laugardagur, ágúst 13, 2005

Er Baugsmálið tvöfalt hneyksli? Annars vegar það að engar almennilegar sakir finnist í löngu ákæruskjalinu þrátt fyrir allan hamaganginn, bara einhver tittlingaskítur?

Og hins vegar það að fjölmiðlaumfjöllun um málið, mjög Baugi í vil, skuli fá þessa einkunn:
http://www.visir.is/?PageID=539&NewsID=50905

Við tjölduðum á Þingvöllum í gærkvöld og dvöldumst þar til kl. 15 í dag. Mér þykja tjaldútilegur vera þvílíkur leiðindaviðbjóður að ég get varla lýst því og var mér þetta sannkölluð þolraun, sérstaklega þegar við vorum að paufast við að koma upp helv... tjaldinu í myrkri og hálfgerðu roki í gærkvöld. Ég svaf hins vegar vel í tjaldinu í nótt. Og núna er þetta búið. Ég er kominn niður í vinnu, er einn hér og get glímt við skáldsöguna fram á nótt, þar að auki með fullsátta eiginkonu heima og m.a.s. ansi heitan kveðjukoss (miðað við 19 ára sambúð) enn volgan á vörunum. Salvör, dóttir Jóns Óskars, er í gistingu hjá Freyju, og var hún með okkur í útilegunni. Það una því allir glaðir við sitt í augnablikinu.

Á morgun er önnur generalprufa hjá okkur fyrir Reykjavíkurmaraþonið. Æfingar hafa verið nokkuð stífar og á föstudagskvöldið (áður en við lögðum af stað til Þingvalla) fór ég 7 km á tæpri 41 mínútu, án þess að pína mig.

Það er líklega hrokkið af mér 1 til 1 og hálft kíló núna í viðbót. Vigtin heima er að vísu ansi mikill garmur, en ég lét Erlu stíga á hana líka til samanburðar og hún var ekkert léttari en vanalega.
Ég steig nokkrum sinnum á hana og sýndi hún mig ýmist 105 og hálft eða 106. Ef ég enda undir 105 kílóum um næstu mánaðamót verð ég ansi glaður. 100 kg á áramótum væri síðan - nei, ekki týna sér í draumum. En áfram skal skokkað.

Og skrifað.

föstudagur, ágúst 12, 2005

Enginn getur treyst á hina blóðheitu og ástríðfullu. Einn daginn ertu besti vinur þeirra og þér verður jafnvel um og ó yfir játningum þeirra um þig. En næsta dag vilja þeir varla heilsa þér, af því þeir eru uppteknir af öðru fólki og þeir eiga erfitt með að eiga bara í venjulegu og góðu kunningjasambandi, annaðhvort dýrka þeir fólk eða það er ekki til. Þú getur ekki verið bara vinur þeirra, annaðhvort eru besti vinur þeirra sem þeir geta ekki lifað án, eða þú ert ekki til.

Hinir blóðköldu og ástríðulausu eru frekar leiðinlegir. Þeir gæta tungu sinnar svo vel að þeir segja aldrei neitt skemmtilegt. Þeir kunna ekki að hrífast og sleppa sér aldrei í augnablikinu. Þeir tjá þér seint og illa ást sína eða væntumþykju. En þú getur alltaf treyst á þá. Það sem þeir segja er ekki háð duttlungum augnabliksins. Þegar hinir ástríðufullu eru fyrir löngu búnir að gleyma þér eru dauðyflin ennþá hjá þér og vilja spjalla um veðrið, garðvinnuna og verkfærageymsluna.

Hinir ástríðulausu tjá þér ást sína og vináttu í verki. Ást og vinátta hinna ástríðufullu er loftbóla sem springur.

Með á nótunum

Langt síðan ég hef notað fyrirsögn. Hjörvar Pétursson er búinn að bjóða mér á kaffihús. Fyrirsögnin í skeytinu hans var: Ölmusa.

Ég er dauðstressaður á hjólinu. Eins gott að ég er ekki á bíl.

