Það þarf meiri einbeitingu í skáldskap en nokkur önnur verkefni sem ég fæst við og þau eru býsna margþætt þessa dagana.
Ég er að reyna að skrifa á 5. hæð Borgarbókasafnsins. Þegar ég var krakki átti fólk alltaf að hafa hljótt á bókasöfnum, helst steinþegja. Sú hefð virðist hafa dáið út þegar annars frábært Borgarbókasafn flutti í fyrirmyndaraðstöðu sína við Tryggvagötu.
Hvert borð er hér skipað og sum tvískipuð. Þetta eru mestanpart námsmenn og fæstir samkjafta. Hér standa yfir stanslausar samræður borðnauta sem ekki er nokkur leið að einbeita sér fyrir. Það er ekki hægt að kvarta við einn því það eru næstum allir nema ég blaðrandi hérna.
Ég gæti að vísu kvartað við bókavörðinn en hún er að leiðbeina einhverjum lánþega og talar sjálf hástöfum, miklu hærra en námsmennirnir.
Eins og gefur augaleið er ég miklu síður viðkvæmur fyrir hávaða á kaffihúsum þegar ég fæst við skriftir. Svo ég gæti farið á kaffihús og haldið áfram. En þar eru oft smákrakkar sem hlaupa um skrækjandi, standa (á meðan þau hlaupa) á öskrinu. Sérstaklega á sunnudögum.
Er eitthvað meira hrífandi en geðvondur, miðaldra karl? Not.