föstudagur, febrúar 10, 2006

Blaðið heldur áfram að borga nánast samstundis og ég er því kominn aftur með vasapening. Þarf ekki að sníkja úr gullhrúgunni hennar Erlu á næstu dögum. Hún er annars stödd á Selfossi á stefnumótunarfundi og kemur ekki fyrr en um miðnætti. Freyja fer að horfa á Idol í kvöld en ég hugsa að ég og Kjartan leggjumst í FIFA 06. Um helgina er afmæli, partí og aukavinna. Einhvern veginn verð ég að troða skriftum inn í þann pakka.

Og talandi um Blaðið: ég er kominn af stað með nýjan pistil og get klárað hann hvenær sem er.

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Í hádeginu í dag skoraði ósýnileg lífvera mig á hólm. Sem ég gekk eftir Bergstaðastrætinu féll skyndilega leðurhanski niður á gangstéttina fyrir framan mig. Ég sá hanskann falla en hvernig sem ég litaðist um gat ekki greint nein ummerki þess hvernig þetta hefði getað borið að.

Samkvæmt forsíðu DV hefur blaðið nákvæmlega ekkert breyst og líklega sjaldan sokkið dýpra en í dag. Spurningunni er því enn alveg ósvarað hvað á að gera við blaðið. Vilja 365 virkilega gefa þetta út áfram? Vill Þorsteinn Pálsson svona kollega handan við þilið?

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Ég braut lykilinn í lásnum á hjólinu mínu í fyrradag. Það stóð því fast við rennuna hér í portinu við Íslensku auglýsingastofuna, þar sem ég hafði læst því. Í gær var lásinn hins vegar klipptur í sundur og ég færði hjólið inn í hús.

Ég er að verða hálfblankur eins og einu sinni í sumar, á þennan afstæða hátt minn.

Ég veit ekkert, nákvæmlega ekkert, hvað ég á að skrifa í Blaðið næst. Drukknir menn hafa verið að hringja í mig, hrósa mér fyrir greinarnar og skipa mér í gleðskapinn til sín.

Skopmyndamálið er dæmigert fyrir ófyrirsjáanleika tilverunnar þar sem atburðirnir eru þó alltaf svo rökréttir svona eftir á að hyggja.

Afleitt ef Viggó heldur ekki áfram með landsliðið. Hann er að byggja upp hörkulið sem á mikla möguleika. Mér líst ekkert sérstaklega vel á Geir Sveinsson sem arftaka hans.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

"Hvað myndi John Wayne segja um Brokeback Mountain?"
Þórir Brjánn

mánudagur, febrúar 06, 2006

Ég fór á Humarhúsið í gærkvöld með Erlu og fjölskyldu hennar. Þetta er frábær staður. Á meðan ég borðaði hafði ég útsýni yfir í portið bak við MR þar sem ég eyddi frímínútum í fimm vetur.

Í ljós kom að bróðir Erlu ætlar á Zappa-tónleikana í sumar. Erla getur ekki hugsað sér að fara, því þó að hún hafi gaman af sumum Zappa-lögum óttast hún öll gítarsólóin enda menn á borð við Stevie Vai með í för.

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Ég rakst á nýjustu bókina mína, Tvisvar á ævinni, á útsöluborði í Máli og menningu, Laugavegi, á tæplega 1.500 krónur. Þetta er gott tækifæri fyrir forvitna blogg- og Blaðspistlalesendur að kynnast meistaranum í sínu allra besta formi, smásagnaforminu.

Ég fór á Belgísku Kongó í gærkvöld og segi: Þó að þú farir aldrei í leikhús, sjáðu þessa sýningu. Það var aldrei dauður punktur og þegar sýningunni lauk, eftir eina og hálfa klukkustund, fannst mér vera sirka korter búið.

Eftir sýninguna heilsaði Hildur L. upp á mig og ég stenst ekki mátið að hrósa henni fyrir frábæra hárgreiðslu. Hún leit afskaplega vel út, í rauðum kjól. En það er auðvelt að líta vel út á þessum aldri.

Við skruppum á Olíver á eftir, 6 mann hópur. Það er gríðarlega vinsæll staður, allt orðið fullt fyrir miðnætti. En þegar ég fer út með strákunum sæki ég frekar í Ölstofuna.