Erla jók á neyð okkar í gær. Í morgun uppgötvaði ég að hún hefði greitt fyrir vörurnar í Bónus og reiðhjólið með reiðufé - af gömlum vana. Brátt verður síðasta krónan uppurin. Ekki laust við að mér finnist ég yngjast upp við þetta, enda hef ég orðið málkunnugur bláfátæku ungu fólki á síðustu misserum auk þess að hafa verið fátækur á unga aldri.

Aðeins fantagóður stílisti á borð við Jónas Kristjánsson gæti haldið því fram að þolmörk gagnvart fréttaflutningi um einkalíf hafi lækkað án þess að gera sig að fífli. Leiðarinn í DV í dag vekur undrun en stílbrögðin valda því að virðingin fyrir höfundi hans þverr ekki. Jónas hefði líklega orðið frábær sakamálaverjandi. Hann notar dæmið um Bermudaskálina til vitnis um að fólk hafi ekki verið svona teprulegt hér áður fyrr og ver með kjafti og klóm fréttaflutning af meintu framhjáhaldi hinna frægu.

Hvað sem allri fátækt líður er ég kominn á splunkunýtt reiðhjól. Við skruppum inn í reiðhjólabúðinu við hliðina á Bónus á Nesinu og Erla tók upp kreditkortið. Þetta gæti spillt klæðaburðinum á næstunni því jakkaföt og reiðhjól fara illa saman. Verð að láta gallabuxurnar duga. En þetta eykur ferðafrelsi og hreyfingu.

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Ég tók Frank Zappa æði í 5-7 ár. Litlu styttra var Clash tímabilið mitt þegar ég var ungur. Núna er það Who, ég hef látið undan þessari tilhneigingu minni og hlusta núna ekki á neitt annað en The Who. Núna er ég í sixties-kaflanum þeirra. Hljóðfæraleikurinn og soundið er auðvitað miklu lakara en síðar varð en allt fullt af þrælgóðum melódíum. Sumt af því elsta líkist Bítlunum á sama tímabili og jafnast jafnvel á við Bítlalögin, þó að eflaust séu Bítlarnir í heild merkilegri hljómsveit. Ég hef sérstakt yndi af þessum lögum: The Kids Are Alright (frábær bítlaleg melódía), I Can See For Miles, I´m Free, The Seeker, I´ve Been Away, In the City, I´m a Boy, Disguises, Whiskey Man - og svo eiga þeir æðislega cover-útgáfu af Supremes-laginu Heatwave, hráa og rokkaða.

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Hún er stundum skemmtilega furðuleg menningargagnrýnin í Viðskiptablaðinu. Fyrir nokkrum misserum birtist þar algjörlega athugasemda- og skýringalaust ritdómur um 20 ára gamla bók, viðtalsbók Ómars Ragnarssonar við Reyni Pétur, göngugarp. - Í blaðinu í dag er síðan myndbandadómur um The Meaning of Life, 26 ára gamla mynd Monty Python hópsins. Umsögnin er algjörlega tilefnislaus, yfirskriftin er ekki "gamalt og gott" eða neitt þess háttar. Þetta virkar eiginlega bara eins og dómur um nýútgefið myndband. Dómurinn er þar að auki nánast hlutlaus, efni myndarinnar er rakið en hvorki sagður kostur né löstur á henni.

Erla lætur kné fylgja kviði og amast við 340 kr. kaffibolla í dag. Og þennan mánuð er ég auðmjúkur og sleppi því bollanum á morgun. Því rétt eins og ég hef mínar flottræfilsástæður fyrir að flotta mig þá á ég alveg að geta tekið mig til og eytt ekki krónu í einhvern tíma, þegar á þarf að halda. Og þannig ætla ég að hafa þetta á næstunni. Nærast á því sem keypt er í Bónus og drekka kaffið í vinnunni. Satt að segja er þetta bara holl tilbreyting.

Þannig að sparsemi er dyggð að þessu sinni.

