Gunnar Randversson var að koma frá Bandaríkjunum og færði mér að gjöf smásagnasafn eftir James Salter, Last Night. Mig minnir að einhver blogglesandi hafi bent mér á þennan höfund en að öðru leyti kannast ég ekki við hann, sem er mjög sérkennilegt, þar sem hér er á ferðinni fremur þekktur bandarískur smásagnahöfundur sem hefur m.a. fengið Pen/Faulkner verðlaunin. Af mynd af dæma er maðurinn um sextugt. Sögurnar eru frekar erótískar en umfram allt raunsæislegar lýsingar á samböndum og ástarlífi.
Engu líkara en Erla sé farin að stíla inn á þessa síðu í tilsvörum sínum undanfarið. Eftir að við komum af leik KR og ÍBV á fimmtudagskvöldið sagði hún: "Ég skammaðist mín bara einu sinni fyrir þig á vellinum. Það var í lokin þegar þú hljópst niður til að fagna leikmönnunum og varst að reyna að heilsa þeim."
Í gær sagði ég henni að Guðrún í vinnunni hlæi að bröndurunum mínum allan liðlangan daginn. - "Hún á eftir að hætta því. Þetta er bara fyndið fyrst. Ég man að ég hló alltaf líka en svo hætti ég því."
Ég reyni síðan að nudda henni upp úr því að hún sé lélegur stuðningsmaður í fótbolta og enginn alvöru KR-ingur, og að hún þori ekki að reyna að vera fyndin innan um fólk. Þau skot hitta misjafnlega vel. - Við erum stundum í light-útgáfu af Who´s afraid of Virgina Woolf sem mér hefur alltaf fundist að fjalli um Elizabeth Taylor og Richard Burton. Reyndar alveg laufléttri útgáfu.
Það er heilmikið eftir af sumrinu. Því lýkur tæpast fyrr en eftir mánuð. Hlýjar kvöldstillur og mannhaf í miðbænum. Á kránum er jafnmargt á miðvikudagskvöldum og um helgar. Ég mæli með miðvikuslarki fremur en helgarslarki. Það byrjar fyrr og því lýkur fyrr og svo rífur maður sig upp í vinnuna næsta morgun.