föstudagur, desember 03, 2004

Um helgina birti Sigurjón M. Egilsson drepfyndna nútíma þjóðsögu um Carl J. Eiríksson í Fréttablaðinu. Carl sem er afreksmaður í skotfimi var stöðugt í fréttum vegna kærumála sinna fyrir um tíu árum. Allir sem lesa söguna átta sig á því að hún er færð í stílinn en rímar vel við þann karakter sem fréttir af Carli endurspegluðu á sínum tíma. Carl leiðréttir frásögnina í Fréttablaðinu í dag og segir eitthvað á þessa leið: Þjóðsögur geta verið ágætar ef þær eru sannar. - Ég spyr: Síðan hvenær eru þjóðsögur sannar?

Flensudómurinn birtist í dag og ekki get ég kvartað yfir honum. Þetta eru hófstillt skrif gagnrýnanda sem líkar ekki bókin en verður að kannast við að hún sé vel samin. En hvaða neyðaróp eru þetta í hverri setningu: ó. Þið tékkið á því.

fimmtudagur, desember 02, 2004

Úlfhildur Dagsdóttir skrifar fínan ritdóm á bokmenntir.is um frumlega og skemmtilega ljóðabók Baldurs Óskarssonar, Ekki láir við stein (útg. Ormstunga), en ég er einmitt að lesa þessa bók núna mér til mikillar ánægju. Fyrir tveimur árum gerði hún sér lítið fyrir og fjallaði á vandaðan hátt um síðustu bók Baldurs í sjónvarpsdómi og rauf þar skemmtilega hefð síðustu ára fyrir því hvaða bækur á að ritdæma í sjónvarpi: Skáldsögur og ævisögur eftir höfunda stóru forlaganna. Það er gaman þegar gagnrýnandi í áberandi hlutverki sjónvarpsgagnrýnandans hefur sjálfstæðar skoðanir á því hvað er bitastætt eða öllu heldur þegar sjálfstæðar skoðanir gagnrýnandans eru ekki algjörlega í samræmi við sölulista. Reyndar rauk bók Baldurs upp ljóðabókalistann eftir sjónvarpsdóminn í hittifyrra, þó að eflaust hafi sú sala ekki farið í mörg hundruð.

Rakst á undarlega smáfrétt á ruv.is. Þar er því haldið fram að hljómsveitin The Who sé ekki hætt, fréttir um slíkt bornar til baka. Ég hélt að The Who hefði hætt fyrir árum og áratugum. Ég meina, hvenær kom síðast ný plata frá þeim, hver eru Who-lög seinni ára? - Verður maður næst fræddur um það að Bítlarnir séu ekki hættir? Getur einhver skýrt þetta út fyrir mér?

Á VHS-spólan eftir að vekja nostalgískar tilfinningar á borð við vinylplötuna?

Hefði Laxness sjálfur vilja standa í því að lögsækja Hannes Hólmstein fyrir meintan ritstuld? Ég skal ekkert um það fullyrða. Hvað segið þið um það?

miðvikudagur, desember 01, 2004

Besti titillinn í jólaplötuflóðinu hlýtur að vera hjá Brimkló: Smásögur. - Hvaða smekklegi aðili fann upp á þessu? Afbragð.

Annað árið í röð fæ ég boðskort frá Nýju lífi um að vera viðstaddur athöfn þar sem kona ársins verður valin. Ég er ekki áskrifandi að blaðinu og ég er ekki frumsýningartýpan en býst við að þetta stafi af því ég hef átt smásögur í smásagnahefti blaðsins sem gefið er út á sumrin. Varla mæti ég, þetta hefst kl. 17 í dag og ég þá enn í vinnunni. En hver skyldi verða valin? Verður það ekki Steinunn Valdís Óskarsdóttir fyrir að vera orðin borgarstjóri?

Kroniken og Judging Amy eru tveir býsna góðir sjónvarpþættir sem ég horfi stundum á. Þeir eru betri en margar íslenskar skáldsögur sem ég hef lesið, verri en aðrar. Fyrir nokkrum vikum sá ég aðalpersónuna úr Judging Amy hætta við eigið brúðkaup á síðustu stundu. Í gærkvöld flúði síðan stúlka úr brúðkaupi sínu í Krónikunni. Og samt eru þetta frekar trúverðugir þættir. Hefðin í sjónvarpi og kvikmyndum er sú að brúðkaup fari oftar en ekki úrskeiðis. Í raunveruleikanum giftir sig fólk sem hefur búið saman árum saman áður og eignast börn. Í brúðkaupum gerist ekkert nema það að fólk giftir sig og allir eiga góðan og notalegan dag í brúðkaupsveislunni. Sumum finnst að frávikin séu það frásagnaverða og þess vegna geti sögur ekki verið áhugaverðar ef þær fjalla um það sem er venjulegt. Ég man ekki eftir brúðkaupunum í Sópranosþáttunum en geri ráð fyrir að þau gangi sinn vanagang, snuðrulaust, rétt eins og önnur fjölskyldumót þáttanna sem eru engu að síður notuð til að afhjúpa samskiptamynstrið í fjölskyldunni auk þess sem skúrkarnir ráða ráðum sínum með hvíslingum.

