laugardagur, febrúar 05, 2005

Ég er hér með nýja tilkynningu um smásagnavettvang. Undanfarin tvö ár hef ég birt sögu í Smásagnablaði Nýs lífs, sem dreift er með Nýju lífi einu sinni á hverju sumri. Í dag fékk ég svo hljóðandi póst frá ritstjóranum:

Heill og sæll!
Mér datt í hug að benda þér á að við erum farnar að skyggnast um eftir efni í SMÁSÖGUBLAÐ sumarsins. Skilafrestur er 1. maí. Þú mátt gjarnan láta þetta ganga í "samfélagi smásagnahöfunda" á Netinu :)Við leitum að sögum um íslenskt nútímafólk, líf þess og samskipti. Fastir liðir eins og venjulega: Senda sögur á jonina@frodi.is og greiddar eru 20 þúsund krónur fyrir hverja birta sögu. Við reynum að senda höfundum einhver viðbrögð eins fljótt og við getum. Augljóslega er þó ekki hægt að bita nema brot af því efni sem berst - ífyrra voru okkur t.d. sendar 70-80 smásögur!!!Bestu kveðjur,Jónína c/o tímaritið NÝTT LÍF

Ég get sagt ykkur að það eiga allir sjens í þetta svo ég hvet óþekkta höfunda til að taka þátt. Þær spá bara í efnið og ekkert í hvort höfundurinn er nafn eða ekki. Það borgar sig að senda sögur með snörpum og spennandi söguþræði og óvæntur endir spillir ekki fyrir. Ég held líka að það henti ágætlega að senda sömu sögur í þetta og í hrollvekjukeppnina hjá Grandrokk. Blaðið kemur út töluvert löngu eftir að úrslit í þeirri keppni eru kynnt og birtingin í keppninni er alveg á huldu. Það er því ekkert sem mælir gegn því að birta slíkar sögur í Smásagnablaði Nýs lífs.

Svakalega flott framtíðarsöngkona var næstum því búin að falla út í 7-manna úrslitum í Idol í kvöld, líklega vegna þess að of mikið af vitleysingjum og plebbum tekur þátt í kosningunni. Eins og ég hef áður sagt þá hef ég ekkert vit á músík, hrífst bara af henni, en mér finnast tvær stelpur þarna, Hildur og Heiða, vera langt fyrir ofan einhvern Idol-level, ég sé þær fyrir mér sem áberandi andlit í tónlistarlífinu næstu árin.

Vel má vera að foringjar stjórnarflokkanna séu ekki jafnsjarmerandi og þessar stelpur. Gallinn er sá að af því þjóðin er búin að hafa það ansi gott í tíu ár virðist hún halda að velmegunin sé sjálfsögð. Hætt er við að næstu kosningar verði eins og Idol-keppni og þá vilji fólk fá fersk andlit til að klúðra efnahagsmálunum. Getur fólk ekki skilið að það skiptir engu máli hvort því þykir Halldór Ásgrímsson skemmtilegur eða leiðinlegur, Davíð hrokafullur eða sniðugur. Nánast það eina sem skiptir máli eru efnahagsmálin og það er ekki útlit fyrir annað en botnlaus tækifæri í framtíðinni, vaxandi kaupmátt, nóg af atvinnutækifærum, peninga til að kaupa utanlandsferðir, bækur og plötur. Umfram allt öryggi og tækifæri. Ritfærir kjaftaskar á borð við Hallgrím Helga og Guðmund Andra Thorson munu leggja sitt af mörkum til að koma á skattpíningarsukkstjórn eftir tvö og hálft ár. Þá hafa þeir líka eitthvað til að rífast út af og skrifa mergjaðar áramótagreinar um. Já, kannski langar Hallgrím í kreppu eða verðbólgu. Er þetta endalausa góðæri ekki bara djöfull andlaust?

föstudagur, febrúar 04, 2005

Fékk þessa fréttatilkynningu í tölvupósti áðan. Ætlar einhver að taka þátt? Á ég að gera það?

