laugardagur, apríl 30, 2005

Bindindi II

Fyrst ég hitaði upp með auðveldu bindindi í gær er best að nota þessa síðu til að hjálpa mér við það allra erfiðasta: ofátið. Í dag er 1. maí. Þann 11. júlí förum við til Krítar. Þó að ég hafi engan áhuga á því lengur að vera mjög grannur vil ég helst vera þannig í laginu að mér verði ekki vísað frá baðströndum og sundlaugargörðum þegar jakkafötin hylja ekkert lengur og viðkvæmar sálir flýja öskrandi í burtu ef ekki tekst að fyrirbyggja slysið. Í dag hefst bindindi á hraðvirk kolvetni og stendur fram að ferðinni. Ég veit síðan ekkert hvað tekur við á Krít í þessum efnum, en ef vel tekst til verður a.m.k. til einhver grunnur að standa á í bili.

Hraðvirk kolvetni. Það versta er hvíti sykurinn. Ef ég borða hann í e-u áþreifanlegu magni þá á ég enga möguleika á að stjórna mataræðinu, sérstaklega ekki meðan ég viðheld þeim sið að skrifa (eða reyna að skrifa) fram eftir nóttu.

Hin harðvirku kolvetnin eru mörg hver líka ávanabindandi þó að þau séu ekki alveg eins slæm. Ég ætla því ekki að snerta brauð, pasta og þess háttar þennan tíma. Kolvetni ætla ég að innbyrða í formi ávaxta og grænmetis og mjólkurvara að einhverju leyti.

Ég borða áfram mikið en minna. Ein meginregla: eftir kvöldmat má ég bara borða einu sinni (ath. að ég fer stundum ekki að sofa fyrr en um þrjúleytið) og það verður að vera túnfiskur, harðfiskur, soðinn fiskur eða kjúklingur.- Ég má drekka viskí eða koníak, tvö glös að kvöldi. Ekki bjór.

Ég á síðan að skokka fjórum sinnum í viku: 5 - 10 km: sunnudaga, þriðjudaga, fimmtudaga og laugardaga.

Í nótt át ég kókosbollur. (Sjúki viðbjóður). Í morgun var ég 113 kg. (Ég miða við gömlu vigtina heima, eflaust er ég 115 á alvöru vigt, en við höldum okkur við þessa). Þegar við förum til Krítar ætla ég að vera 105 kg. Það er ágætis þyngd fyrir mig svona yfirleitt, að því gefnu að ég sé í einhverju trimmi. - Ég er 1,90 á hæð, guðisél0f.

Jæja, þetta er byrjað. Þið hjálpið mér. Hvort sem er með skítakommentum eða stuðningsyfirlýsingum. Ég veit að þetta er plebbalegt en mér er alveg sama. Það er sama hvaðan gott kemur.

föstudagur, apríl 29, 2005

Bindindi

Það er kominn tími til að hætta ákveðinni gerð af skotum. Þetta orðið ágætt. Mig minnir að þetta hafi byrjað síðla síðasta sumars með einhverju hattatali. Svo hefur þetta undið upp á sig og mest kveður að því eftir of marga kaffibolla. Nú er þetta úr sögunni. Mér er auðvitað sama hvað aðrir gera.

Svo er um að gera að velja sér auðveld bindindi til að sanna staðfestuna. Ekki vil ég hætta í kaffinu.

Nærfataskúffa

Ég ætlaði að setja skyrtuna í óhreina tauið í gærkvöld af því ég hafði verið í henni í þrjá daga. Þetta er sú eina sem er ekki straufrí og þar sem mér leiðist að strauja reyni ég alltaf að nýta hana vel. En skyrtan var lyktarlaus. Ég lét Erlu þefa af henni líka og hún fann ekkert. Það var eins og skyrtan væri að koma úr þvotti.

Er ég dauður?

Stundum er talað um að skáldskapur sé galdur. Stundum er hægt að kveikja iðandi líf með örfáum fábrotnum setningum. Það er mest gaman að lesa svoleiðis texta. Galdur? Ég veit það ekki. Kannski bara einhvers konar sannleikur.

En pennar sem rembast, þeir rembast bara og maður sér ekkert annað en þá sjálfa þegar maður les textann þeirra. En rembingurinn nýtur hylli um þessar myndir.

Hvað hefðu sumir fyrir vestan þurft mörg orð til að koma ofangreindu frá sér? Og svo eru þeir farnir að ráðast á Birgi Svan Símonarson. Hvers vegna í ósköpunum?

Haldið var upp á 25 ára starfsafmæli í bransanum eins eiganda stofunnar áðan, með smurbrauði og kampavíni. Það telst afrek af lifa af 25 ár í þessum bransa. Margir félagar hans frá liðinni tíð eru einyrkjar sem hafa farið á hausinn þrisvar sinnum. (Hvernig átti ég að skrifa síðustu setninguna? Hvernig skrifar maður "að fara á hausinn" að hætti EÖN? Pez, þú ert góður í skopstælingunum. Komdu með dæmi í kommentakerfinu.)

