fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Svo lengi sem það er hægri meirihluti

Þá er að spilling og klækjastjórnmál sem ber að mótmæla með uppákomum og uppþoti í ráðhúsinu.

Ef meirihluti er sprengdur upp til að mynda vinstri meirihluti þá eru hins vegar engir klækir á ferð.

Það er einstaklega óheppilegt og engum til sóma hve oft hefur verið skipt um meirihluta í borginni á þessu kjörtímabili. Þessi meirihluti er hins vegar álitlegur og mun sitja til enda kjörtímabilsins. Mótmælaleikur hjá vinstri ungliðum breytir þar engu um.

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

www.newyorker.com/fiction

Eitthvað gaf ég í skyn um helgina að netnotkun mín væri farin að draga úr bóklestri. Einn skemmtilegur partur af þessu er ofangreint vefsvæði. Þarna fæ ég splunkunýjar smásögur eftir uppáhaldshöfundana mína, t.d. Richard Ford, Tobias Wolff og Alice Munro. Þannig að
eyðieyjuspurningunni sígildu myndi ég ekki svara með bókakassa heldur fartölvu, svo framarlega sem það er þráðlaust net á eyðieyjunni.

sunnudagur, ágúst 17, 2008

Er ennþá 1960 hjá einhverjum? Eða 1950?

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/08/16/er_i_lagi_ad_refsa_bornum_likamlega/

Flengingar tilheyra horfnum tíma. Líkamlegar refsingar á börnum eru ekki líðandi. Þær eru einfaldlega heimilisofbeldi. Ef lög um þetta eru óskýr verður að breyta þeim.

Netmenni

Þegar ég var í Munaðarnesi hugsaði ég stundum með mér um hvað ég ætti að blogga þegar ég kæmi til baka. Ég setti meira að segja saman nokkra pistla í kollinum. Sem ég nennti síðan engan veginn að skrifa. Svo var ég að spá í hvað þetta væri undarlegur vani, bloggið. Og þá fór ég af einhverjum ástæðum að hugsa til þess þegar ég var í Mannheim í ársbyrjun 2005 og skrifaði dagbók til að birta á blogginu eftir að ég kæmi heim, því ég var svo sjaldan nettengdur í Mannheim. Það eru meira en þrjú og hálft ár síðan þetta var en samt var bloggið þá þegar orðið rótgróinn vani. Og er nú sjálfsagður og eðlilegur vani fyrir stóran hluta almennings.


Ég hef staðið í ýmsu stússi heima sem tengist frægum sófasettsfærslum. Í gær settum við upp nýjar bókahillur í vinnuherberginu (sem ég hef varla skrifað í síðan 2006, en Freyja situr þar öllum stundum á msn-spjalli). Ég þurfti því að umstafla öllum bókakostinum og rakst á ýmislegt sem vakti upp minningar um síðastliðin ár og jafnframt tilhugsun um breyttan lífsstíl. Í einhverju blaði um helgina segist Guðrún Eva Mínervudóttir lesa um 10 bækur á mánuði. Ég les í mesta lagi 3 bækur á mánuði, líklega færri. Vel má hins vegar vera að ég hafi einu sinni lesið tíu. En þegar ég var búinn með tiltektina í nótt fór ég með tölvuna upp í rúm en ekki bók. Las pistlaþras en ekki smásögu eða skáldsögu. Er þetta til góðs eða ills eða hvorugs?