laugardagur, mars 12, 2005

Til dæmis: Jón Gnarr biskup Íslands. Það er samt eiginlega ekki nógu absúrd. Frekar einhver sem hefur þjónað sem prestur í hálft ár fyrir tíu árum en starfað sem sölustjóri síðustu árin.

Talandi um presta þá láta tískuprestarnir ekki að sér hæða. Pálmi Matthíasson lék í kvöld sjálfan sig að jarðsyngja í ákaflega ómerkilegri fyllerísseríu sem er að hefja göngu sína á Stöð 2. Er þetta virðingin sem hann ber fyrir kirkjulegum athöfnum? Meira að segja ég ber virðingu fyrir jarðarförum og hef þó aldrei verið trúaður.

föstudagur, mars 11, 2005

Ég heyrði góða JPV-eftirhermu í hádeginu. Viðkomandi sagði þó að aðrir væru mun betri í þessum leik og til er einn snillingur í að herma eftir þessum forleggjara. Já, þetta er heitt slúður.

Ég starta nýjum samkvæmisleik hérna. Hann er sá að koma með tillögur að embættisveitingum sem eru jafnabsúrd og ráðning fréttastjóra Útvarpsins. Fyrsta tillagan er sú að Ágúst Borgþór verði skipaður menntamálaráðherra, önnur sú að aðstoðarþjálfari 2. flokks karla í knattspyrnu hjá Stjörnunni verði ráðinn landsliðsþjálfari og þriðja að Finnbogi Kjartansson, fyrrverandi liðsmaður Júdasar, bassaleikari og hljómborðsleikari, verði ráðinn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ég auglýsi eftir fleiri tillögum.

Hrafn Gunnlaugsson skrifar í Morgunblaðið góða grein um áform um styttingu náms til stúdentsprófs. Fyrirsögnin er: Aðförin að æskuárunum. Í greininni spyr hann hvort tími skeiðklukkunnar sé runninn upp í menntun þjóðarinnar. Hann segir: "Hvaðan er sú pólitíska sýn runnin að líta á nemendur sem framleiðslueiningar sem verði að troða eins hratt og frekast er kostur í gegnum skóla og út á atvinnumarkaðinn?" - Í lokin segir hann: "Hvers vegna erum við í kapphlaupi við einhverja ímyndaða samkeppni við aðrar þjóðir? Samkeppni sem skýrslugerðarmenn hafa soðið fræðilega saman, og kallar á magn en ekki gæði, kallar á allt það sem velmegandi smáþjóð ætti ekki að taka sér til fyrirmyndar? Hvar er að finna það pólitíska afl sem mun frelsa okkur af skýrslu?"

Nú þurfa fleiri að láta í sér heyra um þetta.

Erla pantaði Honda CV-R (veit ekki hvort þetta er rétt skrifað) jeppling og við fáum hann afhentan í maí. Það þarf að bíða eftir bílum í góðæri Davíðs og Halldórs og Baugs og Björgúlfsfeðga og Krónunnar og Þráins Bertelssonar ... Ég held að flestir viti að ég er ekki með bílpróf. Ég tók próf árið 1982 af því bróðir minn, þáverandi atvinnubílstjóri, heimtaði það og borgaði kennsluna. Mér gekk vel í munnlega prófinu en féll á ökuprófinu vegna þess að ég ók yfir á rauðu beygjuljósi. Ég tók prófið aftur mánuði síðar og þá panikeraði ég og gerði allt vitlaust, ók yfir óbrotna línu, ók vitlausu megin inn í einstefnugötu, o.sfrv. - Líklega þremur mánuðum eftir að ég fór í fyrsta ökutímann tók ég prófið í þriðja skipti og náði því. - Ekki hvarflaði að mér að kaupa mér bíl en afar misjafnlega gekk mér að keyra þegar ég fékk lánaðan bíl hjá systkinum mínum eða mömmu. Stundum gekk vel en stundum fór allt í hund og kött. Árin liðu, ég var töluvert erlendis og úti á landi, í og með að safna efni í litlu perlurnar sem ég hef skrifað og gefið út síðustu árin, en sjaldan snerti ég stýrishjól. Þar að auki endurnýjaði ég aldrei skírteinið og það varð því ógilt fyrir meira en tveimur áratugum. Erla hefur alltaf séð um aksturinn, stundum fer það í taugarnar á henni, en tilhugsunin um að ég sé einhvers staðar undir stýri úti í brjálaðri umferðinni finnst henni eiginlega ennþá verri en prófleysið mitt. - Engu að síður vaknar nú dálítill áhugi á því að taka bílpróf fyrst það kemur nýr bíll og þar að auki sjálfskiptur.
En það þarf að fara að spara, mikið af ferðum framundan ( og Mannheimar kostuðu sitt), bíllinn étur upp spariféð o.s.frv. - Kannski drullast ég í þetta á næsta ári. Börnin langar til að sjá mig einhvern tíma keyra.

