fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Einhvern tíma um vorið 2005 sat ég á Hressó með ferðatölvu eða vasabók og skrifaði þessa setningu: "Á föstudagseftirmiðdegi í maí hafði ung stúlka samband við Daníel og sagðist vilja skrifa grein um vændi."

Enn sit ég á Hressó og handritið orðið útgáfuhæft, tæpum tveimur árum síðar. En það getur orðið svo miklu betra.

Lífið er framþróun sem vindur áfram í sífelldum endurtekningum.

Lífið er líka ævintýri gegnsýrt hversdagsleika. Kettirnir í Kattholtsútibúinu á Laufásvegi sátu í glugganum áðan og störðu á smáfuglahóp sem hafði raðað sér á tré hinum megin við götuna. Í risíbúð hjá trénu hélt kona á smábarni. Hljóðin í fuglagerinu léku um hlustir barnsins. Í enn eitt skiptið labbaði ég framhjá þessum köttum með fartölvu og handrit í töskunni á leiðinni á Hressó. Á meðan eldist andlit mitt án þess að nokkur taki eftir því fyrr en nokkrum bókum síðar.

http://www.uppheimar.is/frettirpage.asp?ID=892 Mér virðist að Ævar Örn sé alveg farinn yfir til Kristjáns hjá Uppheimum en þetta hafi ekki bara verið einnar bókar framhjáhald. Það er athyglisvert þegar svo söluvænlegur höfundur flytur sig um set til óþekkts forlags, kannski vísir að meira losi í útgáfubransanum.

Ég býst við því að bókaútgáfa sé feykilega erfið og lítt gróðavænleg starfsemi en komist menn einu sinni á skrið þarf kannski ekki mikið til að komast í hóp öflugustu forlaganna, þegar haft er í huga hvað markaðurinn hér er lítill.

Þegar ég var lítill var meiri hugsjón í pólitíkinni, menn voru eldheitir kommúnistar eða eldheitir Sjálfstæðismenn. Núna fer maður alltaf að velta því fyrir sér hvaða kænska búi að baki hverjum leik í skákinni. Tækifæri á kjósendamarkaðnum koma í stað hugsjóna sem barist er fyrir. Hvar eigum við að ná okkur í kjósendu? Hverjir eru á lausu? - Núna velti ég því fyrir mér hvers vegna Framsóknarflokkurinn tekur þessa hörðu afstöðu gegn innflytjendatali Frjálslynda flokksins á meðan aðrir þegja? Er hann að koma Kaffibandalaginu í vandræði? Eða er verið að hugsa um "markaðinn", kjósendur sem eru alls-alls ekki rasistar?

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

http://www.laurahird.com/newreview/decapolis.html Lesandi þessarar síðu benti mér á þennan ritdóm um Decapolis - Tales from Ten Cities.

Ég hef aldrei skilið forsendurnar fyrir fylgisvæntingum Samfylkingarinnar. Flokkurinn fékk 32 prósent í síðustu kosningum og það fannst mér vera stórsigur og mikil tíðindi að einhver flokkur væri nánast kominn upp að hlið Sjálfstæðisflokksins. Mér þykja 20-25% miklu eðlilegra fylgi fyrir þennan flokk sem varð aldrei nein sameiningarbreiðfylking allra vinstri manna því stór hluti af þeim fór í Vinstri græna.

Eðlilegasta stjórnarmynstrið eftir kosningar er Sjálfstæðisflokkur plús Samfylking. Ef menn vilja frekar vinstri stjórn þá verður það flóknari bræðingur. Ég hef enga trú á smáframboðunum. Frjálslyndi flokkurinn er eini eins máls flokkurinn sem hefur hangið á þingi. Þeir eru núna að skipta um sitt eina mál, úr kvótakerfinu í innflytjendamál. Þeir verða einhvers staðar á bilinu 5-10 prósent, með 1-3 þingmenn.

Decapolis hefur fengið góða dóma í The Independent og The Times. Í The Times fjallar A.S. Byatt nokkuð hlutlaust um mína sögu en hrósar mér ekkert sérstaklega, bara bókinni í heild.
Dómurinn í The Independent er líka almennur en mjög jákvæður.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Já og Dallas var framleitt til 1991 sem þýðir líklega að þetta er ekki vandamál í handritinu mínu. Þar er persóna fædd árið 1980 sem horfði á Dallas í æsku.

Ég er nú búinn að fá allar niðurstöður yfirlesara og get farið að bretta upp ermarnar.

Ég er semsagt aftur orðinn rithöfundur og nokkurra vikna krísu lokið.

Framundan er stíf hálfs árs vinna við að breyta sæmilegri skáldsögu í góða skáldsögu.

Spái því að ég verði duglegri að blogga fyrir vikið, skelli hér fyrirhafnarlaust inn færslum milli þess sem ég strita við handritið á síðkvöldum.

mánudagur, febrúar 05, 2007

Getur einhver sagt mér hvenær Ríkissjónvarpið hætti að sýna Dallas? Ekki getgátur heldur einhver sem veit það fyrir víst. Getið þið nefnt mér einhverja aðra minnisstæða seríu sem sýnd var fram til 1990?

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Horfði á Söngvakeppni Sjónvarpsins í gærkvöld og þótti hún geðþekk. Alveg var það eftir bókinni að Bubbi Morthens skyldi birtast og segjast aldrei ætla að taka þátt í Eurovision. Hann þarf alltaf bæði að eiga og éta kökuna, blessaður, og kemst upp með það.

Verst þykir mér að hafa yfirleitt tíma til að horfa á þetta. Ég veit ekkert í augnablikinu hvað ég á að gera við handritið, en veit bara að það er eitthvað. Bíð frekari viðbragða.

Byrgismálið er klassískt dæmi um hvað við getum verið blinduð af augnablikinu í þjóðfélagsumræðu. Stjórnmálamenn sem hefðu gengið hart að Byrginu á sínum tíma hefðu aldeilis fengið það óþvegið hjá stjórnarandstöðunni, því sama fólki og nú heimtar að menn séu dregnir til ábyrgðar. En þeir hefðu auðvitað samt átt að gera það.