laugardagur, nóvember 12, 2005

Ég treysti læknum og heilbrigðisstofnunum fyrir heilsu minni ef því er að skipta og ég veit að DNA-heilun er rugl. En ég veit ekki hvers vegna. Ég fylgi, eins og flestir, kennivaldsleiðinni hvað snertir skoðanir á veruleikanum. Ég hef bara vit á bókmenntum, fótbolta, smá á rokktónlist, kvikmyndum, pólitík og auglýsingum; og get því ekki tjáð mig af viti um annað.

Ég veit að ljós kviknar þegar ég ýti á ljósrofa en ég veit ekki almennilega hvers vegna. Kæri mig kollóttan um það. Hvers vegna fannst mér þá heilunarkonan í Kastljósi tala eins og hún væri kolrugluð þegar ég í raun og veru veit ekkert um þessi máli?

Ég braut blað í lífi mínu með því að skrifa í fyrsta sinn á kaffihúsi í Kringlunni. Ég sat þar í hálftíma og afraksturinn var nokkrar línur.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Ég verð í þættinum Í vikulokin á Rás 1 kl. 11 á morgun. Veit ekki hverjir verða með mér.

Ég fékk hugmynd að heimasíðu til kynningar á bókinni minni næsta haust. Þannig að ég er ekkert "betri en hinir".

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Ég fór upp að blaðsíðu 50 í Roklandi á Súfistanum áðan þar sem bannað er að lesa bækur úr búðinni. Þessi byrjun er frábærlega skrifuð, Hallgrímur hefur stillt byssur sínar á góð skotmörk og mikið má vera ef hann hefur klúðrað framhaldinu. 400 blaðsíður virðist að vísu ekki í samræmi við umfang sögunnar en þetta er nú bara einu sinni Hallgrímur. Ég skrifaði töluvert sjálfur. Afgreiðslumaður ávítaði mig afar mjúklega þegar ég skilaði bókinni og síðan tókum við tal saman um jólabókamarkaðinn. Okkur leist vel á margar kápurnar.

Ég gekk í rigningu áleiðis að auglýsingastofunni. Í möttuðum rúðuglerjum Hótels Holts sá ég skugga lyfta upp hendi. Þar var greinilega e-k félagsfundur í gangi, eflaust með léttum veitingum.

Nú skrifa ég kafla sem gerist á Súfistanum.

Því miður er kommentakerfið lokað út af fólki sem hatast við tilhugsunina um að það getur ekki skrifað og myndi aldrei þora að mæta mér augliti til auglitis.

Þó að ég sé vel sofinn alla daga sígur á mig skammdegishöfgi: það er eins og ég sé að sogast inn í myrkrið sem leggst yfir dagana. Það væri gaman að leggja sig í korter á gömlum bólstruðum stofusófa og vita ekki hvar ég væri staddur þegar ég vaknaði: kannski horfinn aftur í tímann og heyri mömmu skarka í eldhúsinu.

Ég las fyrstu kaflana í Roklandi á Súfistanum í hádeginu. Mér líst rosalega vel á hana. Vona að framhaldið verði jafngott.

Frakkland - Þýskaland í París á Laugardaginn. Veit einhver hvort og hvar þessi leikur verður sýndur? Argentína - England á Sýn um helgina. Ég vil helst sjá þennan leik.

The simple life

Þetta segja hinir enskumælandi. Ég vígði spánnýja hlaupaskó í kvöld. Það var mikil ánægja. Ég skokkaði langt og hægt.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Óneitanlega fannst mér morgunstundin sú sem ég lýsti hér að neðan ansi listræn og hún verður alltaf betri því oftar sem ég renni henni í gegnum hugann núna. Ég sleppti þó einu smáatriði sem líklega var listrænn hápunktur þessarar stundar: Leigubílstjórinn rak augun í bjölluna af hjólinu mínu sem hafði losnað af við fallið og lá í svellaðri götunni. Hann stöðvaði bílinn, opnaði bílstjóradyrnar, teygði sig eftir bjöllunni og rétti mér hana. Ég stakk henni í bakpokann.