Samkeppni um hrollvekju
Hið íslenska glæpafélag og GrandRokk efna til samkeppni um hrollvekjusmásögu. Úrslit verða tilkynnt á menningarhátíð GrandRokk í byrjun júní 2005. Skilafrestur er til 9. maí 2005.

1. verðlaun: 200.000, - kr
2. verðlaun: 100.000, - kr
3. verðlaun: 50.000, - kr

Handriti á að skila undir dulnefni og rétt nafn fylgi með í lokuðu umslagi. Handrit skal sent til GrandRokk, Smiðjustíg 6, 101 Reykjavík. Merkt: Samkeppni.

Nánari upplýsingar á http://www2.fa.is/krimi/.

600 orð komin í kvöld. Hverjum kemur það við? Veit ekki.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Í auglýsingabransanum er ég kannski fyrst og fremst prófarkalesari, í öðru lagi textasmiður en einna síst hugmyndasmiður. Textagerðin sem ég sinni snýst um að orða hlutina á sem bestan hátt en miklu síður um innihald auglýsinganna. Þetta fyrirkomulag hefur losað mig við þann bagga að auglýsingahugmyndir elti mig heim og spilli dýrmætum frístundum sem eiga að fara í sagnaskrif. Ekki er óalgengt að 25 ára strákar leiti til mín með hálfköruð handrit að sjónvarpsauglýsingum og fái mig til að lappa upp á þau. Þetta er auðvitað ekki eina fyrirkomulag texta- og hugmyndavinnu hér, en þó ferli sem býsna oft gerir vart við sig og er hið besta mál.

Þegar ég horfi á sjónvarpstreilera af að virðist bjánalegum bíómyndum, t.d. gamanmyndum þar sem fyrrverandi stórleikarar (De Niro, Hoffmann, Hackman) niðurlægja sig í skrípalegum hlutverkum, þá fæ ég stundum á tilfinninguna að hópur af 25 ára strákum, af einum eða öðrum ástæðum í vinfengi við kvikmyndaframleiðendur, brainstormi hugmyndirnar að þessum myndum og komi svo hlaupandi til miðaldra kalla eins og mín, sem geta skrifað og komið saman sögu, og þeir hnoða handritunum saman.

En auglýsingar eiga að kynna vörur á sem bestan hátt á meðan kvikmyndir eru sjálfstætt list- og afþreyingarform. Ég held að ungu strákarnir hérna í vinnunni gætu hæglega klambrað saman handriti að bandarískri fjölskyldu- gamanmynd. Svo þyrfti einhver kall að hreinskrifa handritið. Svo koma markaðsmennirnir og ritskoða. Afþreyingarkvikmyndir eru eiginlega framleiddar á svipaðan hátt og auglýsingar, markhópurinn er ákveðinn, höfðað til hans og þess gætt að stíga ekki á nein skott. Kvikmyndin er eiginlega eins og löng auglýsing um vöru en varan er sjálf kvikmyndin.

Stjórnmálamenn taka stundum upp á því að vera í hjólastól einn dag. Ég veit ekki hvort það er lærdómsrík reynsla fyrir mann með venjulegt andlit að vera afskræmdur í eina viku. Ástandið er að versna og ég er kominn með glóðaraugu á báðum af sígandi ennisbólgunni. Fróðlegt.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Er að kíkja af og til á Íslensku tónlistarverðlaunin í sjónvarpinu. Í fljótu bragði virðist gróskan margfalt miklu meiri í tónlistinni en kvikmyndum og sjónvarpsþáttagerð og þessi hátíð því athyglisverðari en Eddu-verðlaunin. Spurningin er sú hvort bókmenntaheimurinn mætti taka þetta sér til fyrirmyndar og standa að veglegri hátíð. Hátt í 1000 bækur koma út hér á landi árlega og aðeins 5 þeirra eru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Líklega koma um 50 þokkalega frambærileg eða betri prósaskáldverk út árlega. Stór hátíð með tilnefningum í mörgum flokkum gæti e.t.v. aukið mjög bókmenntaáhuga. Það sem bókmenntaverðlaunin gera núna er helst það að auka sölu 5 bóka um nokkur hundruð eintök hver og búa til eina bókmenntastjörnu árlega. Sem er kannski ekki slæmt. En væri ekki hægt að gera þetta veglegra?

