mánudagur, maí 31, 2004

Við förum heim á morgun. Ég hlakka til að takast á við hversdagsleikanna á ný, ferskur og endurnærður eftir alla tilbreytinguna hér. Verst að útgáfumálin eru ekki komin á hreint, það væri skítt að standa uppi útgefandalaus. Á öðrum degi dvalar okkar í San Diego fórum við í dýragarðinn í borginni. Þegar við vorum búin að skoða hvert einasta búr vorum bæði ég og krakkarnir orðin ansi þreytt. Undir lokun garðsins skruppum við yfir í Balboa Park, sem er afar fallegur almenningsgarður í borginni. Rétt við akveginn rak ég augun í íkorna og sagði Freyju frá. Stuttu síðar var allt orðið krökkt af íkornum þarna og Freyja fóðraði þá á flögum og kexi. Dýrin í dýragarðinum höfðu verið ansi letileg og lítt haft sig í frammi. Íkornarnir voru miklu raunverulegri. Skammt frá íkornunum var bekkur með slitinni og klístraðri biblíu. Í ruslafötu við bekkinn voru handklæði og föt. Þetta minnti mig á senu í glæpamynd og ég átti hálft í hvoru von á að finna lík á milli trjánna.
Stuttu síðar fórum við til San Francisco. Það var löng, erfið en skemmtileg lestarferð. Krakkarnir höfðu aldrei farið í lest áður. Í San Francisco ræður leikhús götunnar ríkjum og betlarar eru aðalleikararnir. Ég veit ekki hversu fátækir þeir eru. Svöl hafgolan var viðbrigði eftir hitann í San Diego og minnti helst á Reykjavík. Götulífið við höfnina, í Fisherman´s Wharf, var afskaplega skemmtilegt og þar réð lífsgleðin ríkjum. Einn götuleikarinn þar faldi sig bak við runna sem hann hélt í útréttri hendi. Þegar vegfarendur áttu leið hjá stökk runninn á þá með hvæsi og skaut þeim skelk í bringu. Þetta vakti mikla kátínu viðstaddra sem lögðu sitt af mörkum í betlihatt mannsins. - Við fórum í siglingu til klettaeyjarinnar sem hýsir Alcatraz, en fyrir löngu er búið að breyta því fræga fangelsi í safn. Með hljóðritun í eyrunum lifnaði sagan við á göngu okkar um fangelsið, inn í fangaklefa, matsal e.t.c.
Skömmu eftir að við komum aftur til San Diego var haldið í langa ferð með gestgjöfum okkar um eyðimerkur Nevada og Arizona. Gist var eina nótt í Las Vegas. Sú borg uppfyllir allar óskir þeirra sem ekki hafa sérviskulega þörf fyrir andríki og raunveruleika. Ljósadýrðin eftir að skyggja tekur er með ólíkindum. Það eina sem gæti höfðað til minna hvata á þessum stað er kynlífsiðnaðurinn en sem fjölskyldumaður gerði ég ekki svo mikið sem að leiða að honum hugann. Skömmu eftir ferð okkar til Las Vegas lærði ég af sjónvarpþætti að töluvert væri um glæpi í borginni og Nevadaeyðimörkin væri hálfgerður kirkjugarður enda eru morðingjar gjarnir á að losa sig við líkin þar.
Við skoðuðum Gljúfrið mikla, Grand Canyon. Hvernig á ég að lýsa mikilfenglegu fjallalandslagi í bloggi? Sleppi því. Heillandi var smábærinn Jerome, sem er blanda af draugabæ og ferðamiðstöð. Nokkuð um túrisma og söfn en líka yfirgefin og hálfhrunin hús. Jerome var áður fyrr blómlegur námabær en breyttist í draugabæ eftir að námunum var lokað árið 1953. Ég fór með krökkunum að yfirgefnum húsum í hæðunum. Þau voru umkringd afskaplega miklum villigróðri og ég þorði ekki að fara inn, aðallega af ótta við lífið sem gæti leynst í háu grasinu.
Ég er búinn að kaupa mikið af bókum í ferðinni og lesa töluvert. Meira um það síðar.

Loksins fékk ég íslenskt lyklaborð. Hef ekki bloggað allan tímann í Bandaríkjunum þó að ég hafi haft aðgang að tölvu mest allan tímann. Ég kem heim þann 2. júní. Ferðin hefur verið mikið ævintýri enda höfum við farið víða. Við höfum haldið til hjá vinafólki í Encinitas, sem er útbær frá San Diego. Við fórum í fjögurra daga ferð til San Francisco og jafnlanga ferð um Las Vegas og Arizona þar sem við m.a. gistum rétt hjá Grand Canyon. Síðast en ekki síst skruppum við til Mexíkó í gær og kynntumst þeim sirkust sem götulífið er þar með ágengum sölumönnum og betlandi en feitlögnum börnum. Ég hef ekki skrifað staf í ferðinni og ekkert lesið á íslensku. Þess vegna er frásögnin svona andlaus.