Ég er að lesa nýju Murakami-bókina sem Bjartur gefur út, smásagnasafnið Eftir skjálftann, og líst mjög vel á hana. Ég las The Elephant Vanishes fyrir allmörgum árum og var mjög hrifinn. En síðan komu stælar að hætti meistarans: það var alltaf verið að tala um þennan Murakami og hylla hann og þess vegna missti ég áhugann á honum. Nú er best að láta það ekki trufla sig lengur og njóta.

Ég er að skrifa, nema hvað. Nú hætti ég að blaðra um hvað er í smíðum en ýmislegt er í deiglunni, smásögur og skáldsögur. Svo verður að koma í ljós á næstu misserum úr hvaða brókum verður barn.

fimmtudagur, mars 10, 2005

Ég var svo gjörsamlega búinn að afskrifa Regnhlífarnar í New York að Erla þurfti að kalla mig úr sturtu til að ég gæti fylgst með helmingnum af spjalli Rúnars Helga og fleiri um nýja skáldsögu Ians McEwans. Ég veit ekki hvort ég á að vera glaður eða ergilegur yfir þessu. Fyrst er maður fældur frá þættinum og síðan þegar maður er hættur að horfa á hann þá er boðið upp á klæðskerasaumað efni fyrir smekk manns. Svo er vinur manns vélaður til að taka þátt. Gæti best trúað því að þetta væri víðtækt samsæri um að ergja mig þar sem m.a. taka þátt Nyhil-klíkan, Bókabúð Máls og menningar, knattspyrnufélagið Fram og ýmsir fleiri. Ofsóknarbrjálaður? Nei, er það?

Ég gekk í Frjálslynda flokkinn í gær.

Nei, grín.

Annars er Frjálslyndi flokkurinn gáfulegur við hliðina á útvarpsráði. Það eru nú meiri fíflin.

Ég hef aldrei verið sleipur í reikningi en skyndilega var það að renna upp fyrir mér að fólk sem er fætt árið 1975 verður þrítugt á þessu ári. Það er svakalegt. Ég hélt að það væri bara unglingar sem ættu þetta fæðingarár. Og Sæmi litli frændi verður 27 ára á þessu ári. Þetta er vitfirring. Mér finnst ennþá að ég muni lifa að eilífu og aldrei verða gamalmenni, að ég verði miðaldra út í hið óendanlega.

miðvikudagur, mars 09, 2005

Auðunn Georg Ólafsson fréttastjóri Ríkisútvarpsins? - Með fullri virðingu, hvers konar della er þetta? Á ég þá að verða menntamálaráðherra?