Ég huga að fleiri dyggðum og úrbótum. Til dæmis er óþarfi að loka algjörlega á vini sína og láta eins og þeir séu ekki til, bara af því maður er upptekinn eða þá að maður hefur kynnst nýju fólki. Líklega er þetta algengt togstreituefni meðal ungmenna. Þetta er sérstaklega ósanngjarnt þegar um er að ræða vini sem eru alls ekki uppáþrengjandi, senda jafnvel bara eitt og eitt meil og vilja halda smá kontakti. - Ég veit samt ekki hvenær ég fer að taka til í þessum málum.

http://www.blog.central.is/amen?page=comments&id=807453 Ég get eiginlega ekki látið hjá líða að linka á þessa hreint makalaust frábæru færslu hjá fyrrverandi ímyndunaróvini og eflaust til frambúðar slettistafogtiluppávinskapinn-ímyndunarvini.

Já og auðvitað er Guðjón Þórðarson snillingur. Maður sem gerir KA að Íslandsmeisturum í knattspyrnu og kemur Íslandi í 37. sæti á heimslistanum hlýtur að vera snillingur.

Samt dálítið sérkennilegt að skrifa þetta. Guðjón Þórðarson er einhvern veginn ekki aktúell í augnablikinu þó að hann hafi verið það fyrir ekki löngu. Þetta virkar eins og nokkurra mánaða gömul færsla.

Að búa í úthverfi hefur fengið aðra merkingu í huga mínum eftir matarboðið hjá Rúnari Helga og Guðrúnu í kvöld. Útsýnið úr íbúðinni þeirra er nefnilega stórkostlegt og nær yfir stóran hluta af borginni.

Við Rúnar Helgi vorum nokkurn veginn sammála um að ritlistinni væri að blæða út og ef menn eins og ég og hann ætluðum að sinna bókagerð í framtíðinni myndi það snúast um að þýða reyfara, því varla færum við að frumsemja þá. Hann myndi hugsanlega kenna fagurbókmenntir á fámennum námskeiðum fyrir sérvitringa.

Það var semsagt mjög létt stemning í þessu matarboði þar sem Erla lýsti því t.d. yfir að henni fyndist oft óþægilegt að lesa bloggið mitt, bæði væru e-r skíthælar að ráðast á mig þar í kommentakerfinu, ég virtist vera að daðra við eitthvert kvenfólk og svo væri ég að skrifa um hana að henni forspurðri. Guðrún spurði mig: Hvernig fyndist þér að hún bloggaði svona?

Og hvort sem þið trúið því eða ekki þá var glatt á hjalla í þessu ágæta samkvæmi.

Maturinn reyndist vera alveg hveitilaus, ég hefði ekki getað verið heppnari: fékk ljúffengan ofnbakaðan kjúkling með grænmeti. Aðspurður sagðist ég vera hættur að borða sykur og hveiti (ég afþakkaði eftirréttinn), ég hefði misst við það sjö kíló, en væri hættur að grennast þar sem fíknin leitaði útrásar í ostáti. Við töluðum einnig um trimm og ég sagði töluverðar líkur á því að ég yrði síðastur í mark í mínum aldurshópi í Reykjavíkurmaraþoninu.

Ég játaði fyrir þeim öllum þremur að ég væri dauðhræddur við kvenfólk og í rauninni liði mér illa nálægt öllum konum nema Erlu. Í návist karla væri ég miklu afslappaðri, þá gæti maður leyft sér að sleppa sér í grófum húmor og auk þess hefði ég aldrei áhyggjur af því að gera mig að fífli nálægt körlum vegna þess að ég hefði hvort eð er svo takmarkað álit á þeim. - Í návist kvenna væri maður hins vegar alltaf fyrir dómi og undir eftirliti enda vorum við öll sammála um að konur eru miklu krítískari en karlar. Ég væri ýmist hræddur við að gera mig að fífli nálægt konum eða móðga þær með því að segja eitthvað óviðeigandi.

Eins og ég er alltaf að segja þá var ég mjög kátur í þessu samkvæmi.

