laugardagur, desember 02, 2006

Ég keypti Óvini ríkisins á sértilboði á föstudaginn. Kápan er skemmtilega gamaldags, minnir á hönnun frá síðari hluta 8. áratugarins. Ég held að það sé meðvitað. Ég er rétt nýbyrjaður að lesa en höfundi tekst að gera sjálfan innganginn spennandi, þó að hann fjalli ekki um annað en leit hans að gögnum. Það minnir á síðustu bók hans, Völundarhús valdsins, sem var sérlega grípandi fyrir utan að vera afar fróðleg.

Það er undarlegt fyrir fjölskyldumann að sitja á Súfistanum á laugardagskvöldi og þykjast vera að skrifa. Þetta pár, slegið inn upp úr vasabókinni réttlætti þó klukkustundarvist:

Tveir stráklingar, varla eldri en 13 ára, staðnæmdust reykjandi fyrir utan gluggann. Annar sneri baki í hann og sló hælnum reglubundið í glerið. Drengirnir voru svo óðamála að Árni skildi ekkert hvað þeir sögðu þó að vel heyrðist til þeirra gegnum gluggann. Þeir hræktu sífellt á gangstéttina, slummurnar líktust sápufroðu á dökkum regnblettunum; og þeir reyktu ákaflega líkt og reykingar væru erfitt nákvæmnisverk en ekki eitthvað sem gert er án umhugsunar.

Ég fór á fimleikasýningu í Gróttu í dag. Hún var skemmtileg, í alvöru. Þeir sem þekkja mig trúa mér ekki, en ég er að segja satt.

föstudagur, desember 01, 2006

Vinsamleg ráðstefna um Maó er enn eitt vitni þess að það hefur aldrei verið gert upp við kommúnismann á sama hátt og nasismann. Spurning er hins vegar hvort ekki megi fjalla um harðstjóra sögunnar á hlutlægan hátt og þess vegna halda ráðstefnu um Hitler. Líklega væri slík ráðstefna um Hitler þó óvinsamleg og kæmi út sem nasistaáróður. Mér vitanlega hefur kommúnistaáróður þó aldrei verið bannaður.

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Ég er leiður á kaffinu í vinnunni og þó kemur það úr ágætri espresso-vél. En þegar maður fær sér í hverju hádegi frábæran latte á stöðum eins og Kaffitári, Súfistanum eða Mokka, þá verður þetta eitthvað svo óspennandi. Ég er vanur að drekka þetta úr hvítu plastmáli en í kvöld lét ég það renna í hvítan postulínsbolla og merkilegt nokk - það bragðaðist betur.

Samstarf við aðrar Norðurlandaþjóðir um varnir landsins finnst mér fremur viðkunnanleg tilhugsun. Gott væri að fjarlægjast Bandaríkjamenn enn frekar með þeim hætti. Við erum fámenn og getum ekki gert þetta sjálf (nema kannski að hluta) en við erum hins vegar rík og eigum að borga brúsann.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Daníel kom honum á óvart með því að segjast frekar vilja ræða við hann í einrúmi en á kaffihúsi. Honum virtist niðri fyrir í símanum og í áhyggjutóninum skynjaði Árni gamalkunna einlægni sem yljaði honum. Árni stakk upp á því að þeir hittust fyrst á kaffihúsi en færu síðan á skrifstofu annars hvors þeirra til að ræða prívatmál. Niðurstaðan var tælenskur veitingastaður á Hlemmi, rétt upp úr hádegi á fimmtudegi um miðjan júní.
Árni kom á undan, um tíu mínútum fyrir áætlaðan tíma og rúmlega korteri áður en Daníel birtist á staðnum, fremur ráðvilltur á svip. Árni fékk sér sæti út við glugga. Hann pantaði sér kaffi latte til að fá tilbreytingu frá kaffivélinni hjá vinnuherberginu, en það var svo brennheitt að hann gat ekki snert við bollanum og smakkaði aldrei á því.
Sterkur matarilmur var í loftinu, óviðkunnanlegar og einhvern veginn subbulegur. Staðurinn var þó augljóslega alltaf tandurhreinn, starfsfólkið sífellt með tusku á lofti og í gegnum matarlyktina greindi maður alltaf þefinn af hreingerningarefnum. Þessu blandaðist reykjarsvæla og útkoman var velgjutilfinning sem smám saman hvarf eftir því sem lengur var setið á staðnum.


Svona hefst lokakafli annars hluta. Hann er mikilvægt samtal á kaffihúsi og þarf að taka 3-4 síður. - Lokahlutinn er sem slíkur óvæntur endir en ætti varla að vera nema 5000 orð. - Síðan þarf að skrifa þetta allt upp aftur, strika út og setja meira kjöt á beinin. Ég mæni á München þar sem allt á að gerast.

sunnudagur, nóvember 26, 2006

Ofsóknarbrjálæði er líklega oft blandað óskhyggju og sprottið af einmanaleika. Það sitja nefnilega engir um okkur, öðru nær er öllum sama um okkur og við erum ein. Skrýtinn náungi sem tautar ofsóknaróra fyrir munni sér úti á götu eða hrópar þá jafnvel, oftast er raunin sú að það virðir hann enginn viðlits. Samt telur hann sér trú um að verið sé að brugga honum launráð. En kannski eru slíkir órar bara dagdraumar um athygli sem ekki er til staðar.

Ég held að það sé frekar sjaldgæft að gefnar séu út lélegar bækur hér á landi, a.m.k. af skikkanlegum forlögum, stórum sem smáum. Núna er ég búinn að lesa fjórar nýjar bækur og finnst þær allar góðar. Næst langar mig að lesa Skáldalíf eftir Halldór Guðmundsson og Á eigin vegum eftir Kristínu Steinsdóttur. Einnig mun ég lesa skáldsöguna Brekkuna eftir Carl Frode Tiller, í þýðingu Guttesens.

Á Súfistanum áðan sá ég mann sem mér virtist vera ungskáldið og námsmaðurinn Arngrímur Vídalín en hann þekki ég aðeins af ljósmynd á bloggsíðunni hans. Þegar betur var að gáð reyndist þessi maður vera of gamall, sterkbyggður og hörkulegur til að geta verið skáldið. Auk þess horfði hann ekki vinsamlega á mig, sem gerði útslagið. Samt eru þessir tveir menn í einhverjum skilningi alveg eins. Ég er hrifinn af gamla góða tvífaraminninu þó að einhverjum gæti þótt það útslitið.