föstudagur, desember 22, 2006

http://www.visir.is/article/20061222/SKODANIR03/112220015 Góður boðskapur frá formanni Félags bókaútgefenda. Kaupið bækur í dag og á morgun.

Sértu gamall og ljótur þá getirðu samt fengið að serða ungar fegurðardísir - ef þú ert bara nógu óheiðarlegur og lýgur að þeim nógu miklum fjarstæðum.

Segir það eitthvað um kvenkynið?

Á morgun reyni ég að skrifa eitthvað jákvætt og fallegt fyrir jólin. Það er líklega kominn tími til.

http://www.kistan.is/efni.asp?n=5086&f=1&u=14 Þessi ritdómur á Kistunni staðfestir þann grun minn að meitlaður stíll og úrdráttur eigi ekki lengur upp á pallborðið. Sögur eins og Gaddavír krefjast þess að lesandi skynji það sem er undir yfirborðinu. Þessi lesandi kallar á miklar krufningar og hugleiðingar aðalpersónunnar um þá atburði sem hún verður þátttakandi í. Hann heimtar flugeldasýningar og dramatísk uppgjör. En frásagnarmáti og persónusköpun Gaddavírs hæfir fullkomlega þeim heimi sem hún lýsir: lokuðum og kuldalegum Íslendingum í dreifbýli; tilfinningaheft fólk með ljót leyndarmál og bældar ástríður í farteskinu. Nútímalesendur heimta alltaf skrautlegar persónur þó að veruleiki okkar sé sá að litlaust fólk sé orðið reglan fremur en undantekningin. - Litlaust fólk sem hugsar allt sömu hugsanirnar og horfir á sprengjuregn, bardagasenur og melódramatík á skjánum.

Engin furða þó að smásagan sé að verða útdautt bókmenntaform.

Síðan mæli ég sterklega með Gaddavír eftir Sigurjón Magnússon.

fimmtudagur, desember 21, 2006

Samkvæmt lögreglurannsókn var Jón Baldvin ekki hleraður. Heimildarmaður hans ætlaði að stíga fram þegar rétta stundin rynni upp. Honum hefur greinilega ekki þótt lögreglurannsókn vera nægilegt tilefni til að gefa sig fram.

Hvaða skýringar gefur Jón Baldvin á þessu? Hvers vegna skilaði rannsóknin engu? Lagði hann sínar sannanir ekki á borðið? Var ekki tekið mark á þeim?

Mér finnast bóksalaverðlaunin frekar asnaleg. Þau eru einstaklega fyrirsjáanleg, renna til þeirra bóka sem mest eru umtalaðar. Þarna gerist aldrei neitt óvænt. Ég efast ekki um að starfsfólk bókaverslana les mikið en ég á bágt með að trúa að 3ja eða 5 manna setjist niður í miðri jólaösinni og vegi og meti bækur sem allir meðlimir hafa lesið.

Auk þess er þetta hálfvafasamt, bóksalarnir eru segja við almenning: við viljum frekar að þið kaupið þessar bækur en þessar þarna í búðinni okkar. Bóksalar eru að selja vörur í umboði útgefanda. Þeir eiga ekkert með að hampa sumum vörum á kostnað annarra. Að sjálfsögðu er eðlilegt að mikið auglýstum og vinsælum bókum sé stillt fram með áberandi hætti í búðunum en óþarfi er að starfsfólkið sjálft sé að hafa áhrif á það fyrirfram hvaða bækur lenda í þeim flokki.

Ef í heiminum væri bara til bókmenntaáhugafólk sem fylgir straumnum þá myndi aldrei neitt nýtt og óvænt uppgötvast. Sumar þýddar metsölubækur voru áður handrit sem enginn kærði sig um að gefa út, höfundarnir nafnlaus andlit í mannhafinu. Hefðu íslensku bóksalarnir kunnað að meta þessi verk áður en þau rötuðu á markaðstorgið?

miðvikudagur, desember 20, 2006

Mér er boðið í síðbúið útgáfuteiti á föstudaginn. Ég lít á höfundinn sem listrænan jafningja minn en honum hefur hins vegar tekist afbragðsvel það sem mér hefur aldrei tekist: að selja bókina sína.

Síðan bresta jólin á. Ég reyndi síðast að skrifa í fyrrakvöld og voru það fyrstu misheppnuðu skrifin svo vikum eða mánuðum skiptir. Líklega verður þetta erfitt þar til jóladagarnir eru yfirstaðnir. Milli jóla og nýárs ætti að verða góður tími.