Ég vildi meina að skemmtilegar bækur væru ekki endilega góðar og leiðinlegar bækur væru hins vegar oft mjög góðar. Sögurnar mínar væru t.d. leiðinlegar en þær væru margar góðar. Rúnar Helgi lýsti því margoft yfir að honum fyndist Hverfa út í heiminn vera frábær saga og að Eftir sumarhúsið væri mjög skemmtileg. Ég sagðist vera ánægður með hana og að hún væri góð en auðvitað væri hún hundleiðinleg, hún fjallaði beinlínis um leiðindi. Okkur tveimur þætti hún skemmtileg af því við værum fagmenn, rithöfundar. Rithöfundar lesa sögur öðruvísi en almenningur rétt eins og Guðjón Þórðarson horfir öðruvísi á fótbolta en ég. Hann tekur sér jafnvel stöðu fyrir aftan annað markið og horfir á leikinn eins og töflu á töflufundi.

En merkileg er þessi siðvenja: Rúnar kyssti Erlu við komu og brottför og ég kyssti Guðrúnu en hef þó varla séð hana oftar en þrisvar sinnum áður. En aldrei gæti ég hugsað mér að kyssa Rúnar Helga.

Síðast en ekki síst: Ég var leystur út með tveimur skáldsögum sem eru svo splunkunýjar að þær eru ekki komnar út. Önnur er þýðing sem hefur verið prentuð en er ekki komin í dreifingu og hin er ný skáldsaga eftir Rúnar Helga sem ég fékk í handriti en hún kemur út fyrir jólin.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Fátæktin hefur skyndilega og óvænt brotist inn í líf okkar. Ég var að fá meil frá Erlu sem myndi hljóma svona á ensku: No more lunches at Hressó. Orðrétt segir Erla: "Mér finnst að þetta líferni þarfnist endurskoðunar. Hægt að gera margt skemmtilegra fyrir peninga heldur en að éta fyrir þá , sérstaklega þegar maður á takmarkað af þeim. " Kom í ljós að hún á aðeins 50 þús. kr. eftir á reikningnum sínum þegar reikningar hafa verið borgaðir og ég á eitthvað minna sjálfur. Húsnæðislán og Krítarferðin eru farin að bíta okkur í hælana en áður höfðum við gengið nærri okkur með kaupunum á bílnum í vor. Mér brá og lofaði því að borða ekki fleiri hádegisverði á veitingahúsum út mánuðinn. Þannig að ég er kominn í enn eitt bindindið. Ég má að vísu fá mér salat í 10-11 og síðan er það mötuneytið og nesti. Annars er alltaf gaman að breyta um venjur og aldrei að vita nema að þessi breyting hafa einhvern innblástur í för með sér.

Ég er að vinna nýja beinagrind að sögunni og er núna orðinn opinn fyrir því að skrifa ekki allt í réttri röð heldur bara þann kafla sem liggur best fyrir mér hverju sinni. Ég held að það gæti aukið afköstin og sköpunargleðina.

Við förum í mat til Rúnars Helga og frúar í kvöld. Ég innbyrði væntanlega eitthvert hveiti þar en læt það ekki á mig fá. Sykurinn er bannvaran, sætindin eru það sem ganga frá þessu í eitt skipti fyrir öll - en hveitið gerir það smám saman, það er meira spurning um daglegar venjur.

Við erum búin að leggja línurnar fyrir Reykjavíkurmaraþon. Tökum létta æfingu á miðvikudags- og föstudagskvöld, aðra generalprufu á sunnudaginn, létta æfingu á þriðjudagskvöld í næstu viku og síðan er hvíld fram að hlaupinu. Mikilvægast fyrir mig er að þoka vigtinni pínulítið niður. Mér gekk ágætlega með matinn í gær og gæti náð af mér 1 til 1 1/2 kíló fram að hlaupi með þessu áframhaldi.

Við höfum ekki komist upp á lag með að skokka nema 3var og í mesta lagi 4 sinnum í viku. Það er nóg til að byggja upp gott þol en í rauninni er þetta ekki mikil brennsla. Talað er um að æfa þurfi 5-6 sinnum í viku til að ná upp góðri brennslu. Ég hef enn ekki haft vilja til að finna mér aðra íþróttagrein á móti en vonandi kemur það. Þetta er bæði spurning um tíma og viljastyrk, skáldsagan og vinnan taka auðvitað sitt og það mun vaxa á næstunni.

