laugardagur, mars 21, 2009

Gömul smásaga birt

Ég birti sjaldan skáldskap eftir mig á netinu og frumbirti aldrei. Ég gerði mér að leik að birta oft brot úr Hliðarspori á meðan ég var að skrifa bókina og raunar voru það stundum textar sem birtust ekki í endanlegri gerð sögunnar. Það er billegt að frumbirta skáldverk á netinu og það á alvarlegur höfundur aldrei að gera, slíkt er fyrir viðvaninga. En stundum er gaman að birta gamalt efni þó að stilla eigi slíku í hóf. Eftirfarandi sögu skrifaði ég árið 2000 eða fyrir 9 árum. Segja má að hún sé hápunkturinn á ákveðnu tímabili hjá mér sem nú er liðið undir lok, þ.e. æskusögur frá 8. áratugnum. Sagan vann 1. verðlaun í smásagnakeppni sem Vefgáttin Strik.is hélt árið 2001 að undirlagi Hrafns Jökulssonar. Í öðru sæti varð sagan Einhelti eftir Einar Kárason. Hún birtist síðan í TMM sama ár ásamt viðtali við höfundinn. Haustið 2001 birtist hún í smásagnasafninu Sumarið 1970 og þremur árum síðar í safnritinu Uppspuni sem Bjartur gaf út og notað er við íslenskukennslu í framhaldsskólum. Sagan er líka kennd í ritlist í bókmenntafræði í HÍ. Að öllum líkindum kemur hún út á Englandi á næsta ári en meira um það síðar. Stutt saga, skrifuð fyrir löngu og fjallar um enn eldri tíma.






HVERFA ÚT Í HEIMINN




(1975)

Þó að veikindi bróður míns hafi lagt undir sig heimilislífið er hann orðinn enn fyrirferðarmeiri eftir að hann dó. Ég velti því stundum fyrir mér hvort ég muni nokkurn tíma losna við hann.

Stofan er ekki stór og núna rúmar hún ekki annað en hann. Áður lagði hann bara undir sig gólfið. Reisti búgarð í einu horninu: brún plastgirðing, kýr kindur og hundar; og bóndinn hjó gólfteppið með ljá sem var fastur við hendur hans. Í hinu horninu reisti hann borg úr legókubbum og borgin stækkaði og teygði sig sífellt lengra inn á gólfið, eins og nýju húsin í hverfinu sem sífellt spretta upp og færast nær okkur. Stundum átti bóndinn leið til borgarinnar í bíl sem hafði verið smíðaður þar, og þá var hvergi hægt að stíga niður fæti á gólfinu.
Núna er dótið hans hvergi sjáanlegt en ofan á stofuskápnum er raðað mörgum litlum ljósmyndum af honum í leðurrömmum á fæti. Á miðri skápröndinni stendur græni minningarvasinn frá spítalanum. Á morgnana hrekk ég stundum upp af draumi um boltaleik í stofunni um leið og boltinn skellur á vasanum.
Á veggjunum hanga tvær stórar myndir af honum. Önnur er ljósmynd með dökkgrænum máluðum bakgrunni. Kinnarnar eru þykkar af bjúg en ásjónan björt og skær. Svipurinn alvarlegur og augun ekki laus við ásökun.
Hin myndin er málverk, önnur minningargjöf frá spítalanum. Andlitið á þeirri mynd er ekki mjög líkt honum en skyrtan er gamalkunnug: marglitar rendur í bítlastíl. Við áttum báðir svona skyrtur en þær hafa fyrir löngu verið klipptar niður í afþurrkunarklúta. Um daginn sá ég mömmu þurrka af myndinni með leifum af annarri skyrtunni. Ég vona að það hafi verið mín skyrta þó að það skipti ekki máli.


