föstudagur, júní 20, 2008

Mæður sem misþyrma

http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2008/06/20/modir_misthyrmdi_fimm_ara_syni_sinum_skelfilega/

Þessi frétt er vissulega öfgakennd en samt bara eitt af ótalmörgum dæmum um ofbeldi mæðra gegn börnum sínum. Út um allan heim eru konur að misþyrma börnum. En þessi vandi er aldrei ræddur sérstaklega. Galllinn er sá að heimilisofbeldi sem og önnur skyld félagsleg málefni eru alltaf skoðuð í gegnum kynjagleraugu og rædd á forsendum kvenréttindabaráttu. Þess vegna eru skrifaðar skýrslur og haldnar ráðstefnur um kynferðisofbeldi, klám og vændi og heimilisofbeldi karla gegn konum. Börnin sem afbrigðilegar og geðsjúkar mæður þessa heims eru að misþyrma og drepa gleymast hins vegar vegna þess að þau falla ekki inn í hið feminíska kynjabaráttumódel.

fimmtudagur, júní 19, 2008

Miranda July

Kannski er hún síðasta smásagnastjarnan en það gerist æ sjaldgæfar að smásagnahöfundar slái í gegn. Þessi bandaríska 34 ára gamla kona, sem hefur m.a. fengist við kvikmyndagerð með góðum árangri, hefur þó náð miklum vinsældum og viðurkenningu með bókmenntafrumraun sinni, No one belongs here more than you. - Gunnar Randversson gaf mér þessa bók í gær en ég hef lesið dálítið um höfundinn í þýskum blöðum. Sögurnar hennar kveikja í manni, það er langt síðan ég hef lesið jafn inspírandi texta. Hugmyndaflugið er kunnuglegur hversdagssúrrealismi sem er í raun bara sérlega næmt raunsæi. Húmorinn er svakalegur, sársaukinn logandi. Þetta er dálítið eins og búið væri að splæsa saman Brautigan og Carver. Það er ekki amaleg blanda.

mánudagur, júní 16, 2008

Who Are You?

Lífið er algjörlega ófyrirsjáanlegt. Hvers vegna annar ísbjörn? Sá fyrsti var frétt en að það dúkki upp annar ísbjörn stuttu síðar, það er ofvaxið mínum skilningi.

Hitti fyrrverandi nágranna minn á kaffihúsi. Síðast þegar ég vissi var hann á kafi í heimasíðugerð. Núna sat hann við fartölvuna. Svo ég spyr eitthvað á þessa leið: "Alltaf í vefbransanum bara og svona, er það ekki?" - En svo var ekki. Maðurinn er kominn í óperunám á Ítalíu. Er bara staddur heima í örstuttu fríi. Ekkert tengdi hann við tónlist í mínum huga. Hvernig er hægt að sjá svona fyrir?

Systir hans kom á vettvang en hana þekki ég sáralítið. Hún spurði hvort ég væri nokkuð maður sem oft skrifar í Fréttablaðið. Dökkhærður með gleraugu. Það gat ekki verið neinn nema Bergsteinn Sigurðsson. Hann er örugglega a.m.k. 10 árum yngri en ég og þess vegna var mér hreint ekki illa við þennan rugling. En á Bergsteinn að vera ánægður? Hann er að vísu lunkinn penni en hefur mér vitanlega ekki gefið út bækur. En kannski er hann með fullar tölvur af sögum og vill ekki láta líkja sér við ÁBS.

Á leiðinni til baka í vinnunna varð skýfall og ég votur á nokkrum sekúndum. Þá hvarflaði að mér að hún hefði átt við Pál Baldvin Baldvinsson sem er líka dökkhærður með gleraugu, skrifar í Fréttablaðið en er hugsanlega 10 árum eldri en ég.

Svo áttaði ég mig á því að ég þarf ekki að hafa áhyggjur af þessu. Ég held áfram að vera ég, Bergsteinn að vera Bergsteinn og Páll Baldvin að vera Páll Baldvin.

Mér finnst ég eigi að botna þetta með því að minnast aftur á ísbjörninn en ég veit ekki hvað ég á að segja. Er eitthvað meira að frétta af honum?