Ég keypti Óvini ríkisins á sértilboði á föstudaginn. Kápan er skemmtilega gamaldags, minnir á hönnun frá síðari hluta 8. áratugarins. Ég held að það sé meðvitað. Ég er rétt nýbyrjaður að lesa en höfundi tekst að gera sjálfan innganginn spennandi, þó að hann fjalli ekki um annað en leit hans að gögnum. Það minnir á síðustu bók hans, Völundarhús valdsins, sem var sérlega grípandi fyrir utan að vera afar fróðleg.
Það er undarlegt fyrir fjölskyldumann að sitja á Súfistanum á laugardagskvöldi og þykjast vera að skrifa. Þetta pár, slegið inn upp úr vasabókinni réttlætti þó klukkustundarvist:
Tveir stráklingar, varla eldri en 13 ára, staðnæmdust reykjandi fyrir utan gluggann. Annar sneri baki í hann og sló hælnum reglubundið í glerið. Drengirnir voru svo óðamála að Árni skildi ekkert hvað þeir sögðu þó að vel heyrðist til þeirra gegnum gluggann. Þeir hræktu sífellt á gangstéttina, slummurnar líktust sápufroðu á dökkum regnblettunum; og þeir reyktu ákaflega líkt og reykingar væru erfitt nákvæmnisverk en ekki eitthvað sem gert er án umhugsunar.
Ég fór á fimleikasýningu í Gróttu í dag. Hún var skemmtileg, í alvöru. Þeir sem þekkja mig trúa mér ekki, en ég er að segja satt.