Daglega þarf ég að fara í kirkjugarðinn með mömmu. Þetta geta orðið langar gönguferðir því mamma hefur ekki bara áhuga á legstað bróður míns heldur þarf hún að fræða mig um lífshlaup fjölda annarra hvíldargesta garðsins.
Mest talar hún þó um allt það sem hún vill gera fyrir leiði bróður míns. Á einu ári hefur hún skipt þrisvar um legstein og þeir hafa verið hver öðrum glæsilegri.
Mömmu virðist stundum einkar hlýtt til mín þegar ég geng með henni um kirkjugarðinn. “Þú verður ábyggilega læknir”, segir hún og horfir ástúðlega á mig. “Þú verður læknir og bjargar mannslífum.” Ég hugsa með hrolli til þess að eyða fullorðinsárunum á spítala klæddur í hvítan slopp. Ég hef alltaf ímyndað mér að fullorðinn verði ég loksins frjáls. Geti eytt dögunum í að búa til blóðugar bíómyndir og setið við sérhannað spilaborð á kvöldin og drukkið úr viskíglasi sem fellur niður í kringlótt hólf á borðinu þegar ég legg það frá mér.
En þegar mamma segir þetta og horfir svona ástúðlega á mig þá virðist læknisferillinn óhjákvæmilegur. Lengi vel langar mig ekkert heitar en að verða læknir. Upptendraður skrifa ég ritgerð um það í skólanum. Svo kemur eftirsjáin en ég leiði hana hjá mér.

Í stað þess að losna við einn bróður hef ég fengið yfir mig tvo. Annar þeirra hvílir í kirkjugarðinum en um hinn talar mamma við morgunverðarborðið: “Þú veist að bróðir þinn lifir áfram. Og ekki nóg með það: núna er hann ekki veikur lengur. Hann lifir í annarri vídd og fylgist með okkur. Hann sér okkur þó að við getum ekki séð hann. En af því að þú ert næmur drengur þá má vera að þú getir kannski einhvern tíma séð hann eða í það minnsta heyrt í honum. Þig hlýtur að langa til þess?”
Mamma túlkar þögnina sem samþykki og heldur áfram: “Þegar þú ert einn hérna uppi þá geturðu sest inn í stofu og gert dálítið. Það er aðferð sem næmt fólk getur stundað. Þú lætur handleggina hvíla á stólörmunum og opna lófana snúa upp. Þú lokar augunum og reynir að hugsa ekki um neitt. Tæma hugann. Þá er aldrei að vita nema að þú getir heyrt í honum. Ef þú heyrir í honum skaltu opna augun og þá getur verið að þú sjáir hann líka!”
Mamma leggur brúna stílabók og bláan bic-penna á eldhúsborðið. Stílabókin lítur nákvæmlega eins út og þær sem ég nota í skólanum, en þessi er óskrifuð. Og þessa bók þarf ég ekki að geyma í skólatöskunni og ég þarf ekki að leysa í henni heimaverkefni. Þessa bók þarf ég ekki að nota frekar en ég vil, mamma leggur áherslu á það um leið og hún horfir á mig bænaraugum.
Það er reyndar ekki ég sem á að skrifa í þessa bók. Hún sýnir mér hvernig beita á pennanum, hann á að hvíla í skorunni milli vísifingurs og þumals. Pennaoddurinn efst á blaðsíðunni. Höndin hreyfingarlaus.
Ef hann skrifar eitthvað vill mamma fá að sjá það. En hún ítrekar að ég þurfi ekki að gera þetta frekar en ég vil. Bænaraugun. Ég skynja að ég þarf að losna við þessi bænaraugu undir eins. Mér finnast þau verri en nokkrar skammir þó að ég geti varla borið það saman, því ég er aldrei skammaður.

Mamma gerir sig ánægða með eina litla setningu. Satt að segja er hún himinlifandi. Skriftin er mjög óskýr en orðið “stálhraustur” má þó glögglega lesa út úr sparkinu í línuendanum. Mamma dregur þá ályktun að setningin í stílabókinni sé samhljóða því sem ég segist hafa heyrt í stofunni: “Verið ekki sorgmædd, mér líður vel, ég er stálhraustur.”
“Sagði hann örugglega ekkert fleira við þig?” spyr hún áköf.
“Nei, og mér fannst eins og hann vildi kannski ekkert að maður væri að tala meira við hann. Eins og hann ætti bara að lifa sínu lífi þarna í annarri vídd. Og við okkar lífi.”
Ringlaður spurnarsvipur á mömmu.
“Sagði hann það?”
“Neinei, mér fannst þetta bara einhvern veginn. Af því ég er kannski svolítið næmur drengur eins og þú segir.”
Hún spyr hvort ég ætli samt ekki að reyna aftur.
Ég segist ætla að sjá til. Maður þurfi að skynja hvort maður eigi að reyna aftur. Af því maður er svolítið næmur á þetta.
Mamma segir að kannski langi mig til að verða miðill þegar ég verð stór. Miðill og læknir. Í heiminum séu bæði til góðir læknar og góðir miðlar en hún viti ekki um neinn sem sé hvorttveggja.
“Slíkur maður hlyti að verða mikil blessun fyrir mannkynið”
Ég kinka kolli og kyngi munnvatni.

