föstudagur, júní 03, 2005

Munið Eirík Örn í Speglinum í dag.

Rithringsfélagi, Þorsteinn Mar Gunnlaugsson, varð í 3. sæti í hrollvekjukeppninni. Frábært. Innilega til hamingju, Þorsteinn. - Ég man ekki hina verðlaunahafana í augnablikinu. Ætla að tékka á þessu.

Ég er kominn með leyniyfirlesara. Upphaflega ætlaði ég ekki að láta neinn sjá handritið fyrr en ég væri búinn með uppkastið en þetta er betra svona. Deadline á næsta kafla er 20. júní.

Nýja nóvelluhugmyndin fær að gerjast í mér á meðan.

Í kvöld hitti ég mína misheppnuðu skáldbræður og nú les ég upp fyrir þá útvarpspistil. Skáldsagan er bara fyrir leynilesarann og sjálfan mig í augnablikinu.

Þeir lesa væntanlega ljóð og úr skáldsögu. Vonandi les Benni ekkert, nenni ekki að slátra honum.

Kormákur og Skjöldur síðar í kvöld.

Á undan þessu öllu er skokkið. Það verður gott að komast á stíginn.

fimmtudagur, júní 02, 2005

Ég byrjaði að skokka aftur í gærkvöld. Ég fann ekki fyrir neinu bakslagi út af hléinu heldur breytingum út af þyngdartapinu. Rosalega er miklu skemmtilegra að skokka þegar maður er að grennast.

miðvikudagur, júní 01, 2005

Ný saga

Sællar minningar hóf ég að skrifa stutta skáldsögu upp úr áramótum. Ég gerði eitt áhlaup að henni í janúar og febrúar og lagði því síðan, um 30 síðum. Fór að glíma við smásögur en hætti við þær. Síðan byrjaði ég aftur um páskana og skrifaði þá 10 síður (ég skrifa núna allstórar síður, með sirka 450 orðum per. síðu). Gekk mér mun betur í þetta skipti enda hafði ég tekið heilan (og hlægilega óþarfan) krónískan sjúkdóm af aðalpersónunni. Engu að síður sá ég strax eftir páska ég hafði farið of hratt yfir sögu.

Næsta eina og hálfa mánuðinn fór ég að juða. Það gefst oft afskaplega vel fyrir mig að juða. Ég byrjaði upp á nýtt og skrifaði ofboðslega hægt, var sífellt að stoppa og byrja upp á nýtt og endurskrifa, lúsaðist áfram með upphafskaflann að sögunni. Hreint ágætan og stórskemmtilegan kafla. Í leiðinni varð beinagrindin til og þessi fyrsti kafli er einn af sex og líklega ekki nema um einn sjöundi af lesmáli bókarinnar. En hann gæti nánast staðið í bók, svo fínn er hann.

EN. Eftir fyrsta hlutann kom dálítið stopp. Ég varð veikur, varð ofboðslega eirðarlaus og átti erfitt með að byrja á öðrum kaflanum þó að ég væri búinn að leggja línurnar að honum. Svo fór ég að skrifa útvarpspistla.

Nú kemur bomban. Í millitíðinni hef ég fengið hugmynd að annarri nóvellu. Mjög góða og áleitna hugmynd.

Í augnablikinu hef ég ekki hugmynd um hvort nýja nóvelluhugmyndin fær að gerjast og skrifast á eftir hinni eða hvort ég ýti þessari til hliðar og byrja á þeirri nýju.

Það fyndna er að enginn veit um hvað hvorug sagan er svo lesendurnir (sem einhver segir að séu 80, segjum þá 81 með Tinnu í Eymundsson) munu í raun aldri vita hvernig þetta allt saman æxlaðist.

Í versta falli verð ég ennþá blaðrandi hér um sögur í smíðum eftir fimm ár og engin bók komin út.

Nei, ætli það.

þriðjudagur, maí 31, 2005

http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=43287 Segir HÁ. Hvað er satt og hvað er úr lagi fært í greinarflokki F.b.? Er áróðursmaskína ISG farin á fulla ferð eða eru HÁ og DO í vondum málum? Tjáið ykkur. Hefur ÁBS gaman af skammstöfunum? (Síðasta er aukaspurning)

Ég var 109 1/2 kg á heimilisvigtinni í morgun. Líklega er raunþyngd mín eitthvað hærri. Ég virðist hafa lést um 4 1/2 kíló í mánuðinum en það er þó erfitt að sjá það nákvæmlega því vigtin er gömul og tekur rykki fram og aftur. Ég þarf að staðfesta þetta á baðvigtinni í Vesturbæjarlauginni. Þar er líklegt að ég hafi dottið úr 116 kg til í 111-112. - Þó að þetta sé ekki mjög mikið þá er breytingin töluverð á mér til batnaðar. - Þetta gengur mjög vel og er ekki erfitt. Ef svona er erfitt þá gengur það yfirleitt ekki.

