Ef fólk vill að öll stéttarfélög hafi óskorðað og sjálfstætt samningafrelsi þá verður að hætta að setja í kjarasamninga ákvæði um að umrædd starfstétt fái allar launahækkanir sem viðmiðunarstéttir kunna að semja um á samningstímanum.
En á meðan þessi ákvæði eru í flestum kjarasamningum þá er ekki hægt að hækka láglaunastéttir sérstaklega nema með samstilltu átaki margra stéttarfélaga.
Að viðurkenna ekki þennan veruleika er lýðskrum. Það er ennfremur lýðskrum að halda því fram að samningar á borð við þá sem gerðir voru við ófaglærða starfsmenn borgarinnar geti ekki haft í för með sér hættu á víðtæku launaskriði og víxlverkunum kaupgjalds og verðlags. Að benda á tekjuhæstu einstaklingana í tekjublaði Frjálsrar verslunar í þessu samhengi er líka lýðskrum. Engin starfstétt mér vitanlega hefur ákvæði í kjarasamingum sínum um að launahækkanir eigi að taka mið af kaupréttarsamningum stjórnenda í fjármálafyrirtækjum. Það kann að hljóma vel að grípa til slíkra dæma í argaþrasinu en það er jafn mikið rugl fyrir því.
Þegar borgarstjórinn spyr "Hvenær eiginlega má þá hækka laun þessa fólks" þá er það röng spurning. Rétta spurningin er "hvernig". Það þarf að gerast með víðtæku samráði margra stéttarfélaga eða allsherjar afnámi ákvæða í kjarasamingum um sambærilegar hækkanir og aðrir semja um.
Ég hef enga faglega innsýn í kjaramál. Ég veit þetta vegna þess að þetta blasir við augum þeim sem meta þessi mál hlutlægt.