laugardagur, ágúst 26, 2006

Ég er staddur á Kaffi Roma við Rauðarárstíg en hluti smásögunnar Fyrsti dagur fjórðu viku gerist þar inni. Það rignir úti. Sagan fjallar m.a. um muninn á því að taka strætisvagn í Reykjavík upp úr aldarmótunum annars vegar og hins vegar þetta 20 til 30 árum fyrr. En núna er búið að breyta strætókerfinu og ég er með nýja leiðakerfið fyrir framan mig á borðinu, í litlum bæklingi - það er sett upp eins og neðanjarðarlestarkerfi erlendis.

Fyrsti dagur fjórðu viku verður gefin út á ensku í þarnæsta mánuði, eins og komið hefur fram. Kannski ferðast eintak með neðanjarðarlest í Manchester. Þann 19. október tek ég lestina frá London til Manchester til að hitta söguna mína. Þá verð ég líklega ennþá ekki kominn upp á lag með að ferðast aftur með strætisvagni á Íslandi.

Gunnar Randversson var að koma frá Bandaríkjunum og færði mér að gjöf smásagnasafn eftir James Salter, Last Night. Mig minnir að einhver blogglesandi hafi bent mér á þennan höfund en að öðru leyti kannast ég ekki við hann, sem er mjög sérkennilegt, þar sem hér er á ferðinni fremur þekktur bandarískur smásagnahöfundur sem hefur m.a. fengið Pen/Faulkner verðlaunin. Af mynd af dæma er maðurinn um sextugt. Sögurnar eru frekar erótískar en umfram allt raunsæislegar lýsingar á samböndum og ástarlífi.

Engu líkara en Erla sé farin að stíla inn á þessa síðu í tilsvörum sínum undanfarið. Eftir að við komum af leik KR og ÍBV á fimmtudagskvöldið sagði hún: "Ég skammaðist mín bara einu sinni fyrir þig á vellinum. Það var í lokin þegar þú hljópst niður til að fagna leikmönnunum og varst að reyna að heilsa þeim."

Í gær sagði ég henni að Guðrún í vinnunni hlæi að bröndurunum mínum allan liðlangan daginn. - "Hún á eftir að hætta því. Þetta er bara fyndið fyrst. Ég man að ég hló alltaf líka en svo hætti ég því."

Ég reyni síðan að nudda henni upp úr því að hún sé lélegur stuðningsmaður í fótbolta og enginn alvöru KR-ingur, og að hún þori ekki að reyna að vera fyndin innan um fólk. Þau skot hitta misjafnlega vel. - Við erum stundum í light-útgáfu af Who´s afraid of Virgina Woolf sem mér hefur alltaf fundist að fjalli um Elizabeth Taylor og Richard Burton. Reyndar alveg laufléttri útgáfu.

Það er heilmikið eftir af sumrinu. Því lýkur tæpast fyrr en eftir mánuð. Hlýjar kvöldstillur og mannhaf í miðbænum. Á kránum er jafnmargt á miðvikudagskvöldum og um helgar. Ég mæli með miðvikuslarki fremur en helgarslarki. Það byrjar fyrr og því lýkur fyrr og svo rífur maður sig upp í vinnuna næsta morgun.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Hvers vegna á hamingjusamur maður sífellt að skrifa um óhamingju? Hvers vegna finnst manni skáldskapur annaðhvort vera harmleikur eða skopleikur? Annars held ég að uppáhaldsbókmenntirnar mínar séu stundum handan við gæfu og ógæfu, hamingju og óhamingju. Kannski getur maður einhvern tíma fetað sig þangað.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060822/SKODANIR03/108220084/1079 Þörf gagnrýni á hlut Glitnis í Reykjavíkurmaraþoni.

Ég er farinn að gera mér raunhæfar vonir um að margnefnt verk í smíðum, verði í senn mjög einföld og margslungin saga. Í slíku liggja mínir möguleikar, minn styrkleiki. Ég sneiði hjá veikleikunum.

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Þeir sem segja að skil lágmenningar og hámenningar hafi máðst út kunna að hafa mikið til síns máls. Á hinn bóginn fæ ég á tilfinninguna að margir þeirra séu eingöngu farnir að neyta þess sem áður flokkaðist undir lágmenningu. Horfi bara á afþreyingarmyndir úr kvikmyndaheiminum og bara leikna bandaríska myndaflokka í sjónvarpinu (og hvort tveggja getur vissulega einstaka sinnum risið hátt) ásamt raunveruleikaþáttum, lesi bara reyfara en séu löngu hættir að lesa hefðbundnar skáldsögur, hvað þá smásögur, hvað þá ljóð - og hlusti bara á eitthvað sem áður flokkaðist undir dægurtónlist. Þegar svo er komið og maður vill ennþá láta taka mark á sér, þá er miklu þægilegra að segjast engan greinarmun gera á hámenningu og lágmenningu en viðurkenna að maður sé orðinn staðnaður og innantómur, eða hafi kannski þegar allt kemur til alls aldrei verið neinn andans maður, það hafi bara verið sýndarmennska sem tíðarandinn frelsaði mann loksins undan.

Rokland er góð. Mér dettur hún sjálfkrafa í hug við þessar vangaveltur.

Stundum fara tvær þrálátar tilhneigingar þessa þjóðfélags í taugarnar á mér: Markaðsvæðing og barnavæðing. - Reykjavíkurmaraþon er almenningshlaup en í fréttum af hlaupinu í gærkvöld bar langmest á íþróttaálfinum, hoppandi og skoppandi uppi á sviði. Er hvergi hægt að fá frið fyrir þessu Latabæjarskrímsli? Ég get alveg respekterað þetta og sagt "gangi ykkur vel" en gaman væri ef einhvers staðar væri hægt að opna augun án þess að þessi maskína blasi við. - Og hvers vegna þarf allt að snúast um börn? Reykjavíkurmaraþon er ekki barnahlaup og var ekki stofnað til þess að auka hreyfingu barna. En í ár er sterkasta kennimark þessa viðburðar Latibær og krakkar að hlaupa.

Kannski er ég bara pirraður yfir því hvað ég var með ömurlegan tíma í hlaupinu. Og lá mér þó við yfirliði af þreytu þegar þessu var lokið. Erla stóð sig hins vegar vel.

Það virðist frágengið að ég fer á árlega bókmenntahátíð í Manchester í október. Þá verður bókin Tales of Ten Cities komin út með sögunni Fyrsti dagur fjórðu viku ásamt 9 sögum eftir aðra höfunda, frá öðrum borgum. Ég mun líklega lesa upp laugardagskvöldið 21. október.