laugardagur, júlí 01, 2006

... und am Ende gewinnen immer die Deutschen

föstudagur, júní 30, 2006

Munið leikinn í dag: Þýskaland - Argentína kl. 15

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun er bara ansi líklegt að stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins haldi áfram út í það óendanlega. Ef mönnum líkar ekki sú tilhugsun að sömu flokkarnir séu alltaf við stjórn þá verða stjórnarandstöðuflokkarnir einfaldlega að hysja upp um sig og koma þannig fyrir að þeir virki trúverðugir.

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060630/FRETTIR01/60630009/1091 Blint óréttlæti réttvísinnar. Bara maðurinn ætti að dæmast eða konan í það minnsta að fá miklu vægari dóm en hann. Þetta er alltaf ójafn leikur og það er auðvelt að ráða í hvers vegna konan stakk manninn. Kannski hafði hún ekki aðra möguleika. En einhvern veginn virðist réttvísin alltaf úti að aka í ofbeldismálum.

fimmtudagur, júní 29, 2006

Fótboltinn gekk bara vel. Ég hef augljóslega ofmetið æskuna og vanmetið sjálfan mig. Hins vegar er intensívur fótbolti miklu erfiðari en skokk og finn ég fyrir töluverðum harðsperrum.

Ég er ánægður með textann sem ég er að skrifa þessa dagana (þegar ég hef tíma og næði til þess) og er orðinn algjörlega sannfærður um að sagan mun ganga upp og verða vel heppnuð. Hins vegar vinn ég ansi hægt og er sífellt að klikka á tímaplönum og varaplönunum líka.

miðvikudagur, júní 28, 2006

Ég er að fara að spila fótbolta í kvöld. Á sparkvelli úti á Nesi með 7-9 strákum á aldrinum 25-30. Ég hef ekki spilað fótbolta með fullorðnum mönnum síðan 1998. Strákarnir mæta þarna til að hafa gaman en ég er mjög stressaður út af þessu, óttast að gera mig að fífli. Ég veit að ég er allt í senn, of þungur, klaufskur og gamall. Á hinn bóginn veit ég hvernig á að spila fótbolta og er með frábært þol. Auk þess eru svona litlir vellir mjög heppilegir fyrir svifaseina leikmenn. Ég velti því fyrir mér fram og aftur hvernig ég geti best sloppið frá þessu. Væntanlega spila sem aftastur, króa þá af úti í hornunum, gefa boltann alltaf á frían og sóla aldrei. Dekka. Berjast. Þetta er alvarlegt mál.

Tvisvar er ég búinn að sjá frétt þess efnið að skólar séu ekki það jöfnunartæki sem við höfðum haldið. Þetta hljómar sérkennilega. Jöfnuður er góður en ég held að skólar hafi verið settir á stofn vegna menntunar og þeir snúist umfram allt um menntun og uppfræðslu en séu ekki tæki til að jafna eitt né neitt. Og auðvitað verða nemendur alltaf misjafnir og alltaf heltast einhverjir úr lestinni.

Ég las óvenjuharkalega grein eftir Bjarna Harðarson um daginn þar sem því er haldið fram að trúarofstækismenn séu víða að skaða AA-samtökin. Ekki er ég dómbær á þennan málflutning en ljóst er að trúarofstæki á ekki heima í 12-spora samtökum og það ber að kveða niður. Annars getur það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir áfengisvandann. Þetta snýst alltaf um guð eða æðri mátt samkvæmt skilningi hvers og eins á honum og það virkar m.a.s. fyrir trúleysingja.

Helsti styrkur 12-spora samtaka er jafnframt helsti galli þeirra: að þau eru öllum opin og engin inntökuskilyrði. Sumar deildir eru mjög sterkar og geta gert kraftaverk, aðrar spillast af sjálfsblekkingu og því að fólk heldur sig ekki við prógrammið. Einnig má finna fólk í svona deildum sem ekki er haldið fíkninni og hefur því ekkert þar að gera, er kannski bara einmana.