Það er erfitt að segja til um hvað býr í huga fólks sem er alltaf þurrt á manninn. Ég er að tala um fólk sem á erfitt með að bjóða góðan dag svo að kveðjan greinist, sem svarar alltaf kurteislegu brosi með steinrunnum andlitssvip, sem hlær ekki þegar spaugilegt atvik á sér stað nálægt því og maður hlær að sama atviki í návist þess. Þar sem svo passív framkoma er óskemmtileg hneigjast hinir hressu til að halda því fram að þessu fólki líði illa. En svo þarf alls ekki að vera. Sumir hafa bara þetta attitude og þeim líður vel með það: Ég þarf ekkert að brosa við þessum sjálfumglaða meistara, ég þarf ekkert að vera hress, mér fannst þetta ekkert fyndið, og svo framvegis; þannig hugsar það um þetta eða myndi hugsa ef það leiddi yfirleitt að þessu hugann. Fólkinu með steinandlitin (einu sinni voru allir Íslendingar þannig á svipinn í strætó nema kannski ein og ein ræðin gömul kona eða gamall maður, það var í þá daga þegar eitthvert fólk var í vögnunum) líður kannski alveg jafnvel og okkur hinum, er alveg jafnafslappað og jafn sátt við sjálft sig. Því finnst bara engin ástæða til að brosa og hefur ekkert gaman af því að bjóða góðan dag.

Generalprufan var skelfilega erfið og ég segi ykkur ekki tímann. Að vísu fórum við aðeins vitlausa leið og hlupum líklega örlítið of langt og síðan verður maður laus við þessa helv... bílaumferð í sjálfu hlaupinu. Best væri ef ég gæti hrist af mér tvö kíló áður, það er svo góð tilfinning að vera búinn að léttast aðeins þegar maður hleypur. Það er orðið svo langt síðan ég náði af mér þessum sjö kílóum og þar sem ekkert meira hefur farið er ég eiginlega bara farinn að upplifa mig feitan aftur, sérstaklega í tengslum við skokk enda er ekki algengt að langhlauparar séu 107 kg. Góð þyngd fyrir langhlaupara sem er 1,90 á hæð væri líklega 80 kg en ég hef reyndar engan áhuga á slíkum horrengluvexti. - En nú er orðið tímabært að ég nái af mér nokkrum kílóum í viðbót og svarið er að loka barnum á kvöldin, hætta í ostinum og aðeins fara að hemja sig aftur.

mánudagur, ágúst 08, 2005

Gunnar Randversson er mjög glaður yfir ádrepum sem hann fær á sig í inngangi EÖN að Af ljóðum. Honum þykir gaman að vera í umræðunni og ætlar að svara fyrir sig í Lesbókinni. Ekki skynjaði ég hinn minnsta vott af persónulegri óvild eða nokkra fýlu hjá Gunna út af málinu. Og það var Gunni sem sagði mér að EÖN hefði þennan ávana að tala á upplestrum á meðan aðrir væru að lesa upp (gilti ekkert sérstalega um ljóðahátíðina um Versló). Gunnar hafði þetta frá öðrum aðila. - Mér finnst þetta ekki vera stórmál, aðallega skemmtilegt. Og svo er óvíst um sannleiksgildið.

Annars las ég sjálfur upp á þrautleiðinlegum upplestri fyrir jólin þar sem EÖN var meðal örfárra áheyrenda og ég heyrði aldrei bofs í honum.

Mér þótti hin færslan um málið hér að neðan, sú dylgjukennda, mun skemmtilegri.