Horfði á Chelsea - Barcelona með gömlum vinum á Gauknum í kvöld. Sem nærri má geta var það feykilega gaman en Chelsea komst áfram með 4-2 sigri, Eiður Smári skoraði fyrsta markið. Vinnufélagi annars vinarins var þarna líka, en hann er Þjóðverji. Við ræddum um leiki morgundagsins en hann er Shalke-maður og mér virtist að hann vildi helst að bæði Leverkusen og Bayern München töpuðu. Auk þess gengu samræðurnar eitthvað út á það hvaða lið hann ætti að velja sér hér á landi þegar Íslandsmótið byrjar og virtist hann búa næst KR. Samt reyndi annar vinanna að sannfæra hann um að eiga sitt heimalið að Hlíðarenda. Við fórum reyndar fyrst á Glaumbar en vissum ekki að það er Man. Utd. vígi og þar var sá leikur á nánast öllum skjáum. Okkum fannst þetta dálítið pirrandi í fyrstu, ég hafði gengið út frá því að Chelsea-leikurinn yrði sýndur en samt höfðum við respekt fyrir því að menn standi með sínu liði. Athyglisvert að það voru töluvert fleiri á Glaumbar en Gauknum þó að þar væri eiginlega ekki hægt að horfa á Chelsea-leikinn og staða Man. Utd. nánast vonlaus fyrir leikinn. Stór hluti Gauksgesta var þar að auki líka meira að fylgjast með Man. Utd.

þriðjudagur, mars 08, 2005

http://www.islenska.is/default.asp?sid_id=16278&tre_rod=&tid=3&vef_id=207&Starf_ID=4669

Ný mynd af meistaranum og æviágrip. Búið er að uppfæra heimasíðu Íslensku auglýsingastofunnar. www.islenska.is Mjög skemmtilegt, t.d. upptökur með gömlum auglýsingum.

http://www.sij.is/blogg/index.htm Þetta verðið þið bara að lesa. Ó, hvílík skemmtun, hvílík Þórðargleði! Njótið.

Smile hljómar stórkostlega í mínum eyrum og greip mig frá fyrstu stundu. Margar góðar plötur eru seinteknar og verða síðan betri við aukna hlustun. Ég hef hins vegar þá tilgátu að annað hvort líki manni við þessa plötu strax eða alls ekki.

Fólkið í kjallaranum er mjög góð en ég nenni ekki að kryfja hana (er ekki einu sinni búinn með hana), langar bara að minnast á þetta: Þennan skemmtilega eiginleika Auðar að allt sem hún skrifar iðar og spriklar af lífi en stíllinn svo innilega laus við tilgerð og upphafningu; tær og eðlilegur raunsæisstíll.

mánudagur, mars 07, 2005

Bandaríkjadalur 60,40 kr.

Maradonna 121
ÁBS 114 (í morgun)

Ótrúlegt hvað Gegnir rúmar. Ennfremur hæð: M 167 sm - ÁBS 190 sm. Og fleiri upplýsingar: M: Á leiðinni í magaaðgerð, ÁBS: Þrjóskast við á Ægissíðustígnum við hvatningu leikritaskálda; M: Knattspyrnusnillingur, ÁBS: Lélegur í fótbolta en skoraði mark úr langskoti á innanhússmóti HÍ 1990; M: Rithæfni óviss, ÁBS: Dregur dagbækur fram úr nærfataskúffu (Heimild: Þ. Joð).

Verið ekki feimin við Gegni.

Í framhaldi af færslunni hér að neðan þá má segja að ég sé bæði að verja Framsóknarflokkinn og auglýsingamennsku, þ.e. þegar hún er upplýsandi og heiðarleg sem hún getur alveg verið. Auglýsingarnar gerðu það mjög freistandi og raunar nauðsynlegt að búa í eigin húsnæði og eftir kosningar er það orðið auðveldara en áður að eignast eigið húsnæði. - Flokkurinn getur hæglega dúkkað upp með ný loforð fyrir næstu kosningar og rokið upp um 5-10 prósent frá skoðanakönnunum mestallt kjörtímabilið, vegna þess m.a. að fólk hefur reynslu af því að flokkurinn standi við loforðin. Það er nú eitt af því sem hefur breyst í stjórnamálalífinu síðustu árin, við erum með stjórnarflokka sem standa við kosningaloforðin, t.d. um skattalækkanir. Þegar ég var krakki og unglingur voru flokkarnir t.d. alltaf að lofa því að kveða niður verðbólguna en þeir stóðu aldrei við það. Líklega mun stór hluti kjósenda horfa raunsætt á þessi mál í næstu kosningum en margt bendir til þess að Sjálfstæðisflokkurinn græði meira á því en Framsóknarflokkurinn.