Er kristið trúarofstæki skárra en annað trúarofstæki?
Eru bandarískar pyntingar skárri en aðrar pyntingar?
Er þetta vefritið Múrinn? Nei. En ég les blöð og fylgist með fréttum. - Hvað þætti mönnum um að helsti hugmyndafræðingur og stuðningsmaður Davíðs Oddssonar hefði ekki verið Hannes Hólmsteinn heldur Gunnar í Krossinum?
Hvernig getur nokkur einasti íslenski frjálshyggjumaður stutt Bush? Hvernig getur frjálshyggjumaður lagt blessun sína yfir trúarofstæki?

þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Ég ætla rétt að vona að DV fari ekki að slá því upp að ÁBS og EÖN séu í stríði. Ég lít bara á þetta sem létt grín. Gæti vel trúað að EÖN sé að gera fína hluti, á eftir að lesa bókina hans. Og ef honum finnst ég eitthvað ófínn pappír og vill hía á mig í fullri alvöru, þá er það allt í lagi, bara hans mál. Þetta sem ég segi hér að neðan um ákveðna ögrunartakta Nyhil-skálda stendur. En það er ekki neitt stríð í þeirri gagnrýni. Raunar veit ég lítið um skáldskap og starfsemi þessa hóps, nokkuð sem ég ætti að bæta úr, en gagnrýnin hér að neðan beinist einfaldlega gegn ýmsu sem ég hef lesið í bloggfærslum EÖN.

Ég lofa að skrifa um eitthvað annað næst.

Svakalega finnst mér gamalkunnugt, fyrirsjáanlegt og gegnsætt þegar 25 ára ungskáld vekja á sér athygli með dónaskap sem "fer í fínustu taugar millistéttarinnar", samkvæmt þeirra eigin hlátursískrandi orðum. - Þeir eru sjálfir millistétt og ekkert annað. Það vantar bara nokkur ár upp á að það mál sé endanlega afgreitt, nokkrar fleiri útgefnar bækur, próflok og starf. Svo verður viðtal við þá í Gísla Marteini eftir tíu ár og þá hlæja þeir yfir gömlum upptökum af performönsum sínum og segja: Já, maður var ungur og vitlaus en það var náttúrulega kraftur í þessu. - Ég kann eiginlega betur við sjálfan mig en ella fyrir það að hafa aldrei talið mér trú um annað en ég væri smáborgari, allt frá unglingsaldri.

mánudagur, nóvember 29, 2004

Ég fékk hræðilega martröð fyrir stuttu. Ég var var að lesa upp þegar dálítill hópur af ungskáldum kom með látum og óhljóðum inn í salinn, híaði á mig og byrjaði að öskra alls konar fúkyrði um líkamsvessa og kynfæri. Ég gerði hlé á lestrinum enda heyrðist ekkert í mér fyrir hávaðanum og bað strákana um að yfirgefa salinn. Þeir sögðu að ég væri hrikalega gamaldags og ófrumlegur að vilja ekki lesa upp í hávaða. Ég ætti sjálfur að öskra "píka" og "typpi" og "brundur" fram í salinn en ekki lesa upp þessar hallærislegu smásögur mínar. Eitt skáldanna var með mjög flottan hatt. Útundan mér sá ég Kristján B. Jónasson glottandi úti í horni, eins og hann hefði sent skrílinn á mig.

Í Mogganum í dag á blaðsíðu 12 er viðtal við Kristján Kristjánsson rithöfund og nú útgefanda á Akranesi. Hann rekur forlagið Uppheima. Kjölfestan í starfseminni eru rit á borð við Árbók Akurnesinga, sagnfræðirit sem væntanlega eru styrkt (Saga Hitaveitu Akraness) og síðan alhliða útgáfuþjónustu. Kristján gefur síðan út bókmenntaverk sem væntanlega seljast lítið, t.d. þýddar ljóðabækur. Hann segist öðrum þræði vera að skapa sér svigrúm sem rithöfundur með útgáfunni enda ljóst að menn ráða sínum vinnutíma sjálfir við þessar aðstæður. Gangi honum vel með þessa útgáfu. - Í viðtalinu kemur jafnframt fram að Kristján hafi síðast gefið út skáldsögu árið 1995, Ár bréfberans, en ritun þeirrar bókar (sem fjallar um dauðann) hafi tekið svo á hann að hann hafi verið tíu mánuði að jafna sig. Það vill svo til að ég var sjálfur með smásagnasafnið Í síðasta sinn þetta ár og las upp með Kristjáni ásamt fleiri höfundum á mjög fjölmennum upplestri á Vopnafirði (Konan mín er þaðan). Mér fannst Kristján frekar þungur í þessari ferð þó að við höfum átt þokkalegt spjall. Ég var hins vegar hinn hressasti eftir ritun minnar bókar eða allt þar til ég fékk að heyra sölutölurnar um vorið. Það tók mig þó bara einhverja klukkutíma að jafna mig á þeim, ekki mánuði.