Þegar ég geng inn í mannlausa stofuna virðist ekkert sjálfsagðara en að andlit bróður míns á stóru ljósmyndinni á veggnum byrji að tala.
En þegar ég hvíli handleggina á stólörmunum, opna lófana, loka augunum og reyni að tæma hugann, þá verður bílaumferðin fyrir utan skyndilega svo hávær, bílhljóðin sem maður er ekki vanur að taka eftir hljóma eins og ég sé staddur úti á götu.
Þá skynjar maður hvað heimurinn er stór og hávaðasamur, þögnin er bara hér. Full af dauðlegu lífi bíður veröldin handan við bílhljóðin sem hverfa í fjarskann.



(1976)

Stundum finnst mér ég þurfa að komast í bíó á hverjum degi. En það er útilokað. Í rúminu á kvöldin bý ég til mínar eigin bíómyndir. Rauð kúlnagöt spretta fram á jakkafötunum og mennirnir engjast fyrir framan mig. Hver á eftir öðrum reyna þeir að drepast sem flottast fyrir mig, hníga titrandi niður í gólfið með sem mestum tilþrifum.
Það er ekki dauði.
Á náttborðinu er glært kranaviskí í glasi. Eftir blóðbaðið sest ég upp í rúminu og klára úr glasinu í einum sopa. Ég gretti mig og dæsi, vökvinn logar í innyflunum.
Ég er aldrei stoppaður á bannað innan 14 en þegar myndirnar eru bannaðar innan 16 ára getur brugðið til beggja vona. Það er óskemmtilegt að snúa heim aftur með miða í vasanum sem ekki fæst endurgreiddur samkvæmt reglum kvikmyndahúsanna. En óneitanlega líður mér eins og glæpamönnunum í bíómyndunum þegar ég læt lítið fyrir mér fara við innganginn um leið og ég rétti fram miðann. Og þegar dyravörðurinn rífur af miðanum er ég sloppinn inn í flugvélina sem flytur mig úr lögsögunni en lögreglumennirnir sem hafa dreift sér um flugstöðina grípa í tómt. Þeir geta ekki stöðvað mig. Þeir geta ekki stöðvað hefndina. Ég mun finna morðingja bróður míns.