Við tökum general-prufu á 10 km Reykjavíkurmaraþon-hringinn í kvöld. Dálítill kvíði. Skeiðklukkan í gemsanum verður sett af stað heima áður en við byrjum. Hún þarf að sýna minna en 60 mínútur eftir hlaupið ef við viljum ekki vera viðundur. - Ég hef alls ekki staðið mig nógu vel í mataræðinu undanfarið þó að ég sé ekki dottinn í hröðu kolvetnin. Ég hef borðað allt of mikið. Ég þarf að fara að skrá hér viðbótarreglur því ég virðist standa við það sem ég lýsi yfir á þessari síðu. Umfram allt verð ég að standa mig fram að hlaupinu.

http://www.imdb.com/title/tt0165773/ Kannski er það e-k tilgerð en ég hef alltaf meiri áhuga á því sem ekki er í umræðunni en því sem fer hátt. Þess vegna er ekki minnst á Harry Potter eða Da Vinci lykilinn þegar rætt er um bækur hér og engum sögum fer af Star Wars þegar minnst er á kvikmyndir. Ég er núna að lesa alveg prýðilega góða 11 ára gamla skáldsögu eftir William Trevor sem heitir Felicia´s Journey. Ég komst síðan að því að sagan hefði verið kvikmynduð og þessi linkur er á bíómyndina sem er frá árinu 1999. En ég hef aldrei heyrt minnst á þessa kvikmynd fyrr. Kannast einhver við hana?

Auk þessarar skáldsögu var ég að taka smásagnasafn eftir Trevor á bókasafninu en ég hef lesið nokkur af fyrri smásagnasöfnum hans. Þetta er Íri, frábær raunsæishöfundur.

Þegar ég var að spjalla við Evu og Erlu á Súfistanum í dag (sem nóta bene voru báðar alveg þrælhuggulegar þó að þær séu orðnar fertugar) kom upp spursmálið um lífsstíl minn: Hvers vegna er ég að montast um í jakkafötum með bindi á sunnudegi í miðbænum, hvers vegna læt ég glæsimeyjar á Hressó færa mér rándýran hádegisverð á virkum dögum í stað þess að borða í mötuneytinu í vinnunni eins og eðlilegur maður. Og ég svaraði þessu til: í bíómyndum og bókum fá karlmenn sér í glas á kvöldin, borða á veitingastöðum og hnýta á sig bindi. Í raunveruleikanum hlussast karlmenn hins vegar um í flísfötum, eyða frístundum sínum í að þræla upp sólpalli og skjólvegg í einhverju forljótu hverfi í Grafarvoginum, og drösla á undan sér barnavögnum í hvert sinn sem þeir fara í göngutúr. Eva sagði: Þetta er raunveruleikinn! - Og það var að vissu leyti rétt svar. En ég benti henni á að þetta hefði verið öðruvísi fyrir nokkrum áratugum, fyrir daga jafnréttis: Þá fóru karlmenn á barinn eftir vinnu og drukku með félögum sínum á meðan eiginkonan saumaði föt á börnin heima. Þeir drulluðu sér heim seint á kvöldin og skiptu sér ekkert af börnunum sínum. Ég reyni að vera hvorugt: hvorki gamaldags karlremba né kynlaust flísdýr að rísla í garðinum sínum. Ég vil hafa smá stíl í tilverunni.

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Ég grúskaði og skrifaði nokkrar línur á Borgarbókasafninu í dag. Ég hef ekki komið þangað lengi. Á eftir fékk ég mér kaffi á Súfistanum með Erlu og Evu vinkonu hennar. Borgarbókasafnið plús Súfistinn minnir mig dálítið á smásagnagerðina frá 2003 og 2004, þegar ég var að skrifa síðustu bók. Núna er orðið meira en tímabært að ná góðum spretti í skáldsögunni sem ég er búinn að vera að paufast við í meira en hálft ár. Ég þarf að skila henni af mér í ágústlok á næsta ári. Sagan margumrædda lítur að mörgu leyti vel út en afköstin eru afar hæg.

Fór á FH - KR í kvöld. Átti ekki von á neinu og fékk heldur ekki neitt nema enn einn dapran leikinn. Þó voru ákveðin batamerki á liðinu í fyrri hálfleik. Ég tók Kjartan með mér á leikinn. Hann hefur þurft að horfa upp á of marga tapleiki, annað en systir hans sem komst til vits og ára mitt í titlaflóðinu um aldamótin.

Ég kann vel við þennan tíma: síðsumarið. Hugurinn er að byrja að takmarkast meira og meira við bókina, en hann hefur hvarflað víða í sumar. Eftir tvo mánuði verð ég kominn vel áleiðis með verkið.