22
22

Þetta er mikilvægt einvígi (sérstaklega þar sem hvorugur höfundurinn selst á jólamarkaði). Annars vegar smásagan í farvegi frá Chekhov, hins vegar safn sem á að sýna fram á dauða formsins, skv. nýlegum ritdómi. Heppilegast er að lesandafjöldinn sé alltaf jafn.

sunnudagur, mars 06, 2005

Um hádegisbilið stóð ég í skokkbúningnum neðarlega á Dunhaganum og spjallaði við nágranna. Ég var á leiðinni niður á stíg til að hlunkast út í Nauthól og til baka. Skyndilega stöðvast bíll á götunni, Arthur Miller teygir höfuðið út um gluggann og galar á mig: "Hey, það þýðir ekkert bara að standa og blaðra, farðu að hlaupa." Svo brenndi hann í burtu. Átti kallinn ekki að vera dauður? Hann leit ekki einu sinni út fyrir að vera orðinn gamall.

Það er nánast talið til viðurkenndra sanninda að Framsóknarflokkurinn hafi bjargað sér fyrir horn í síðustu kosningum með auglýsingaskrumi og haldið 17 prósentum. Eftir kosningar hafi síðan skrumið opinberast almenningi og þess vegna sé flokkurinn að lulla í 10 prósentum. En hvað var það sem flokkurinn auglýsti helst fyrir síðustu kosningar með smellnum auglýsingum sem síðar unnu til verðlauna (sem á að vera háðung fyrir flokkinn)? Jú, 90 prósent húsnæðislán. Og var ekki staðið við þau loforð? Jú, heldur betur. Og síðan fylgdu bankarnir í kjölfarið og hækkuðu sig upp í 100% og allir þekkja þessa sögu.

Í laugardagsleiðara er Mogginn að hóa Frjálslynda flokknum inn í Sjálfstæðisflokkinn. Hann spyr hvort þingmenn Frjálslynda flokksins vilji ekki fremur freista þess að ná hugmyndum sínum í gegn í stórum flokki en einangrast með þær í smáflokki og hann spyr hvort Sjálfstæðisflokkurinn þurfti ekki á þessu 4-6 prósenta fylgi að halda sem honum sé í raun ætlað. Mogginn heimfærir þingmenn flokksins út frá uppruna þeirra en Egill Helga staðsetur þá út frá málflutningnum. Skv. honum virðist Margrét Sverrisdóttir eiga heima í Samfylkingunni og formaður og varaformaður hafa tekið undir flest sjónarmið stjónarandstöðunnar. Gunnar Örlygsson og þessi sem ég man ekki hvað heitir, bauð sig fram í Reykjavík, eru hins vegar hægra megin og ganga líklega í Sjálfstæðisflokkinn ef þeir verða ekki kosnir í nein embætti á flokksþinginu.

Annars er ég of þreyttur til að hafa skoðanir á þessu né nokkru öðru í augnablikinu. Þess vegna læt ég nægja að rekja athyglisverðar skoðanir annarra, eins og í síðustu færsla. Erfiðasta vinnuvika (líklega um 70 stundir) sem ég hef upplifað á stofunni er á enda. Hún var svo sem um margt skemmtileg en er sem betur fer ekki dæmigerð fyrir starfið. Ef svo væri myndi ég aldrei skrifa neinar sögur, nú eða neyðast til að hætta.

Drengurinn felldi hjálpardekkin á hjólinu í dag í síðvetrarsólinni. Mér fannst eins og stelpan hefði gert hið sama í síðasta mánuði en það var fyrir fimm árum. Tíminn líður sífellt hraðar. Við skoðuðum Honda jeppling í dag og eftir fundinn veltum við fyrir okkur mögulegum aldri sölumannsins. Hann var nokkuð tekinn að grána en samt skutum við á 37 ára. "Við erum nefnilega orðin svo fjandi gömul" sögðum við nánast í kór. - En þessa helgi eins og margar aðrar upplifum við hins vegar að það er notalegt að vera "gamall", a.m.k. innan gæsalappa. Bráðum hætti ég alveg að horfa á eftir stelpum, læt Idolið nægja.