Verslunin okkar er á neðri hæð hússins. Þetta er lítil búð en mamma kallar hana alltaf Verslunina. Hún segir það með stórum staf og stolti: Verslunin. Vöruhillurnar í litlu hurðarlausu herbergi við hliðina á anddyrinu. Afgreiðsluborðið í þröngu skoti fyrir innan anddyrið. Á borðinu er grár sími sem mér fannst einu sinni svo nýtískulegur. Áður en hann var keyptur hélt ég að bara væru til svartir símar. En núna er þessi grái sími bara hversdagslegur eins og rykið á gólfinu en svarti síminn í stofunni minnir mig á gamlan hálfgleymdan tíma: þegar bróðir minn var ekki veikur og ég gat leikið mér við hann og strítt honum eins og venjulegum krakka.
Lagerinn er í upphituðum skúr á baklóðinni. Þar á ég vingott við gleymdar íssósur. Þær standa í glærum plastbrúsum með rauðu loki í beinni röð fyrir aftan pappakassa sem er kúgfullur af ljósaperum.
Á ljósaperunum er þykkt ryklag sem ég set stundum skarð í með vísifingri. Aldrei bregst það að í næstu skúrferð eru ummerkin horfin, ryklagið orðið jafnþétt á ný. Þetta vekur mér þá gamalkunnu tilfinningu að ég geti ekki haft nein áhrif á heiminn.
Íssósubrúsarnir eru mislitir af innihaldinu. Rétt áður en ég sprauta úr einum þeirra upp í mig finn ég fyrir gleðitilfinningu gagnstæðri við tómleikann sem ljósaperurykið vekur: ég og ekkert annað en ég ákvarða magnið í íssósubrúsunum hverju sinni.
En stuttu síðar, þegar mér er orðið bumbult, kemur tómleikinn aftur: þessir íssósubrúsar eru gleymdir og yfirgefnir, það að hafa áhrif á þá er ekki að hafa áhrif á heiminn, brúsarnir eru ekkert annað en hluti af sjálfum mér eins og sokkarnir mínir eða andlitsgeifla í spegli sem enginn verður vitni að.
Á miðanum framan á hverjum brúsa er stimplaður síðasti söludagur. Þó að það finnist ekki á bragðinu sýnir stimplunin að allar sósurnar runnu út í febrúar 1974. Þá var bróðir minn ennþá lifandi. Ég velti því fyrir mér hvernig hann lítur út núna, hve lengi líkaminn endist.





(1977)

Loksins þegar ég er laus við bróður minn þá flæki ég mig í net hans aftur. Núna er hann ekki umræðuefni lengur, ég þarf ekki að hugsa um hann.

Ég hef lifað nógu lengi til að teljast táningur en hefur eitthvað breyst? Ég hafði alltaf ímyndað mér að með táningsaldrinum myndi sjálfkrafa dragast yfir mig töffaraskapur, leðurjakki félli af himnum yfir herðar mínar og fljúgandi sígaretta lenti í munnvikinu og myndi vega þar salt í jöfnum takti þegar ég skyti út úr mér meitluðum athugasemdum.
En ég þori ekki að reykja og ég sem hef svo oft drukkið platviskí úr eldhússkrananum og kyngt því með þaulæfðum grettum og andvarpi forhertra manna úr bíómyndum, - þegar út í alvöruna er komið guggna ég á raunverulegri vodkablöndu.
Það eina sem hefur breyst er að núna er mér aldrei vísað frá bönnuðum myndum. Það er ekkert merkilegt við það að komast 15 ára inn á mynd bannaða innan 16 ára. Strákarnir sem einu sinni hlustuðu með ákafa á mig eftir að ég hafði laumað mér inn á Deliverance í Austurbæjarbíói, veifa núna framan í mig búsi.
“Hvað, viltu ekki fá þér? Ertu hræddur við mömmu þína?”
“Neinei, ég vil bara frekar viskí.”
En ennþá er ómótstæðilegt að sitja í myrkvuðum sal þar sem dauðinn er skemmtilegur, spennandi og áhyggjulaus. Ekki langdregin jarðarför, ekki þrúgandi þögn í húsinu, ekki kirkjugarðsferðir, ekki brúna stílabókin sem núna liggur gleymd í neðstu eldhússkúffunni innan um batterí og skrúfjárn, fyrir neðan hnífapör og sleifar.

Áður var auðvelt að næla sér í nokkra seðla úr peningaskúffunni en núna er mamma búin að selja búðina. Ég átta mig ekki á því hvað hún seldi, því enn búum við í húsinu og lagerskúrinn stendur sem fyrr á baklóðinni, meira að segja ennþá eitthvað af vörum í honum.
Bróðir minn safnaði tíköllum í ljósgulan strigapoka sem mamma færði honum eftir að hafa sótt skiptimynt í bankann. Hægt og sígandi fylltist pokinn. Bróðir minn fann tíkall undir sófasessu, í innkeyrslunni, á gólfinu og svo framvegis. Fólk gaf honum tíkalla, einu sinni gaf ég honum meira að segja tíkall sjálfur.
Hann var að stæla ríkidæmi Jóakims úr Andrésarblöðunum. Á myndunum voru svona pokar. Til að fullkomna eftirlíkinguna gerði hann dollaramerki utan á pokann með svörtum tússpenna. Núna er aðeins dauft far eftir letrið og ég veit ekki hvort augu mín greina ennþá raunverulega dollaramerkið eða hvort það er minningin sem les það.
Ég er lengi að telja alla tíkallana úr pokanum. Samanlagt gera þeir rétt rúmlega bíómiða, poppkornspoka og tvær strætóferðir.