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Það er eitt þægilegt við að skrifa skáldsögu versus smásögur: Þegar illa gengur getur maður selt sjálfum sér það að maður þurfi að lesa sér til. Og það sem meira er: maður er ekki að ljúga. Það þarf stundum að lesa sér til. Ég var að prenta út skýrslu. Enginn prentar út heila skýrslu út af einni smásögu. Rannsóknarvinna getur líka gert meira en að tékka af staðreyndirnar og afla efnis: rétt eins og önnur aðföng getur hún kveikt hugmyndir.

Háskóla?

Ég horfði á gamlan Staupasteinsþátt í nótt. Mikið hafa þeir elst vel, þeir batna með árunum, ef eitthvað.

http://www.valgerdur.is/index.php?frett_id=398&cat=pistlar Valgerður Sverrisdóttir er búin að rifja upp fyrir okkur, frá sínu sjónarhorni, hvernig sala ríkisbankanna gekk fyrir sig. Þeir sem hafa gagnrýnt söluna harðast hafa sagt að þeir "hafi á tilfinningunni" að bankarnir hafi verið "gefnir", að flokksgæðingum hafi verið hyglað. Ég vil í hlutleysi mínu sjá bitastæðari gagnrýni á ferilinn, ekki síst með hliðsjón af grein Valgerðar.

Já, Íslandsmótið í fótbolta er að byrja rétt einu sinni enn. Mér fannst eins og það væri búið að leggja það niður. Það er einhvern veginn eins og tveir vetur hafi liðið frá síðasta móti en ekki einn. Mér finnst svo langt síðan ég sat síðast á KR-vellinum (og öskraði á boltastráka). Ástæðan er líklega sú að það gekk illa síðasta sumar og því hefur maður ekki yljað sér við neinar boltaminningar í vetur.

Ég fór annars með Kjartan með mér á Gaukinn í gær að horfa á Chelsea - Liverpool. Dálítil vonbrigði að fá ekki mark en hann skemmti sér samt vel í Liverpool-treyjunni, hafði aldrei áður séð fótbolta á svona stóru tjaldi eða jafnmörgum skjám.

Það eru mörg spurningamerki fyrir mótið í sumar. Fer KR aftur á toppinn? Ver FH titilinn? Fellur Skaginn? Getur Keflavík eitthvað með Guðjón Þórðar sem þjálfara? Koma pressulausir Fylkismenn á óvart. Fellur Fram loksins?

http://www.blog.central.is/amen/?page=comments&id=555716 Þetta eru málsbætur mínar. Þetta er afsökun mín fyrir því að vera að skipta mér af fólki sem mér kemur ekki við og skipta mér af ljóðum sem mér kemur ekki við. Ég er einfaldlega svag fyrir því sem er frumlegt og fyndið. Ég er að meina þetta komment hennar um gúrkubitana úr pítunni. Setningin sjálf og samhengið. Það er verið að tala um bókmenntaþýðingar. Og hún skýtur þessu inn þarna. Svona frumleiki, svona spontanítet, mitt í allri þeirri klisjusúpu sem daglegt líf er, það er það sem hefur hrifið mig við þennan bloggara. Og ég hef verið að rekast á svona snilldarmola eftir hana aftur og aftur á bloggsíðunni hennar.

En mál er að linni. Afsakið og bless.

miðvikudagur, apríl 27, 2005

www.islenska.is Heimasíðan okkar er örugglega með þeim betri og tengir sig við atburði líðandi stundar.

Háskóla

Ég hlusta þessa dagana á Fin de Siecle með Divine Comedy og Who´s Next sem mér kæmi ekki á óvart að væri besta plata The Who. Fyrsta lagið, Baba O' Riley (Teenage Wasteland) heyrist í annarri Shrek-myndinni og þaðan þekkir Kjartan það. Þess vegna segir hann þegar ég set þetta í spilarann: Þú ert bara að hlusta á barnatónlist. Allt um það er þetta svakalega skemmtileg rokkplata. Upphaflega átti hún að vera hluti af einhverju stóru prjójekti sem Pete Townshend gekk með í maganum árum saman og kallaðist Lifehouse. Það átti að samanstanda af margfalt fleiri lögum en þarna er að finna, tónleikaröð og science-fiction kvikmynd. Félagar hans (hljómsveitarmeðlimir, kvikmyndagerðarmenn, umbar og pródúcentar) vissu ekkert um hvað hann var að tala því þeir voru uppteknir af fyrirætlunum um að koma Tommy á Hvíta tjaldið (nokkuð sem varð ekki að veruleika fyrr en nokkrum árum síðar). Skilja má á Townshend að honum þyki platan ansi sundurlaus enda er hún brot af einhverju miklu stærra sem hann hafði í kollinum. Má lesa þetta úr kynningartexta frá honum sem fylgir endurútgáfu plötunnar á cd árið 1995. Flestum öðrum finnst platan frábær.