þriðjudagur, júní 27, 2006

Meiri barnadýrkun


Djöfull er þetta flott mynd. Mein Junge er í prófíl, hleypur á eftir drengnum með boltann. http://sje.ljosmyndun.is/main.php?g2_itemId=10182

Spádómur

Þýskaland og Brasilía munu leika til úrslita um heimsmeistaratitilinn. Ég veit ekki hvernig sá leikur fer. Reikna þó með að hungrið gæti fleytt Þjóðverjum yfir þessa lokahindrun.

Fyrir þá sem lesa blöðin II

En væri ég bindindismaður þá gæti ég aldrei orðið flugdólgur og væri líklega að reyta arfa í garðinum heima á meðan alvörukappar skemmta sér.

Ég held að almennt séu tölvupóstar manna miklu skemmtilegri aflestrar en opinber ummæli þeirra.

Um daginn ræddum við Erla um það hvað það væri mikið lán að ég væri ekki alkóhólisti. Ég er fíkilskarakter, the addictive personality, og kannski bara tilviljun að ég festi ekki ást á áfengi. En þá datt mér nokkuð mikilvægt í hug og er viss um að það er satt: Ef ég væri alkóhólisti þá væri ég fyrir lifandis löngu hættur að drekka. Ég væri bindindismaður.

mánudagur, júní 26, 2006

Næsta spurning

Ef maður er eiginkona auðkýfings finnst manni þá að það að sænga með vændiskonu sé ekki framhjáhald? - Styrkja frjáls afnot af kreditkorti þessa skoðun?

Fyrir þá sem lesa blöðin

19 þúsund dollarar. Hvað eru það margar?


http://sje.ljosmyndun.is/main.php?g2_itemId=10182


http://sje.ljosmyndun.is/main.php?g2_itemId=10182
Sigurður J. Eggertsson tók ljósmyndir á Skagamótinu. Þarna er Kjartan í leik gegn Fram. Kannski er hann að skora. Hann skoraði eitt gegn Fram og annað gegn FH. Lék til skiptis í vörn og á kanti.


http://sje.ljosmyndun.is/main.php?g2_itemId=10182

sunnudagur, júní 25, 2006

Ég hef áður minnst á sumarið 1994. Seint í ágúst, eða var það í byrjun september?, var Erla orðin alveg þokkalega ófrísk. Við bjuggum á Fálkagötunni, í 3ja herbergja íbúð sem við keyptum vorið 1992, þegar ennþá voru svæðisnúmer í símaskránni og það eimdi eftir af eightíshárgreiðslum en þó lítið. Þetta kvöld settum við upp einhverja veggfóðursrönd í verðandi barnaherbergi og máluðum það síðan (jú, ég hef auðvitað málað og svoleiðis en þetta tók bara eitt kvöld, ekki heilt sumarfrí), síðan fórum við á leik KR og Þórs á KR-vellinum, í undanúrslitum bikarkeppninnar. KR vann leikinn örugglega, 3-0. Aðeins einn maður í liði Þórs olli KR-vörninni einhverjum vandræðum og raunar átti hann einu sinni að fá vítaspyrnu, var nánast rifinn niður í vítateignum. Þessi leikmaður var Guðmundur Benediktsson. Árið eftir var hann kominn í KR og núna er hann í Val. Ég átti eitthvað af tvíhnepptum jökkum þetta árið. Í sjónvarpinu var oft auglýstur farsími sem var á stærð við fartölvur dagsins í dag.

Um það leyti sem Poldolski var að skora gegn Svíunum á laugardag tókst Kjartani loksins að skora á Skagamótinu. Það hefur aldrei verið markmið mitt í lífinu að sofa í kennslustofu fullri af sex ára strákum en það gerir mér engu að síður gott, ég er hæstánægður með ferðina og kem endurnærður í bæinn. Ég sá leik Þjóðverja og Svía síðan endursýndan eftir að ég kom í bæinn í gærkvöld en hafði áður náð seinni helming af leik Argentínu og Mexíkó beint. Ég fæ ekki betur séð en Þýskaland eigi heilmikla möguleika á að slá Argentínu út í 8-liða úrslitum og raunar vinna hvaða lið sem er á þessu móti.