Hitti Jón Óskar í hádeginu. Hann er í örstuttu jólafríi frá friðarverkefni sínu á Sri Lanka. Fyrir örstuttu síðan var hann að rabba við þeldökka tamíltígra, núna spjallaði hann við sjálfhverfan en meinlausan rithöfund í Reykjavík. Mér fannst hann vera í ansi góðu formi miðað við álagið á honum og þeytinginn.

Ég vona að ég fái Skáldalíf í jólagjöf (Heyrirðu það, Erla) og les hana þá yfir hátíðirnar ásamt líklega Brekkunni. Rétt bráðum ætti ég að fá nýju Munro-bókina frá Amazon.

http://salvor.blog.is/blog/salvor/ Þessi kona bloggar skynsamlega og af festu um mál málanna undanfarna daga.

Ég skil ekki hvers vegna menn eru sífellt að tala um að Kompás hafi gert mistök í umfjöllun sinni. Ég held að það komi brátt á daginn að þeir hafi hagað málum hárrétt og gert það sem þeir urðu að gera eftir að hafa orðið áskynja um hvað þarna hefur farið fram. M.a.s. Jónas Kristjánsson gagnrýnir vinnubrögð þeirra. Að hans dómi var allt sem DV gerði rétt en hann er á móti vinnubrögðum Kompás. Hann segist ekki kenna svona vinnubrögð í háskólanum. Gott og vel. En ég held að Kompás þurfi ekkert á kúrsinum hans að halda. Í DV gátu menn orðið að forsíðuefni vegna algjörlega tilhæfulausra ásakana. Þannig veigraði blaðið sér ekki við að vega ítrekað að æru körfuboltamanns á Suðurnesjum sem síðan reyndist saklaus. Hjá DV nægðu ásakanir einar og sér til að taka menn af lífi í blaðinu en Kompás viðar að sér ógrynni gagna. Það er ólíku saman að jafna.

Ég trúi Kompási og myndi veðja bæði tíuþúsund og þrjúþúsundkalli upp á að sannleikurinn sé þeirra megin. En þar sem málssóknir eru í aðsigi munu sönnunargögnin verða lögð á borðið og þar til er vitaskuld ekki hægt að fullyrða neitt með óyggjandi vissu.

Guðmundur komst vel frá Kastljósinu en gögnin gegn honum eru svo yfirþyrmandi að málflutningurinn verður lygilegur. Hann kann greinilega að koma fyrir sig orði við erfiðar aðstæður. Honum hefur enda tekist að tryggja Byrginu milljónastyrk frá hinu opinbera í fimm ár eftir að svört skýrsla um fjármál þess var lögð fram.

mánudagur, desember 18, 2006

Ég hélt að fólki þætti danska ekki vera sexý mál. Að franska ætti betur við í svona tilfellum. Danir eru að vísu brautryðjendur í klámi og því kannski við hæfi að tungumáli þeirra sé sýndur slíkur sómi á þessu þróunarskeiði klámsins. Myndskilaboð meðferðargúrús á 21.öld eru því með vissum hætti óður til danskra klámmynda frá árunum 1967-1970.

Ég er ekki alvörufíkill, bara átvagl sem hefur tekist að hafa hemil á græðginni í nokkurn tíma m.a. með því að lesa AA-bókina. En mér hefur aldrei tekist að hafa þessa stjórn til lengdar án 12-sporanna. Í fræðunum eins og ég þekki þau eru ekki boðuð trúarbrögð en hvatt til andlegrar lausnar og reynslu. Fíklar þurfa að leita til guðs samkvæmt skilningi sínum á honum. Trúleysi er jafnvel ekki hindrun enda eru allir færir um einhvers konar andlega reynslu. Eina bókstafstrúin sem á við í 12-spora prógrammi er bókstafur AA-fræðanna - ekki biblíunnar, ekki nema fíkillinn velji sér sjálfur þá leið. Ég get ekki betur séð en meðferð sem boðar ákveðin trúarbrögð sé misnotkun á AA-fræðunum eða víki a.m.k. af réttri leið þeirra.

Sæði forstöðumanns sem æðri máttur þykir mér líka ansi vafasöm trú en það þarf kannski varla að taka það fram.

Síðustu fréttir eru tilefni til að endurvekja þá umræðu að vafasamt sé að ríkið styrki meðferðarstöðvar sem byggja á trúarbrögðum eða trúarofstæki en veiti því fé fremur til þeirra sem viðhafa faglegri sjónarmið.