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Sönn kímnisaga

Í hádeginu á föstudaginn mætti ég Páli Þorsteinssyni (þekktur útvarpsmaður á 9. áratugnum) í Þingholtunum með heyrnartæki í eyrum og iPod í hendi. Aðspurður sagðist hann vera að hlusta á Led Zeppelin til að hita sig upp fyrir Robert Plant tónleikana. Hann kvaddi mig í sæluvímu nostalgíunnar en þá rifjaðist upp fyrir mér gömul og vandræðaleg missýn sem henti mig fyrir nokkrum árum. Þannig er að við Páll Þorsteinsson unnum beint og óbeint saman hér áður fyrr, þ.e. störf okkar tengdust á ýmsan hátt og kölluðu á samskipti. Um tíma átti það samstarf sér stað á gamla DV-svæðinu. Líklega var það snemma árs 2001 sem ég átti eitthvað vantalað við hann en hafði ekki hitt á hann lengi. Ég stóð fyrir utan Mál og menningu á Laugaveginum þegar hann ók framhjá mér á jeppa og kallaði eitthvað út um gluggann. Ég hljóp að jeppanum og sagði eitthvað á þessa leið: "Ég er búinn að vera að hugsa svo mikið til þín, má ég ekki koma upp í bílinn." Hann opnaði fyrir mér. Þegar ég var sestur í farþegasætið rann upp fyrir mér að þetta var ekki Páll Þorsteinsson heldur Halldór Guðmundsson þáverandi forstjóri Eddu. Hinn eini sanni. Þetta var ákaflega vandræðalegt. Við vorum að vísu málkunnugir en ekki meira svo að byði upp á meira en eitt kurteisisvink úti á götu. Og nú sat ég í forstjórajeppanum hans erindislaus. - Þannig var að ég keypti mér fyrst gleraugu síðla árs 2002 en hafði verið nærsýnn í mörg ár á undan. Alltaf trassaði ég gleraugnakaupin og í þetta skipti kom trassaskapurinn mér í koll. Mér tókst að útskýra missýnina fyrir Halldóri sem gerði gott úr þessu og ók með mig nokkra hringi um Mál og menningarhúsið á meðan við töluðum um ástandið í bókaútgáfunni. - Það sem hann hafði kallað á mig út um gluggann var eitthvert hrós eða þakkir fyrir grein sem ég hafði stuttu áður birt um Kjell Askildsen á visir.is - þar sem ég starfaði um þetta leyti.

http://www.blog.central.is/Rassabora?page=comments&id=559779 Sorglegt að geta ekki bjargað hæfileikafólki frá tilgerðinni sem traktorinn útbreiðir. - En hver sér um sig.

Erla kom heim frá Færeyjum í gær. Hún lærði dálitla færeysku. Hvað haldið þið að þessi áletrun þýði: Bert viðskiptafólk.

Hún þýðir: Aðeins fyrir viðskiptavini.

Ef ég væri mjög ófrumlegur myndi ég skrifa að það væri vor í lofti. Ég myndi tala um veðrið. En þess í stað þegi ég og nýt árstíðaskiptanna. Í kvöld skokka ég á stígnum.

mánudagur, apríl 25, 2005

Getur verið að það skipti máli hver er laminn? Að sá sem kýlir prófessor við Háskóla Íslands sé talinn hættulegur og því látinn dúsa í gæsluvarðhaldi, t.d. af því hann gæti slegið til fleiri broddborgara, en að þeir sem misþyrma unglingum og óþekktu fólki megi ganga lausir? Getur verið að stéttaskipting sé innbyggð í gæsluvarðhaldsúrskurði? Þessi spurning vaknar við lestur DV í dag. - Þar má einnig sjá að Einar Ingvi Magnússon hefur séð sig knúinn til að skrifa lesendabréf í blaðið til að lýsa því yfir að hann sé ekki hommi.

Það er slagsíða í speglun minni í göngutúr Egils Helga: Ég hafði ekki farið upp á Hlemm lengi og ennþá lengra síðan ég fór upp í Holtið. En í gærkvöld steig ég úr strætó með krökkunum uppi á Hlemmi (Erla í Færeyjum) og við löbbuðum upp á Ruby Tuesday þar sem ég gaf þeim að borða. Hlemmsvæðið er allt sundurgrafið vegna framkvæmda, sem er í sjálfu sér ekki ámælisvert, en dregur verulega úr sjarmanum. Sjokkið fékk ég síðan hjá Klink og Bank uppi í Brautarholti og Þverholti. Veggjakrot, sorp og annar sóðaskapur gjörsamlega yfirgengilegur svo meira að segja mér blöskrar. Engin furða þó að Egill hafi orðið miður sín enda er hann miklu meiri fagurkeri en ég.