endinum. Makalaus saga sem ég fíla í botn."

So be it. Þetta þýðir að ég les fyrsta hluta sögunnar. Upplestur minn í kvöld er því tileinkaður giftu fólki um fertugt. Um leið prísa ég mig sælan að eiga svona skemmtilega og góða eiginkonu sem ekki gæti ratað inn í sögu af þessu tagi.

mánudagur, desember 06, 2004

Skáldaspírukvöld á Kaffi Reykjavík, þriðjudagskvöld kl. 21:

Ágúst Borgþór Sverrisson
Óskar Árni Óskarsson
Kristín Ómarsdóttir
Baldur Óskarsson
Flosi Ólafsson
Haukur Ingvarsson



Egill Helgason veltir því fyrir sér á visir.is hvers vegna ríkisstjórnin sé svona óvinsæl þegar allt, eða flest, gengur svona vel í þjóðfélaginu. Efnahagsmál eru mál málanna í stjórnmálum og ekki hefur maður þurft að hafa áhyggjur af þeim í mörg ár, hins vegar var efnahagsvandinn og óðaverðbólgan nánast eins og náttúrulögmál þegar ég var að vaxa úr grasi. Egill týnir til nokkrar skýringar en ég held að þyngst vegi að stórum hluta fólks finnst að flokkar sem setið hafa nokkur kjörtímabil í röð eigi að víkja. Ég skil hins vegar ekki þann hugsunarhátt.

Aftur er Óskar Hrafn Þorvaldsson farinn að skrifa upp væntanlegt gengi KR. Sjá íþróttasíðu DV í dag. Stór grein birtist eftir hann síðvetrar þar sem hann taldi upp leikmenn KR og lét eins og það væri formsatriði fyrir Vesturbæinga að verja titilinn. Núna er kominn svipaður tónn í skrif hans um leikmannahreyfingar fyrir næsta tímabil. KR hefur misst nokkra leikmenn og keypt þrjá: Grétar Hjartarson, Bjarnólf Lárusson og færeyskan landsliðsmenn. Auk þess er Tryggvi Bjarnason að koma inn í hópinn fyrir Kristján Sigurðsson. - Ég er ánægður með alla þessa nýju menn en ég skil ekki hvers vegna Óskar Hrafn skrúfar svona upp væntingar vegna þeirra. Grétar Hjartarson hefur stærstan hluta feril síns spilað með Grindavík, það er ekki eins og við séum að fá Eið Smára í framlínuna. Bjarnólfur er sterkur Vestmannaeyingur, but so what? (eða: na und). Og Rógvi er færeyskur landsliðsmaður, ekki brasilískur. KR verður í toppbaráttunni næsta sumar en fleira er ekki hægt að bóka um tímabilið.

Það er dálítið stressandi að ganga framhjá Sendiráði Bandaríkjanna eins og ég þarf að gera daglega. Öryggisverðir standa ýmist fyrir utan dyrnar og fylgjast með mannaferðum eða þeir skjótast út um leið og maður gengur hjá. Fas þeirra er þó í senn afslappað og athugult. Þeir skynja auðvitað að stóri dökklæddi og þéttvaxni maðurinn er ekki hættulegur
frekar en gamla konan sem átti leið um rétt áðan og þó að líklega viti þeir ekki að það eru bara einhver smásagnasöfn í töskunni hans efast þeir líklega um að það sé sprengja í henni. Engu að síður forðast maður með meðvitað allar snöggar hreyfingar og þykir sérkennilegt að þurfa að gæta sín svona á götu í fáförnum Þingholtunum.

Sá einhver ritdóm Friðrikku Beneónýs um Klisjukenndir Birnu Önnu? Friðrikka segist ekkert botna í því hvers vegna þessi bók var gefin út. Ég ætla að láta skoðun mína á þessu liggja á milli hluta þó að ég sé reyndar búinn að lesa bókina. En það er annar athyglisverður punktur í þessu: Svona ritdómur í blaðinu hefur nánast engin áhrif á gengi bókar. Nú þegar hefur birst fjöldi viðtala við höfundinn og hún er glæsileg ung kona sem kemur vel fyrir, kápan á bókinni þykir frábær sem og titillinn. Einhvern veginn liggur í loftinu að þessi bók sé að fá góðar viðtökur og þyki góð en það er eiginlega meira og minna út af umbúðunum. Svo þegar fyrsti dómurinn um hana birtist, sannkallaður aftökudómur inni í miðju bókablaði Moggans, þá tekur enginn eftir honum.

Verð ég ekki að tjá mig um tilnefningarnar til bókmenntaverðlaunanna? Ég hef svo sem ekkert nema gott um þær að segja. Ég hef ekki lesið þessar bækur, en tvær af þeim sem ég hef lesið, Guðbergur og Bragi, held ég að hljóti að hafa sómt sér vel á þessum lista líka. Sjálfur gat ég ekki gert mér neinar vonir þar sem mín bók var ekki lögð fram, forlagið mitt telur þessar tilnefningar það fyrirsjáanlegar að vonlítið sé að leggja fram verk sem ekki eru gefin út hjá Eddu, JPV eða Bjarti. Ég ætla ekki að kommenta á það. En ég efast reyndar um að mín bók eigi heima á "topp-fimm" þó að góð sé. Fróðlegt hvað fólki finnst um að Bragi, Guðbergur, Stefán Máni og Steinar Bragi hafi ekki sloppið inn á listann.

Var á jólahlaðborði í vinnunni á laugardagskvöld og var ræðumaður kvöldsins. Það tókst mjög vel og ég uppskar nokkuð reglulegan hlátur. Reyndar er ekki til betri og þægilegri salur fyrir fyndnar ræður en vinnufélagar í hóp. Á sunnudag las ég upp á ansi fámennum en engu að síður góðum upplestri Hótel Borg. Einstakur andi í þessu húsi sem ég hef ekki komið í nokkuð lengi. Hótel Borg hlýtur að hafa verið algjört undur í þessu þorpi sem Reykjavík var árið 1920 þegar hún reis. Um það má lesa í frábærri Reykjavíkurbók eftir Guðjón Friðriksson. Þar er líka sagt frá píanóleikara sem hafði það starf að flytja músík undir þöglum myndum á sýningum í Gamla bíói. Hann sat niðri í hljómsveitargryfju og sneri baki í tjaldið en myndin birtist honum á tjaldi og hann varð að leika viðeigandi músík við myndina af fingrum fram.

Óhætt er að segja að ég hafi farið úr einu í annað í þessari stuttu færslu.