Pabbi hringdi í mig í nótt og hrósaði mér fyrir teikningu í Mogganum. Það tók mig dálitla stund að rifja þetta upp fyrir mér. Loks mundi ég eftir myndinni og sagði honum að þetta hefði verið hálfgerð heppni, eiginlega kynni ég ekkert að teikna. Ég leitaði að blaðinu í Moggabunkanum en fann það ekki.

Um það bil klukkustund eftir þennan draum var ég staddur í öðrum teinóttu jakkafötunum mínum fyrir framan húsið heima og steig upp á reiðhjólið. Nokkrum sekúndum síðar rennur hjólið til í fljúgandi hálku og ég í götuna. Gat kom á annað hnéð á buxunum og þurfti ég að skipta um föt og hringja síðan á leigubíl.

Á meðan ég beið eftir bílnum gaf póstkona sig á tal við mig og spurði mig hvort ég yrði með bók um jólin. Af þessu spannst óvænt og vingjarnlegt bókmenntatal.

Þannig að allt í allt var þetta fremur reyfarakenndur morgun hvað sem deilum um annað líður hér að neðan.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Einu sinni var feitur maður sem sagðist borða of mikið vegna þess að hann þjáðist af kæfisvefni. Kæfisvefninn ylli því að hann væri alltaf orkulaus og sækti þess vegna í mat. Hann þjáðist hins vegar af kæfisvefni vegna þess að hann var of feitur.

Yfirskrift jólabókaflóðsins gæti verið glæpir og tölvupóstur. Ég skrifa hins vegar bara sögur um lífið sem eins og ég skynja það.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Vilhjálmur var bara fjári öflugur í viðtali við Egil Helgason. Í ímyndarvinnunni á næstu mánuðum þarf að draga fram og undirstrika kosti karlsins - traustið og reynsluna og áherslu hans á að vera í milliliðalausu sambandi við borgarbúa. Mörg dæmi eru um það úr stjórnmálasögunni að tiltölulega litlausir menn hafi hafist upp til æðstu metorða vegna þrautseigju og þess að þeir vekja traust.

Hlýindi lífga óneitanlega upp á bæjarbraginn. Ég náði síðustu birtustundunum uppi á Hlemmi, hjólaði þangað milli kl. 16 og 17. Ég fékk mér kaffi á Kaffi Roma við Rauðarárstíg og hitti síðan Valdimar Tómasson í sjoppunni í biðstöðvarhúsinu. Þar stóð hann eins og búðarþjónn af gamla skólanum með svuntu framan á sér, bindi um hálsinn og afturgreitt hárið. Með honum var fríður 8 ára snáði að nafni Máni, fóstursonur Guttesen. Valdimar sýndi mér framboðsauglýsingu frá Erni Sigurðssyni arkíkekt. Þar stendur neðst í kassa: Kjóstu Örn í 5. sætið. Við hliðina er annar kassi sem segir: Það vill Örn ekki. - Sú fullyrðing á að vera svar við fyrirsögninni í auglýsingunni en kemur hins vegar svona kostulega út.

Téðum Erni gekk ekki vel í prófkjörinu en honum fylgja góðar óskir og þakkir fyrir að létta lund manna með þessum hætti.

Sunnudagshádegi

Við tókum saman trampólínið áðan.

Ég er staddur niðri í vinnu og þarf sinna starfinu í eins og tvo klukkutíma áður en ég get hugað að skriftum.

Sáttur við prófkjörið. Þetta lítur bara mjög vel út.

Flugfreyja ein sem var að koma frá Minnieapolis keypti fyrir mig nýja hlaupaskó. Ég þori ekki annað en að endurnýja skóna árlega þar sem ég er þungstígur og vil ekki eyðileggja á mér lappirnar. Ég skokkaði bara tvisvar í síðustu viku og synti einu sinni. Ætla að taka þetta fastari tökum núna.