föstudagur, júlí 01, 2005

Ég hætti ekki í vindlunum út af krökkunum en minnist þess samt að Freyja sá mig reykja fyrir norðan á dögunum og byrjaði strax að fussa. "Viltu kannski hringja á lögregluna?" sagði ég. Og hún tautaði: "Ég hefði ekkert á móti því". - Hún varð yfir sig glöð þegar ég tjáði henni tíðindin um reykbindindið. Ég sagði: "En ég ætla að halda áfram að drekka áfengi" - "Iss, mér er alveg sama um það, nema þú mættir ekki verða fyllibytta." - "En hvað með spikið?" spurði ég. Hún yppti öxlum. Henni er nákvæmlega sama um hversu feitur eða mjór ég er. - Við Erla vorum annars á gönguferð um gamla Vesturbæinn í kvöld og þá rak Erla augun í tóman sígarettupakka á gangstéttinni. Hún benti á pakkann og sagði: "Þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir því að þú hættir að reykja". - Viðvörunin á pakkanum var nefnilega svohljóðandi: "Reykingar flýta fyrir öldrun húðarinnar."

Ég get víst ekki farið í hégómabindindi.

Loftið var rakt og hlýtt í kvöld. Þegar við nálguðumst Háskólabíó steig upp mikil og ilmandi poppkornslykt.

Tékkið á www.andriki.is Þar er drepfyndinn pistill um pólitískan rétttrúnað Morgunblaðsins.

miðvikudagur, júní 29, 2005

Af frægum - enn og aftur

Keypti mér pylsu með engu (ekki heldur brauði; 90 kr.) í Bónusvídeó á Grundarstíg. Í rigningarúðanum fyrir utan mætti ég umdeildum blaðamanni og þrátt fyrir lognviðrið sagði ég: "Þú ert með storminn í fangið." - "Þannig líður mér best", svaraði hann og bætti við: "Enda með góða samvisku." - Ég varð allur eitt hlutleysi og veifaði honum í kveðjuskyni.

Þetta er ekki erfið getraun.

Tískufyrirspurnir

Er aftur komið í tísku að vera með bindi við gallabuxur? Er kannski langt síðan það kom aftur?
Og eru flauelsföt ennþá í tísku?

þriðjudagur, júní 28, 2005

Barnaland - hávæmniflokkur

Talandi um sætar stelpur þá er Freyja að koma úr sumarbúðum í hádeginu. Ég hef hvorki heyrt hana né séð í viku. Fyrstu dagarnir voru ágætir í rólegheitunum - en nú er meira en nóg komið.

Fólk hér í vinnunni er að segja að EiríkurJónsson sé sjálfur kjörið umfjöllunarefni blaða á borð við Hér og nú og vill safna saman sögum um hann í eitt blað.

mánudagur, júní 27, 2005

Er svakalega lélegt að vilja kjósa konu í prófkjöri af því manni finnst hún sæt?

Hlemmur er að verða geðþekkari á ný en á það virkilega að vera svo að ekki verði hægt að aka þangað úr vestri? Þ.e. ekki frá Hverfisgötu? Hvers konar rugl er það?

Á Kaffi Roma sá ég húsamálara sem er glettilega líkur bandaríska rithöfundinum Richard Ford; há kollvik, slétt hár og afar greindarleg augu. Ég gældi við tilhugsunina um að hann skrifi á kvöldin og nóttunni, eða grúski a.m.k. eitthvað.

Lengi hafa menn sagt mér að lesa Karen Blixen og áðan keypti ég Skugga á grasi fyrir slikk. Útsöluborð fyrir utan MM.

Illa sofinn á mánudegi. Hver hefur ekki upplifað það. En það er hlýtt í lofti. Ég er óánægður með afköstin í sögunni en líst samt vel á söguna. Maður skrúfar fyrir hverja fíknina af annarri, skítkast, ofát, reykingar - og því fylgir ekki nægileg rósemi. Tilgangurinn er þó m.a. að beina orkunni í skriftir og hreyfingu.

Ég hef lítið bloggað um þjóðfélagsmál undanfarið og þar sem verra er: ég hef nánast ekkert fylgst með fréttum. Missi af hverjum fréttatímanum á eftir öðrum. Þetta er sumardoðinn notalegi. Spilaði samt viðtalið við Bubba Morthens á Vísi í gær og var ansi ánægður með hann. Blanda mér þó ekki í þá umræðu.

Spennandi leikur í kvöld. Vilja ekki allir að við lækkum rostann í Valsmönnum?

sunnudagur, júní 26, 2005

Ég er enn að reyna að ná reyklyktinni úr jakkafötunum eftir föstudagskvöldið. Ég er hins vegar hættur í vindlunum. Þannig er það. Ákvað það í gær. Það er skelfilega hégómlegt en mig langar til að halda í leifarnar af unglegu útliti eins lengi og ég get. Reykingar eru því ekki lengur inni í myndinni en hófleg áfengisdrykkja verður stunduð áfram, hollt mataræði og hreyfing. Ég veit ég er viðbjóðslega leiðinlegur en mér líður vel með þessar ákvarðanir.