Kl. 11:47 - Ég tók myndina Kinsey á DVD í gær. Liam Neeson leikur kynlífsfræðinginn fræga. Myndin var býsna góð, hún er eftir sama leikstjóra og Gods and Monsters.
Ég hjóla með strákinn á æfingu á eftir og síðan kíkjum við á leik í sjónvarpinu í KR-heimilinu. Eftir það fer ég að skrifa en það hef ég ekki gert síðan á fimmtudagskvöldið. Mér gekk afskaplega vel síðustu dagana fyrir mánaðamótin og hlakka til að taka upp þráðinn.
Líf mitt er annars hlaðið endurtekningum. Við skokkuðum bæði á föstudagskvöld og laugardaginn. Fórum í heimsókn til að horfa á fyrsta Idol-þáttinn sem er sem fyrr hin besta fjölskylduskemmtun. Í gær gerðum við tilraun til að kaupa á mig flauelsjakka í Dressmann en sá eini sem var ekki of þröngur á mig var of stuttur. Það er orðið nokkuð langt síðan ég hef keypt mér föt og yngstu jakkarnir mínir eru um 16 mánaða gamlir.
Mataræðið var allt meira og minna í rugli í september en þó fitnaði ég ekki. Ég er búinn að setja inn nokkrar heitstrengingar hér sem hafa ekki gengið upp. Enn á ný tók ég upp bindindisþráðinn í gær og ræddi málið við Erlu. Hefur þetta gengið vel þennan sólarhringinn og það er ekki um annað að ræða en hverfa inn í bindindismataræðið, ekkert annað virkar.
Á næsta föstudagskvöld er hin árlega haustlitaferð í vinnunni en það er gleðskapur e-s staðar utan bæjarmarkanna. Mig langar ekkert að fara en samt langar mig út á lífið, þ.e. á Ölstofuna.