1. dagur í nýbindindi
Skokkaði með Erlu áðan. Er að hræra mér egg. Fjölskylda í dag, skriftir á morgun.
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
Skokkaði með Erlu áðan. Er að hræra mér egg. Fjölskylda í dag, skriftir á morgun.
Það er aftur high-noon í mataræðinu. Það hefur verið að molna úr veggnum smám saman og núna er allt hrunið. Ég hef þyngst um kíló, er farinn upp í 107 aftur úr 106. Ég var á leiðinni niður í 105.
Dálítið athyglisverðar og óvæntar fréttir að Eiríkur Bergmann, Evrópusérfræðingur, sé með skáldsögu hjá Skruddu í haust. Þetta mun vera saga í léttum dúr. Skrudda hefur stórfjölgað titlum og er með 17 bækur á árinu. Þeir vænta handrits frá mér næsta sumar og vonandi gengur þeim bara vel í jólavertíðinni. Meðal annarra bóka er heilablóðfallssaga Ingólfs Margeirssonar. Þá eru tvær bækur nýkomnar út og önnur komin í dómssali, væntanlega eykur það umfjöllun. www.skrudda.is
Ólafur Teitur Guðnason er vissulega hægri sinnaður og hann á það til að vera smámunasamur. Þetta breytir ekki þeirri staðreynd að fjölmiðlapistlarnir hans eru vandaðir og vel rökstuddir. Nánast aldrei svara þeir fyrir sig sem þar eru gagnrýndir, engu líkara en þeir hafi enga málsvörn fyrir slæleg vinnubrögð og fordóma í skrifum. Yfirleitt fær Ólafur Teitur bara á sig Ad hominem gagnrýni, stuttar hæðnislegar athugasemdir, en ekki málefnanleg svör við sinni gagnrýni.
Það fer víst ekki á milli mála við lestur sumra bloggsíðna og samræður í bænum að Paul Auster gengur í augun á kvenfólkinu. Gildir einu þó að hann sé að verða sextugur. Mér skilst að augun, framkoman og rithæfileikar geri útslagið til samans. Nú fara fæstir í fötin hans Austers en engu að síður er þetta uppörvandi fyrir menn komna yfir fertugt.
Ég hef ekkert að segja í dag. Ef ég myndi skrifa eitthvað myndi ég segja frá því að ég væri að fara á Súfistann í hádeginu, að ég yrði grasekkill í kvöld og myndi hita upp pizzur handa börnunum og leyfa þeim að leigja sér myndband. En ykkur langar ekki að vita um þetta svo ég sleppi því að segja frá því, líka því að eflaust reyni ég að skrifa heima þegar líður á kvöldið.
Byrja á Hermanns Stefánssonarlegum titli. Þegar ég mætti til vinnu áðan voru smápeningar út um allt á borðinu mínu og kringum það. Smápeningahólfið í veskinu mínu er rifið og í gær losaði ég klinkið úr því. Það hefur síðan farið á flakk á vinnusvæðinu mínu. Þarna innan um eru 50 kallar og 100 kallar. Í síðasta mánuði hefði þetta verið hinn mesti fjársjóður en er núna bara eitthvað sem ég legg til hliðar með óljósa minningu í kollinum um að þetta séu verðmæti.
1. The Kids Are Alright
Kl. 23:09 miðvikudagskvöldið 14. september 2005 er ég að skrifa 6. kaflann í skáldsöguhandritinu og segi frá rithöfundi á markaðslegri niðurleið sem fer út í sjoppu og borðar samloku í kvöldmat. Ég er í þann veginn að fara að rífast við Eyvind um tónlist í kommentakerfinu. Ég var að tala við Erlu í símanum um að líklega yrði tæpt með að við næðum Paul Auster í Iðnó annað kvöld og því ætlum við að gera eitthvað annað saman, t.d. skreppa á kaffihús; ég er enginn stjörnudýrkandi, ég hef lesið margar bækur eftir Auster og verð engu bættari við að sjá hann lesa upp.
Hverjir eru helstu lagasmiðir rokksins? Ég er að tala um tónlistarmenn sem hafa samið haug af góðum lögum bæði fyrir eigin flutning og annarra. Hér eru nokkrar tillögur. Skammið mig fyrir þá sem vantar á listann og bætið þeim við. Og hvar eru konurnar?
Ekki ljómar þessi síða af andagift þessa dagana en vissulega hefur hún oft átt sína spretti. Í augnablikinu dettur mér ekki neitt í hug að skrifa um og þá skrifa ég um það, að mér detti ekki neitt í hug.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1158107 Hvaða glæpasögu er Benni að gefa út?
Við vorum á öðrum kynningarfundi í Melaskóla í gærkvöld. Mér finnst kennari stráksins míns vera hálfgerð smápía og a.m.k. einn samkennari hennar líka. En þetta eru fullorðnar konur, hugsanlega þrítugar. Rosalega er maður orðinn gamall.
Ég er að lesa smásögur eftir John Fante núna. Hann var uppáhaldshöfundur Charles Bukowski. Ég byrjaði einhvern tíma á skáldsögunni Ask the Dust eftir hann en náði aldrei sambandi við hana. Hann skrifaði líka handritið að kvikmyndinni A Walk on the Wild Side sem er mjög skemmtileg. Smásögurnar hans eru góðar.
Ánægjuleg helgi senn á enda. Skrifaði töluvert á laugardaginn og vann Erlu í 5,3 km kapphlaupi. Það er ekkert að marka, hún malaði mig í Reykjavíkurmaraþoni en ég hef verið mun duglegri en hún að æfa síðan. - Í dag hjólaði ég með Kjartan á leikinn, þ.e. KR-Val. Við virtum nýja þjálfarann fyrir okkur, grásprengdan með sinn skandinavíska framburð. Leikurinn var afar ánægjulegur, endaði 2-0. Síðan var afmælisveisla á Víðimel. Þar spiluðum við feðgar fótbolta í garðinum við frænda Kjartans og væntanlegan mág frændans. Pabbi dáðist að þoli mínu. Ég er ekki einn af þeim sem hafa þörf fyrir aðdáun föður síns en allt hrós er vel þegið. Hann kom á hjóli í partíið og Alli bróðir segir að ég líkist honum mjög á reiðhjóli.