Bindindi II
Fyrst ég hitaði upp með auðveldu bindindi í gær er best að nota þessa síðu til að hjálpa mér við það allra erfiðasta: ofátið. Í dag er 1. maí. Þann 11. júlí förum við til Krítar. Þó að ég hafi engan áhuga á því lengur að vera mjög grannur vil ég helst vera þannig í laginu að mér verði ekki vísað frá baðströndum og sundlaugargörðum þegar jakkafötin hylja ekkert lengur og viðkvæmar sálir flýja öskrandi í burtu ef ekki tekst að fyrirbyggja slysið. Í dag hefst bindindi á hraðvirk kolvetni og stendur fram að ferðinni. Ég veit síðan ekkert hvað tekur við á Krít í þessum efnum, en ef vel tekst til verður a.m.k. til einhver grunnur að standa á í bili.
Hraðvirk kolvetni. Það versta er hvíti sykurinn. Ef ég borða hann í e-u áþreifanlegu magni þá á ég enga möguleika á að stjórna mataræðinu, sérstaklega ekki meðan ég viðheld þeim sið að skrifa (eða reyna að skrifa) fram eftir nóttu.
Hin harðvirku kolvetnin eru mörg hver líka ávanabindandi þó að þau séu ekki alveg eins slæm. Ég ætla því ekki að snerta brauð, pasta og þess háttar þennan tíma. Kolvetni ætla ég að innbyrða í formi ávaxta og grænmetis og mjólkurvara að einhverju leyti.
Ég borða áfram mikið en minna. Ein meginregla: eftir kvöldmat má ég bara borða einu sinni (ath. að ég fer stundum ekki að sofa fyrr en um þrjúleytið) og það verður að vera túnfiskur, harðfiskur, soðinn fiskur eða kjúklingur.- Ég má drekka viskí eða koníak, tvö glös að kvöldi. Ekki bjór.
Ég á síðan að skokka fjórum sinnum í viku: 5 - 10 km: sunnudaga, þriðjudaga, fimmtudaga og laugardaga.
Í nótt át ég kókosbollur. (Sjúki viðbjóður). Í morgun var ég 113 kg. (Ég miða við gömlu vigtina heima, eflaust er ég 115 á alvöru vigt, en við höldum okkur við þessa). Þegar við förum til Krítar ætla ég að vera 105 kg. Það er ágætis þyngd fyrir mig svona yfirleitt, að því gefnu að ég sé í einhverju trimmi. - Ég er 1,90 á hæð, guðisél0f.
Jæja, þetta er byrjað. Þið hjálpið mér. Hvort sem er með skítakommentum eða stuðningsyfirlýsingum. Ég veit að þetta er plebbalegt en mér er alveg sama. Það er sama hvaðan gott kemur.