Mér finnst einhvern veginn eins og andstæðingar Samfylkingarinnar (t.d. ég) séu hlynntari Össuri en Samfylkingarfólkið sjálft hlynntari Ingibjörgu Sólrúnu (þ.e. meirihluti þess). Eitthvað til í þessu?

Til stendur að gera gamla barnaskólann minn, Landakostsskóla, að almennum barnaskóla. Þegar ég gekk í þennan skóla um 1970 var trúaráherslan þar mun sterkari en í öðrum skólum. Þetta kann að hafa breyst mikið. Ekki finnst mér koma til greina að skóli með trúarívafi sé hluti af almennum grunnskólum en ekki einkaskóli. Þetta þarf að kanna áður en af breytingunni verður.

Bólgan eftir aðgerðina vex og sígur niður í augu. Ég held mig mest mest innandyra og fer ekkert á kaffihúsin þessa dagana. En núna rétt á eftir þarf ég að fara á fund með Íslandspósti. Byrja væntanlega á því að afsaka og útskýra útlitið.

Skrifaði 300 orð seint í gærkvöld. Bæti öðru eins við í kvöld og verð svo frameftir í vinnunni annað kvöld til að skrifa miklu meira. Vonandi eyðileggur aukavinna þetta ekki.

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Hann er sagður fastur í fortíðinni. Hvernig er annað hægt? Við eigum ekkert annað en fortíðina. Nútíðin er að gerast og maður festir ekki hönd á henni, framtíðin er ekki til.
Veðurleysi eins og þessa dagana vekur mér minningar því líklega er þetta algengasta veðrið í Reykjavík: Þungbúið, milt og rigning með köflum. - Árið 1988 skrifaði ég viðtal við sjálfan mig í Vikuna vegna bókar sem ég var þá að gefa út sjálfur, frekar lélegt smásagnasafn. Vinur minn tók ljósmyndir af mér sem prýddu viðtalið. Á myndunum var ég 95 kíló. Árið 1995 var ég að leggja síðustu hönd á annað smásagnasafn mitt, Í síðasta sinn, sem kom út það haust. Ég vann það verk að mestu leyti í húsnæði fyrirtækisins Miðlunar að Ægisgötu, þ.e. endasprettinn á bókinni, þrjár sögur. Á daginn vann ég við að setja efni í upplýsinga- og leikjasíma á símatorgi en á kvöldin hamaðist ég við bókina á meðan Erla var ein á Fálkagötunni með Freyju sem þá var bara smábarn. - Ég var 100 kíló. Í pásum skrapp ég stundum í sjoppu niður á Tryggvagötu sem hét Stélið, en flugvélarlíki var á fast í veggnum á húsinu, líkt og flugvél hefði flogið á sjoppuna. Þessi sjoppa heyrir nú sögunni til. Þarna borðaði ég hamborgara í smásagnapásum og fletti gömlum tímaritum. Eitt þeirra var Vikan frá 1988 með gamla viðtalinu við mig sem ég hafði skrifað sjálfur.

Núna er Miðlun fyrir löngu flutt upp á einhvern höfðann eða hálsinn. Ég sit hérna á Laufásveginum með sjöttu bókina í smíðum, börnin orðin tvö, kílóin 115, sem betur fer sama konan ennþá. Heimilið flutt af Fálkagötu niður að Tómasarhaga.

Ekkert átakalíf. Ekki ennþá og vonandi aldrei.