Íssósubrúsarnir eru horfnir úr lagerskúrnum. Og ljósaperukassinn líka. Núna finnst mér að andi bróður míns hafi búið í þessu dóti og ég er feginn að vera laus við það. Á gólfinu stendur opinn cheerios-kassi, hálffullur af gulum pökkum. Nokkrar lengjur af viceroy-sígarettum liggja á tréborði. Það er búið að taka hitann af skúrnum og það er undarleg tilfinning eftir öll þessi skúrheitu ár að vera skyndilega kalt þegar maður stendur hérna í stuttermabol.
Mamma er búin að kaupa efnalaug í Austurbænum. Þar er erfitt að komast óséður í peningaskúffuna. Gufan frá fatapressunni gefur frá sér undarlega lykt. Í nokkra daga er gaman að anda að sér þessari lykt en síðan verður hún hversdagsleg.

Bíómyndin veldur vonbrigðum, þetta var meira grín en hasar þrátt fyrir aldurstakmarkið. Í myndinni var bara framið eitt morð en þó hafði miðaverðið verið hækkað. Mér þótti ég hlunnfarinn enda hafði ég borgað hundraðkalli minna í síðustu bíóferð og séð að minnsta kosti sjö morð. Engu að síður gat ég ekki neitað mér um poppkornið. Núna á ég ekki fyrir strætófari og verð að ganga heim.
Á heimleiðinni rennur upp fyrir mér að það er tekið að halla sumri. Nöpur gola og ljósblátt rökkur. Eins og ég sé að koma úr níubíó en ekki sjöbíó.
Tómur tíkallapokinn verður að hnúti í maganum. Mér verður hugsað til gimsteinaþjófanna í myndinni áðan og bíræfni þeirra. Í stutta stund finnst mér ég vera verri en þeir. Mér finnst að þeir hafi ekki stolið neinu sem skipti máli. Og aukaatriði þó að þeir hafi skotið öryggisvörð til bana. Ég sé hann fyrir mér að drekka kaffi í mötuneyti leikaranna með gerviblóðblettinn enn á skyrtubrjóstinu.
Ég velti því fyrir mér hvort mig geti aftur langað til að verða læknir.



(1978)

Í dag barst jákvætt svar frá Menntaskólanum. Mamma varð himinlifandi og þó að við vissum bæði að allir í þessu hverfi sem lokið hafa grunnskólaprófi fá inngöngu í þennan skóla, fannst okkur sigur hafa unnist. Við héldum upp á þetta á veitingastað: kjúklingur, franskar kartöflur og pilsner. Mamma sagði mér að tveir náfrændur sínir hefðu lokið stúdentsprófi frá þessum skóla. Báðir höfðu látist af slysförum.
“Nú tekur þú upp þeirra merki”, sagði hún og augu hennar ljómuðu.
En hún minntist ekki á læknisfræði. Ég sá fyrir mér stúdentshúfu á höfði mínu og að mér yrði ruglað saman við lögregluþjón.
Ég fékk mér sopa af pilsnernum og ímyndaði mér hann sterkari, ætlaði að gretta mig en hætti við. Varð hugsað til bréfsins frá menntaskólanum og ákvað með sjálfum mér að vera vaxinn upp úr þessu.
Á næsta borði japlaði gamall maður á kjúklingabeini. Ég hafði oft séð þennan mann í búðinni heima áður fyrr, en núna virtist hann ekki kannast við okkur lengur þó að ég mætti augum hans. Mamma tók ekki eftir honum.
Í stutta stund varð allt hversdagslegt aftur eins og þegar dregur skyndilega fyrir sólu og maður er ennþá í stuttbuxunum.
Á heimleiðinni stöðvaði mamma bílinn fyrir framan hús menntaskólans og horfði lengi á það. Rauður skódi flautaði fyrir aftan okkur en mamma hirti ekki um það.

