föstudagur, ágúst 08, 2008

Sterkur auglýsingamiðill

Sjónvarpið og sófasettið hvorttveggja farið. Óli Sindri sem var Mengella reyndist vera mágur ungrar konu sem fékk sófasettið og var í sveitinni sem sótti það í gær. Við Erla vorum þá að koma úr skokkinu og ég bar sófann bullsveittur úr með Óla Sindra. Ég átti alltaf von á því að hitta hann fyrr eða síðar á kaffihúsi eða Ölstofunni en örlögin höguðu þessu svona.

Sjónvarpið verður sótt um helgina af öðrum aðila.

Í gærkvöld færði ég til stofuskáp, skrúfaði hillu úr honum. Endurtengdi tæki og tók á móti nýja sófasettinu. Frekar ólíkt mér en allt gekk þetta frekar vel.

Í kvöld er það hátíð í vinnunni og síðan Clapton-tónleikarnir. Bara að það væri vinur hans Townshend. En Clapton er stórfínn.

fimmtudagur, ágúst 07, 2008

Na und?

Alveg er ég orðinn hundleiður á fréttaskrifum um að tiltekin kona hafi misst bitling hjá borginni vegna þess að borgarstjóri vildi ráða leiðitamari aðila í starfið. Hann hefur bara fullan rétt á því. Og það má þessi borgarstjóri eiga að hann hefur skýra stefnu sem hann framfylgir og hann er að gera eitthvað, ólíkt þeim sem fara með landstjórnina.

Að yfirheyra borgarstjóra í Kastljósi vegna þess að hann rak einhvern úr aukadjobbi er bara fáránlegt.

Ég þekki fólk sem hefur verið sagt upp störfum undanfarið en ekki hvarflar að því að fara með það í fjölmiðla og því síður að "leita réttar síns" hjá dómstólum.

miðvikudagur, ágúst 06, 2008

Fólk skrifar

Bókmenntasmekkur virðist mér orðinn æði einhæfur og bókamarkaður heldur velli á sárafáum titlum. Engu að síður hafa líklega aldrei verið gefnar út né seldar fleiri bækur en núna. En umfram allt skrifar fólk. Á níunda áratugnum kom vídeóið og þá minnkaði bóklestur. Allir lágu yfir vhs-spólum og menningarvitar höfðu áhyggjur. Núna er myndin miklu flóknari. Stór hluti fólks er sískrifandi, sumir vel, flestir illa. Stafsetning er léleg en fólk heldur áfram að skrifa. Í versta falli er það gagnslaust, í besta falli gott. Sá sem skrifar skáldsögu í dag, sögu sem gerist í nútímanum, þarf að láta einhverjar persónur sínar blogga og aðrar þurfa í það minnsta að vera töluvert á netinu. Annars virkar sagan úrelt.

þriðjudagur, ágúst 05, 2008

Að vera eða vera ekki feitur

Ég hitti æskuvin minn úti á götu í hádeginu. Hann var með eiginkonunni og hluta af krakkaskaranum.

Æskuvinur: Þú lítur vel út. Slank og fínn.

ábs: Nei, ekki slank, ég er feitur. En ég er í röndóttri skyrtu.

Æskuvinur: Ég hitti X áðan og hann er bara eins og veggur.

ábs: Þess vegna finnst þér ég vera grannur núna. Mörgum aðdáendum mínum brá í brún þegar þeir sáu Flateyjarmyndirnar af mér á blogginu. Þeir héldu að ég væri grannur.

Æskuvinur: Já, ég sá þær (hlátur). Eigum við að löncha í vikunni?

Eiginkona æskuvinar: Við biðjum innilega að heilsa Erlu og krökkunum.

Gefins




Ef einhver fæst til að sækja þetta dót, notað sjónvarp og sófasett, þá fæst það gefins.

Hafa má samband á agust@islenska.is


sunnudagur, ágúst 03, 2008

Öfgar í barnauppeldi

Ég er að skrifa grein um Sylviu Marie Likens sem var myrt í fósturvist í Indianapolis árið 1965, þá 16 ára að aldri. Þó að mál hennar sé öfgafullt endurspeglar það furðuleg viðhorf til barna fyrir nokkrum áratugum, rétt eins og t.d. Breiðavíkurmálið hérlendis.

En sem ég sit yfir greininni er sirka þriggja ára drengur hér á Te&Kaffi í Máli og menningu sífellt að æra gesti staðarins með öskrum sínum. Sylviu Likens hefur áreiðanlega aldrei verið boðið á svona kaffihús. En foreldrar þessa drengs hafa gaman af óhljóðum hans og það hvarflar ekki að þeim að þetta sé óviðeigandi gagnvart öðrum gestum. Þau virðast vera fyrirmyndarfólk. Þetta endurspeglar viðhorf til barna í dag. Börnin eru alltaf númer eitt. Fullorðið fólk getur ekki lengur haldið samkvæmi án þess að börnin séu aðalnúmerið og setji upp heimskulegar leiksýningar fyrir fullorðna fólkið löngu eftir miðnætti. Börn geta ekki æft íþróttir án þess að foreldrar eyði ómældum tíma í að skipuleggja mót og fjáraflanir. (Um daginn sagði gamall fótboltamaður við mig: "Pabbi horfði aldrei á leiki með mér fyrr en ég var kominn upp í meistaraflokk - þá fór hann hvort sem var á völlinn.")

Að sumu leyti er þetta stórfínt.

Á hinn bóginn spyr maður sig hvort það hafi einhverjar afleiðingar að vaxa úr grasi án þess að nokkurn tíma hafi verið sussað hressilega á mann.