Er einhver hér sem hefur farið til Prag? Er að spá í að skreppa með Erlu í apríl. Einhver tips?

mánudagur, janúar 31, 2005

Það er verið að spjalla við Hrafn Gunnlaugsson í sjónvarpinu um kvikmyndaferilinn. Fyrstu myndirnar hans vekja minningar frá ungdómsárunum. Þær voru sumar nokkuð góðar á sinn hátt, t.d. Óðal feðranna og Hrafninn flýgur. En svo fór að versna í því. Eiginlega hljóma myndirnar hans Hrafns alltaf miklu betur úr munni hans en þær virka fyrir augað á tjaldinu. Honum mælist alltaf vel þegar hann ræðir eigin verk.

Það er nokkuð erfið reynsla að horfa á Lilju 4-ever eftir Lukas Moodyson en myndin var á dagskrá sjónvarpsins í gærkvöld. Efninu samkvæmt er þetta afar ljót mynd en jafnframt áhrifarík og býr yfir fegurð þrátt fyrir ljótleikann. Varnarleysi barna virðist mér vera rauði þráðurinn í gegnum öll verk Moodysons, ekki síst í Tillsammans sem var líka mjög áhrifarík mynd en óneitanlega ljúfari reynsla en þessi.

Börn og unglingar eru ekki eigin gæfusmiðir líkt og fullorðnir og eru viðkvæm fyrir löstum, grimmd, græðgi og mistökum annarra. Ekki ætla ég að líkja mér við Moodyson en ég hef engu að síður í fjölmörgum smásögum skrifað um varnarleysi barna og vanmátt þeirra til að móta eigin örlög. Mínar sögur gerast við aðstæður sem virðast eðlilegar og kunnuglegar á yfirborðinu, ólíkt myndum Moodysons og eru eflaust ekki jafnáhrifamiklar. Algeng gagnrýni á þessar sögur er að þær séu ekki nógu fyndnar og skemmtilegar, löngun til að útmá ljótleika sé höfundinum of þrálát. Ekki síst hef ég orðið var við þetta viðhorf hjá nánum vinum. Ég get ekki annað en viðurkennt að mér þykir lítið til þessarar gagnrýni koma. Til er urmull af skemmtiefni fyrir fólk sem ekki vill eyða tíma sínum í átakanlegar sögur og kvikmyndir. Sjónvarpið er troðfullt af laufléttri afþreyingu og hillur bókabúðanna eru það raunar líka. Fólk sem hefur ekki þörf fyrir að sækja sér sögur í aðrar áttir en þessar á þá bara að gera það en ekki tala eða skrifa niður til höfunda sem takast á við dekkri hliðar tilverunnar. Sögur á annars helst að gagnrýna út frá málfari, persónusköpun, stíl og uppbyggingu.

Ég lít út eins og særður hermaður núna, með þykkar hvítar umbúðir á enninu. Deyfingin er ekki farin og hún gerir mig væran og syfjaðan. En kúlan úr enninu liggur núna í bleyti og heyrir brátt sögunni til.

Lífið er svo áhyggjulaust að það versta sem getur hér um bil gerst er að hringja í vitlaust númer, í Erlu þegar ég ætla að hringja í mömmu. En allt er breytingum undirorpið og ekkert er öruggt. En sumir virðast einfaldlega vera gæfusamir. Svo er það nú þannig, að eflaust er til fólk sem býr við áþekkar aðstæður og ég en þjáist samt af þunglyndi. Afstaðan til lífsins ræðst væntanlega af tilviljunarkenndri efnafræði heilans. Ég er alltaf með endorfínið flæðandi.

Mér hefur tekist að skrifa um 600 orð frá því ég kom heim þrátt fyrir stanslausar annir, m.a. botnlausa yfirvinnu á stofunni. Hef ég því haldið lífi í sögunni. Núna nálgast miðnætti, ég var að klára þvottinn heima eftir að hafa bæði skokkað áður og unnið tíu tíma á stofunni. Ég vonast til að klambra saman 200 orðum á eftir. Innan tíðar gefst svo aftur tími til alvöru afkasta.

En hvers vegna í ósköpunum er ég að skrifa þetta? Og hvers vegna er fullt af fólki að lesa þetta? Lesið frekar bækurnar mínar. Þær eru miklu betri.