Einhvern tíma um vorið 2005 sat ég á Hressó með ferðatölvu eða vasabók og skrifaði þessa setningu: "Á föstudagseftirmiðdegi í maí hafði ung stúlka samband við Daníel og sagðist vilja skrifa grein um vændi."
Enn sit ég á Hressó og handritið orðið útgáfuhæft, tæpum tveimur árum síðar. En það getur orðið svo miklu betra.
Lífið er framþróun sem vindur áfram í sífelldum endurtekningum.
Lífið er líka ævintýri gegnsýrt hversdagsleika. Kettirnir í Kattholtsútibúinu á Laufásvegi sátu í glugganum áðan og störðu á smáfuglahóp sem hafði raðað sér á tré hinum megin við götuna. Í risíbúð hjá trénu hélt kona á smábarni. Hljóðin í fuglagerinu léku um hlustir barnsins. Í enn eitt skiptið labbaði ég framhjá þessum köttum með fartölvu og handrit í töskunni á leiðinni á Hressó. Á meðan eldist andlit mitt án þess að nokkur taki eftir því fyrr en nokkrum bókum síðar.