föstudagur, október 07, 2005

Ég fór með Erlu í veggjatennis í gærkvöld en við stunduðum það dálítið í fyrra. Ég veit ekki hvort við erum bara svona léleg í þessari íþrótt eða erum komin með svona gott þol af skokkinu, en satt að segja varð ég ekki mjög þreyttur eða móður á meðan keppni stóð.

Ég verð einn með krakkana á morgun og skrepp líklega með þau í Kolaportið og fóðra þau á pizzum.

Undanfarið hef ég bara skrifað í hádeginu, gengið reyndar ansi vel, en ég veit ekki alveg hvenær ég finn næst tíma fyrir góða skorpu. Líklega ekki fyrr en á sunnudagskvöld.

fimmtudagur, október 06, 2005

Hver verður næsti borgastjóri í Reykjavík?

http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=57014 Bush vill fá að misþyrma föngum áfram. Sífellt fleiri hægri sinnaðir Evrópumenn eru búnir að fá nóg af Bandaríkjunum.

Ég er kominn með ágætan (og nokkuð óvæntan) lesara að nokkrum köflum úr handritinu. Hann er harður, góður íslenskumaður, ágætur penni og með góðan smekk. Ég hef fengið ýmsar einkunnir hjá honum. Upphaflega hugsaði ég mér að skrifa alla söguna áður en ég léti nokkurn mann sjá hana en núna finnst mér verkið einhvern veginn raunverulegra og þar með viðráðanlegra ef ég hef yfirlesara. - Reyndar er ég farinn að setja kafla inn á Rithringur.is en allt smásagnasafnið mitt síðasta fór þar í gegn.

Ég sá forsætisráðherra í Kastljósi í gær. Hann er auðvitað ekkert rosalega skemmtilegur (það eru ekki margir stjórnmálamenn skemmtilegir, Davíð var það og örfáir aðrir) en hann er viðkunnanlegur, heiðarlegur, traustvekjandi og sjálfum sér samkvæmur. Mér líkar vel við hann og mér leiðist stöðugt niðurrifstal um hann og flokkinn hans. Ég hefði ekkert á móti áframhaldandi stjórnarmynstri enda hefur það gefist vel. En það hljóta að verða breytingar næst. Ég spái því samt að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í stjórn.

Uss, bara hættur að blogga? Eins og einhver stelpuletingi í skóla. Af því Paul Auster er fallegur maður. Eða eitthvað. Og það sem meira er: það eina sem ég hef að segja er framhald frá því í gær: mætti tveimur útúrheilbrigðum fimmtugum kellingahópum á stígnum og hvorugur hópurinn vék. Þær voru svo meira en tilbúnar að rekast á mig. Ég held að staðan sé 0-15. 15 vegfarandur síðan einhver vék fyrir mér.

Kjartan hefur færst upp úr 8. flokk í þann 7. í KR. Veit ekki hvort ykkur kemur það við. En á meðan hann var á æfingu í dag skokkuðum við Erla. Þegar við sóttum hann hafði hann miklar sögur að segja af hetjuskap sínum, markvörslu og markaskorun og sagði að æfingarnar hjá 7. flokki væru gríðarlegar erfiðar. Hann hljómaði eins og einhver sem er nýbúinn að skipta úr áhugamannaliði í atvinnumannalið.

þriðjudagur, október 04, 2005

Af einhverjum ástæðum færist það í vöxt að fólk víki ekki fyrir mér. Þetta gerist bæði á reiðhjólinu og á skokkinu. Ef ég mæti tveimur eða þremur fótgangandi félögum á Ægisíðustígnum færir fólkið sig ekki til hliðar, það færir sig jafnvel í beina línu við mig. Sumir virðast ekki mundu víkja þó að ég væri að fara að hlaupa yfir þá. Þó get ég ekki ímyndað mér að það sé þægilegt að láta mig hlaupa sig niður. Þetta er ekki vandamál en vekur mig til umhugsunar vegna þess að þetta var alls ekki svona í sumar. Hættir fólk að víkja á haustin eða mætti ég bara útlendingum í sumar?

Ef ég hlusta of mikið á sömu tónlistina fer hún að óma stöðugt í kollinum á mér, jafnvel svo að það verður óþægilegt. Þannig var Zappa karlinn aldeilis búinn að hreiðra um sig í hausnum á mér hér áður fyrr og nú er það The Who, eins og menn vita. Ég veit ekki hvers vegna þetta gerist, þetta eru einhverjir einhverfutendensar eða partur af "the addictive personality". Zappa var náttúrulega mjög sérstæður og frumlegur snillingur en The Who eru bara góðir, reyndar mjög góð rokkhljómsveit en verðskuldar varla þessa maníu. Nautnin er þó öllu meiri en kvölin.

