Úlfhildur Dagsdóttir skrifaði grein í Lesbókina um helgina sem virðist vera ágæt en ég á eftir að lesa almennilega, en þar segir hún m.a. að nýju íslensku sjónvarpsseríurnar séu samtímaspeglar. Ég hef ekki séð Pressu og læt hana liggja á milli hluta en það er alveg ljóst að Mannaveiðar annars vegar og Næturvaktin hins vegar eru mjög ólíkir og mismerkilegir samfélagsspeglar.
Mönnum hefur orðið tíðrætt um samfélagsspeglanir í íslenskum glæpasögum. Arnaldur Indriðason og Ævar Örn flétta t.d. samtímaviðburði og þjóðfélagssástand ágætlega inn í vel gerðar glæpasögur sínar en samfélagssýn þeirra er hvorki frumleg né merkileg og á eflaust ekki að vera það. Þær fleyta af yfirborði fjölmiðlaumfjöllunar og hnykkja á pólítískt réttum meirihlutaskoðunum: Kynjamismunun, eiturlyfjadjöfullinn, trúarofstæki, hommafóbía, klámvæðing, umhverfisvernd. – Flestir kinka kolli og eru sammála skoðunum höfunda en þessi sýn segir okkur ekkert nýtt um samfélagið, ekkert annað en það sem er alvitað og jafnvel farið að slá í það af vanahugsun og sjálfvirkri afstöðu. Enda eru Ævar Örn og Arnaldur ekki að reyna að gefa okkur nýja sýn á tilveruna heldur búa til handa þeim sem vilja góðar glæpasögur og þeir staðsetja þær með þessum hætti kirfilega í samtímanum (og Arnaldur staðsetur reyndar atburði oft í fortíðinni og virðist þar vanda sig vel, útfrá sögulegum staðreyndum) og búa þeim traustan raunsæisbúning.
Í Mannaveiðum virkar þessi þjóðfélagssýn einkar klisjukennd og útþvæld á mig (það hefur ekkert að gera með höfund samnefndrar bókar, Viktor Arnar, ég hef ekkert lesið eftir hann en mér skilst að hann sé ágætur).
Með Næturvaktinni höfum við fengið eitthvað allt annað og dýpra. Í gervi e-k sitcoms með ýktum karakterum og fyndnum uppákomum hefur Ragnari Bragasyni og hans fólki tekist að búa til einstaklega raunsæislegan og hversdagslegan harmleik þar sem aðalpersónurnar þrjár eru verulega bitastæðar. Við könnumst við týpurnar, gamla sænskmenntaða vinsti græna fasistakommann, sem þrátt fyrir langt háskólanám er í láglaunastarfi, og auðtrúa wannabe-hnakkann á vanskilaskrá, en þetta eru engar klisjur, við höfum tilfinningu fyrir að þetta fólk sé til en það er ekki þrautkunnuglegar erkitýpur sem vekja manni geispa eins og fólk á borð við dópdætur og trúarofstækiskaraktera með hommafóbíu eiga vissulega til að gera. Hvað þá þunglyndi rannsóknarlögreglumaðurinn eða úff, lögreglupar sem getur ekki unnið saman.
Það allra merkilegasta við Næturvaktina er að þættirnir þola vel síendurtekið áhorf, ef eitthvað dýpka þeir og batna með hverju áhorfi. Það held ég að sé næstum einsdæmi með skemmtiefni af þessu tagi.
Nýlegar kvikmyndir Ragnars, Börn og Fullorðnir, eru síðan líka afbragðsgóð raunsæisverk, sérstaklega seinni myndin sem hefur verið dálítið misskilin út af meintum skorti á plottleysi, en það er bara kjánaskapur fólks (jafnvel vel menntaðs) sem hefur horft alltof mikið á bandarískar bíómyndir og sjónvarpsþætti.
Mér skilst að leikarar í verkefnum Ragnars móti sína karaktera meira sjálfir en gengur og gerist, þeir túlka ekki bara persónur handritshöfundar eftir leiðsögn leikstjóra, heldur skapa þær, spinna texta o.sfrv. Útkoman er miklu betri persónusköpun en ég á að venjast í íslenskum kvikmyndum.