Enn er gamli búðarkassinn á skrifborðinu. Hann virðist ekki hafa fylgt með í sölunni í fyrra frekar en flest annað. Svört snúran hringar sig upp við hliðina á honum. Mér tekst að opna peningaskúffuna en ég get ekki lokað henni aftur. Skúffan er tóm. Af einhverjum ástæðum hugkvæmist mér ekki að stinga snúrunni í samband.

Ég sest inn í stofu. Myndirnar af bróður mínum á veggjunum eru ekki lengur þrúgandi. Einu sinni var ekki hægt að horfa á sjónvarpið án þess að þær trufluðu og segðu með þögn sinni að maður ætti að gera eitthvað annað en horfa á sjónvarpið, þjást og vera heilagur á svipinn. Núna eru þær orðnar að gömlum hlutum og gamlir hlutir hafa ekki líf nema maður leggi sig eftir því að glæða þá því.
Svona er tíminn, maður tekur ekki eftir því að hann líður fyrr en hann er liðinn. Ekkert virðist gerast frá degi til dags, maður tekur ekki eftir neinum breytingum fyrr en hann uppgötvar að allt er breytt.
Mér verður hugsað til þess að þegar við mamma ókum burtu til veitingastaðarins í kvöld hlyti bílhljóðið að hafa heyrst inn í stofuna, fjarlægst og síðan horfið, rétt eins og önnur bílhljóð, - ef einhver hefði verið heima til að hlusta. Smám saman get ég ekki varist þeirri tilhugsun að ég hafi sjálfur verið staddur hérna í stofunni, að ég hafi hlustað á sjálfan mig hverfa út í heiminn og verða óþekkjanlegur.

miðvikudagur, mars 18, 2009

Heimilislegt Ísland

Ég fékk Kiljuna í heimsókn á Tómasarhagann í dag. Þau voru að safna innslögum fyrir "Uppáhaldsbókin". Innslagið með mér birtist e-n tíma á næstu fimm vikum.
Fyrst steig inn úr dyrunum stúlka sem ég vann með á Stöð 2 í eldgamla daga. Tækjataskan hennar var í laginu eins og ferðataska, hún hélt á henni í hægri hendi og var tilsýndar eins og einhver frænka frá Ameríku að koma í heimsókn til að gista í eins og tvær vikur.

Um leið og Egill stormaði inn í stofu benti hann á bókaskápinn, á ritsafn Platons, og spurði: "Er þetta ekki bókin sem ég lánaði Jóni Óskari einu sinni?" Jón Óskar Sólnes, sameiginlegur vinur okkar, tók nokkra heimspekikúrsa í fornöld en hann er fyrir lifandis löngu kominn með mastersgráðu í hagfræði og stjórnum, að ég held. Sjálfur er ég að klára BA í heimspeki á gamals aldri. Að öllum líkindum var þessi tilgáta Egils rétt, um þessa bók sem hann kom auga á sekúndubroti eftir innkomu sína, innan um nokkur hundruð bækur sem hér eru í íbúðinni (eða hvað eru þær margar?). Hann bætti hins vegar við: "Ég ætla samt ekkert að taka hana."

Í mónólóg mínum um uppáhaldsbækur sendi ég auðmjúka þakkarkveðju til Þórbergs, Laxness og Guðbergs, fyrir að vekja áhuga minn á bókmenntum, en talaði síðan bara um Raymond Carver og Alice Munro, vegna þess að þau hafa mest áhrif á hvernig ég skrifa. Ég held jafnvel að þetta hafi verið nokkuð góð auglýsing fyrir Munro en fullsnemma á ferðinni því ég er bara búinn að þýða eftir hana nokkrar blaðsíður, á alveg eftir að heilla útgefendur með verkum hennar, hvað þá bókamarkaðinn.

Í kvöld gaf ég krökkunum Lindubuff, aðallega af því pabbi neitaði mér um það á 17. júní árið 1971. Hann sagði: "Viltu hætta þessu buffrelli, Gústi minn." Núna þarf ég að neita mér um það sjálfur. Krakkarnir hita það í örbylgjuofni, í 10 sekúndur. Verði þeim að góðu.