Barnaland - hávæmni

Ég setti mynd af stráknum sem skjámynd á tölvuna - það er þessi af honum í Brasilíu-bolnum þar sem hann réttir uppi vísifingurna; myndin veldur því að ég sakna hans stöðugt.

Allir vita að fyrir hina fjölmörgu pistlahöfunda landsins er bakið á Fréttablaðinu mest spennandi, mikil útbreiðsla og tilþrif Þráins Bertelssonar í gegnum tíðina hafa gefið þessum dálki status. Svo hef ég einhvern veginn á tilfinningunni að þetta sé sæmilega borgað. Síðasta vetur þreifaði ég á Fréttablaðsmönnum með þetta en fékk þau svör að þeir væru nýbúnir að endurskipuleggja pennahópinn, ég kæmi sterklega til greina síðar en færi á biðlista. - Nú, í sumar var ég í Speglinum á RÚV og núna er ég kominn á Blaðið. Tæki Bakþankana fram yfir hvorttveggja.

Um helgina sé ég síðan að aftan á Fréttablaðið er kominn herðabreiður júdókappi og skrifar einhvern ömurlegan klisjulestur um umferðarmenninguna. Heldur þótti mér það snautlegt að vera sniðgenginn fyrir svona penna. Það eru að vísu til vel skrifandi júdókappar, t.d. Thor Vilhjálmsson, en þessi er það ekki. Á ekki að hafa smá status á þessu? Kannski voru þeir bara hræddir við hann. Hvað gerir maður ef fílefldur júdókappi kemur inn á ritstjórnarskrifstofuna og vill endilega verða pistlahöfundur, leggur þunga áherslu á það?

Æi, er þetta aftur orðið þannig að Mogginn er stjórnarblað og Fréttablaðið stjórnarandstöðublað? Svona eins og Mogginn og Þjóðviljinn áður fyrr? Forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag er: Stjórnin í afneitun. - Það er túlkun stjórnarandstöðunnar. Píp stjórnarandstöðunnar um fjárlagafrumvarpið er forsíðufrétt blaðsins.

mánudagur, október 03, 2005

Nýja tilvitnunin ...

... er tileinkuð nýliðnu sumri í Reykjavík.

Ég keypti rándýran flauelsjakka í hádeginu í Adam á Laugavegi. Á eftir að feisa Erlu með það. En þetta er fyrsti jakkinn sem ég kaupi síðan í maí 2004. Og þetta er fyrsti flauelsjakkinn sem ég klæðist síðan ég var fermdur.

sunnudagur, október 02, 2005

Bókin hans Jóns Atla, í Frostinu, er 130 blaðsíður í litlu broti. Ég las 30 síður á Súfistanum áðan. Sagan nær strax tökum á manni, virðist vera feykilega vel skrifuð og hlaðin tilfinningu. Á leiðinni út sá ég að út er komið smásagnasafn eftir Hallberg Hallmundsson. Gæti trúað að það væri ágæt bók.

Kl. 11:47 - Ég tók myndina Kinsey á DVD í gær. Liam Neeson leikur kynlífsfræðinginn fræga. Myndin var býsna góð, hún er eftir sama leikstjóra og Gods and Monsters.

Ég hjóla með strákinn á æfingu á eftir og síðan kíkjum við á leik í sjónvarpinu í KR-heimilinu. Eftir það fer ég að skrifa en það hef ég ekki gert síðan á fimmtudagskvöldið. Mér gekk afskaplega vel síðustu dagana fyrir mánaðamótin og hlakka til að taka upp þráðinn.

Líf mitt er annars hlaðið endurtekningum. Við skokkuðum bæði á föstudagskvöld og laugardaginn. Fórum í heimsókn til að horfa á fyrsta Idol-þáttinn sem er sem fyrr hin besta fjölskylduskemmtun. Í gær gerðum við tilraun til að kaupa á mig flauelsjakka í Dressmann en sá eini sem var ekki of þröngur á mig var of stuttur. Það er orðið nokkuð langt síðan ég hef keypt mér föt og yngstu jakkarnir mínir eru um 16 mánaða gamlir.

Mataræðið var allt meira og minna í rugli í september en þó fitnaði ég ekki. Ég er búinn að setja inn nokkrar heitstrengingar hér sem hafa ekki gengið upp. Enn á ný tók ég upp bindindisþráðinn í gær og ræddi málið við Erlu. Hefur þetta gengið vel þennan sólarhringinn og það er ekki um annað að ræða en hverfa inn í bindindismataræðið, ekkert annað virkar.

Á næsta föstudagskvöld er hin árlega haustlitaferð í vinnunni en það er gleðskapur e-s staðar utan bæjarmarkanna. Mig langar ekkert að fara en samt langar mig út á lífið, þ.e. á Ölstofuna.