sunnudagur, nóvember 28, 2004

Skáldsaga Þorsteins Guðmundssonar, Fífl dagsins, er kölluð frumraun í ritdómi um helgina.
Sagan er um 240 blaðsíður. Fyrir tveimur árum gaf Þorsteinn út álíka langt smásagnasafn með nokkrum löngum sögum. Fífl dagsins er þriðja sagnabókin hans. Með hverju árinu sem líður gengur gagnrýnendum verr að skilja að það er enginn grundvallarmunur á smásögum og skáldsögum. Fyrir nokkrum áratugum held ég að þeir hafi gert sér ágætlega grein fyrir því. Smásögur eru ekki ein bókmenntagrein og skáldsögur önnur heldur á skáldsagan sé ótal afbrigði og eitt þeirra er smásagan. Önnur afbrigði eru t.d. glæpasögur og sögulegar skáldsögur, tilraunaskáldsögur þar sem söguþræðinum er gefið á kjaftinn, nóvellur, og framvegis. Höfuðgreinar skáldskaparins eru saga, leikrit og ljóð en ekki skáldsaga, smásaga, leikrit og ljóð. Ef einhver heldur að það sé miklu minna mál að setja saman bók með 5 til 10 þrjátíu síðna sögum en að skrifa eina sögu á bilinu 200-300 síður þá held ég að sá hinn sami fari villur vega. Ef ég gef einhvern tíma út skáldsögu þá ætla ég rétt að vona að sú bók verði ekki kölluð frumraun. Gagnrýnendur sem þannig tala eru eiginlega fífl dagsins.

(Hrifla)
Guðbergur Bergsson:
Lömuðu kennslukonurnar

Máttur sögunnar í myrkviðum lostans


Ungur maður kemur heim frá langskólanámi á Ítalíu. Hans bíður ekkert nema atvinnuleysi í sjálfumglöðu góðæri heimahaganna þar sem langdvalir hans erlendis hafa komið í veg fyrir hagnýt vinasambönd, hann er ekki í klíkunni neins staðar. Þrautalendingin er að leita sér að starfi við heimilishjálp. En jafnvel þar kemur ungi maðurinn lengi vel að lokuðum dyrum uns hann fær hann fær það verkefni að annast um tvær lamaðar tvíburasystur sem báðar eru fyrrverandi kennarar.

Fljótt kemur á daginn að systurnar hafa lítinn áhuga á því að nýta starfskrafta mannsins til þrifnaðar á heimilinu heldur vilja að hann segi sér sögur. Sögurnar eiga að snúast um losta og máttur þeirra á að lækna systurnar af lömuninni. Því mergjaðri sem sögurnar eru, því meiri von um nýjan mátt í visna limi.

Framan af þykir systrunum lítið til um sakleysislegar sögur unga mannsins af hefðbundnum ástarævintýrum. En þegar hann tekjur að rekja eða ýkja samskipti sín við næturvörð og fjölskyldu hans á námsárunum á Ítalíu færist máttur í þær. Sú saga er hlaðin kynferðislegu siðleysi, framhjáhaldi og tvíkynhneigð auk þess að daðra við sadómasókisma.

Í sögunni myndast heillandi samspil losta, sagnamennsku og lífsmáttar. Einhver sagði að listin væri siðlaus og þegar sögumaður systranna er hættur að láta allar viðurkenndar siðareglur hafa áhrif á frásögn sína kemst hann í snertingu við hið dýrslega í mannlegu eðli, við óhaminn lífskraft sem spyr ekki um rétt eða rangt, og sagan verður í senn draumkennd, óhugnanleg og heillandi.

Þessi nýja skáldsaga Guðbergs er allt í senn frumleg, kraftmikil og ögrandi. Hún er listilega uppbyggð þar sem óreiða helst á einhvern undarlegan hátt í hendur við agað form og vandvirkni. Hliðarsagan bólgnar út síðari hlutann en samsvörun hennar er sterk við aðalsöguna sem aftur tekur völdin undir lokin. Þjóðfélagsádeila, háð og vangaveltur um þjóðareðli eru síðan meðlæti með djúpum og magnþrungnum pælingum um mannseðlið, lostann, söguna og lífskraftinn.

Það er makalaust skemmtilegt að lesa svo frumlegt og gott verk eftir höfund á áttræðisaldri sem gefið hefur út ógrynni bóka og hlotið flestar þær vegtyllur sem íslenskum rithöfundi getur hlotnast. Guðbergur virðist ætla að verða ungur og ferskur þar til yfir lýkur.