Að búa í úthverfi hefur fengið aðra merkingu í huga mínum eftir matarboðið hjá Rúnari Helga og Guðrúnu í kvöld. Útsýnið úr íbúðinni þeirra er nefnilega stórkostlegt og nær yfir stóran hluta af borginni.
Við Rúnar Helgi vorum nokkurn veginn sammála um að ritlistinni væri að blæða út og ef menn eins og ég og hann ætluðum að sinna bókagerð í framtíðinni myndi það snúast um að þýða reyfara, því varla færum við að frumsemja þá. Hann myndi hugsanlega kenna fagurbókmenntir á fámennum námskeiðum fyrir sérvitringa.
Það var semsagt mjög létt stemning í þessu matarboði þar sem Erla lýsti því t.d. yfir að henni fyndist oft óþægilegt að lesa bloggið mitt, bæði væru e-r skíthælar að ráðast á mig þar í kommentakerfinu, ég virtist vera að daðra við eitthvert kvenfólk og svo væri ég að skrifa um hana að henni forspurðri. Guðrún spurði mig: Hvernig fyndist þér að hún bloggaði svona?
Og hvort sem þið trúið því eða ekki þá var glatt á hjalla í þessu ágæta samkvæmi.
Maturinn reyndist vera alveg hveitilaus, ég hefði ekki getað verið heppnari: fékk ljúffengan ofnbakaðan kjúkling með grænmeti. Aðspurður sagðist ég vera hættur að borða sykur og hveiti (ég afþakkaði eftirréttinn), ég hefði misst við það sjö kíló, en væri hættur að grennast þar sem fíknin leitaði útrásar í ostáti. Við töluðum einnig um trimm og ég sagði töluverðar líkur á því að ég yrði síðastur í mark í mínum aldurshópi í Reykjavíkurmaraþoninu.
Ég játaði fyrir þeim öllum þremur að ég væri dauðhræddur við kvenfólk og í rauninni liði mér illa nálægt öllum konum nema Erlu. Í návist karla væri ég miklu afslappaðri, þá gæti maður leyft sér að sleppa sér í grófum húmor og auk þess hefði ég aldrei áhyggjur af því að gera mig að fífli nálægt körlum vegna þess að ég hefði hvort eð er svo takmarkað álit á þeim. - Í návist kvenna væri maður hins vegar alltaf fyrir dómi og undir eftirliti enda vorum við öll sammála um að konur eru miklu krítískari en karlar. Ég væri ýmist hræddur við að gera mig að fífli nálægt konum eða móðga þær með því að segja eitthvað óviðeigandi.
Eins og ég er alltaf að segja þá var ég mjög kátur í þessu samkvæmi.
Ég vildi meina að skemmtilegar bækur væru ekki endilega góðar og leiðinlegar bækur væru hins vegar oft mjög góðar. Sögurnar mínar væru t.d. leiðinlegar en þær væru margar góðar. Rúnar Helgi lýsti því margoft yfir að honum fyndist Hverfa út í heiminn vera frábær saga og að Eftir sumarhúsið væri mjög skemmtileg. Ég sagðist vera ánægður með hana og að hún væri góð en auðvitað væri hún hundleiðinleg, hún fjallaði beinlínis um leiðindi. Okkur tveimur þætti hún skemmtileg af því við værum fagmenn, rithöfundar. Rithöfundar lesa sögur öðruvísi en almenningur rétt eins og Guðjón Þórðarson horfir öðruvísi á fótbolta en ég. Hann tekur sér jafnvel stöðu fyrir aftan annað markið og horfir á leikinn eins og töflu á töflufundi.
En merkileg er þessi siðvenja: Rúnar kyssti Erlu við komu og brottför og ég kyssti Guðrúnu en hef þó varla séð hana oftar en þrisvar sinnum áður. En aldrei gæti ég hugsað mér að kyssa Rúnar Helga.
Síðast en ekki síst: Ég var leystur út með tveimur skáldsögum sem eru svo splunkunýjar að þær eru ekki komnar út. Önnur er þýðing sem hefur verið prentuð en er ekki komin í dreifingu og hin er ný skáldsaga eftir Rúnar Helga sem ég fékk í handriti en hún kemur út fyrir jólin.