Ég hef engan hvítan sykur borðað í mánuðinum og lítið sem ekkert hveiti. Það er lykillinn, í þessum fæðutegundum eru fíklakolvetnin. Enginn verður óstöðvandi gráðugur af því að borða grænmeti, kjöt, ávexti, egg og margt fleira.

Hvers vegna hafa viðurkenndir næringarráðgjafar og einkaþjálfarar aldrei bent fólki á þessa leið? Hvers vegna getur þetta fólk aldrei hjálpað feitabollum og átvöglum? Það ráðleggur fólki bara að gera eins og það gerir sjálft, en fólkið sem leitar til þess getur ekki farið eftir slíkum ráðum - þar liggur hundurinn grafinn.

Svo bítur þetta lið höfuðið af skömminni með því að markaðssetja heilsusnakk sem er nánast fitandi, orkuríkt, hálfgerð kolvetnaspengja og síður en svo seðjandi. Hvernig á nokkur að verða grannvaxinn af því að maula naslið hennar Ágústu Johnsson? Það er mér fyrirmunað að skilja. Þetta er kannski hollt en gerir feitu fólki ekkert gagn.

Ég kláraði fyrsta pistilinn í kvöld. Ég veit reyndar ekki í hvað röð ég ætla að birta fyrstu pistlana sem ég skrifa. Ekki er hægt að segja að þessi sé hægri sinnaður. Hann er ekki pólitískur nema í þeim skilningi að allt sé pólitík, en e-n veginn finnst mér að hann myndi falla vinstri mönnum og anarkistum best í geð. Það var þó alls ekki markmiðið.

Bíðið spennt. Byrjið að hreinsa úr eyrunum. Kollegi ríður óbölvandi á vaðið á föstudaginn.

Hve glöð er vor æska

Litlir krakkar hrópuðu á eftir mér úti á götu í kvöld: Meistari - smeistari - skítafreistari.

Ég hló lágt og veifaði þeim. Þau veifuðu til baka.

mánudagur, maí 30, 2005

Um nýju tilvitnunina

Þegar ég var mjög langt kominn með handritið að síðustu bók átti ég í brösum með sögu sem hét Tvö hádegishlé en fékk á endanum nafnið Hádegishlé 1976. Í bókinni er mikið um myndbrot og minningar, fortíðin sífellt að lifna við í huga persónanna. Rúnar Helgi ráðlagði mér að breyta út af þessu stefi í þessari sögu og koma með framtíðarleiftur. Og það leiftur birtist hér að ofan. Sagan styttist mjög við endurbæturnar og varð langstysta sagan í bókinni. En í stað þess að reynast hálfgert vandræðabarn virðist hún vera með því sterkasta í bókinni, afar hnitmiðuð og mögnuð saga sem mörgum finnst óþægilegt að lesa.

Hér og nú

Er ekki fyrir löngu orðið tímabært að víkja dálítið að fræga fólkinu? Vel bar í veiði núna rétt í þessu á gönguferð minni um Þingholtin. Ég sá víðfrægan leikara og kvikmyndagerðarmann að leik með börnum. Eitt barnið sat í leikfangabifreið og sá frægi var að koma bifreiðinni af stað. Hann virtist bera kennsl á mig og varð við það nokkuð óstyrkur, eins og hann vissi að nú myndi hann rata í bloggið. En ég segi: "Þér hafið ekkert að óttast, kæri herra, enda aðeins gott eitt hægt að skrifa um yður."

Nú. Stuttu síðar sá ég fyrrverandi olíuforstjóra í garði sínum og hann var í kjólfötum. Nema hvað.

Vorið er að breytast í sumar og þess sjást merki á fasi fólks og indælum bæjarbragnum. Ekki spillir fyrir að við erum laus við bölvaða norðangoluna og loftið er orðið milt og rakt. Skúrunum bölva þó ungir málarameistarar, Sæmi frændi og félagi hans, en ég hitti þá á Laufásveginum. Þeir eru ekki frægir en fljóta hér með sökum ættartengsla.

Bara gaman að fá rigninguna áðan. Rigning í Reykjavík táknar yfirleitt hlýindi en sólskin kulda. Er annars alveg búinn að ná heilsu aftur og byrja líklega að skokka aftur annað kvöld. Léttist eitthvað í síðustu viku. Mánuðurinn slagar líklega upp í 5 kíló.

sunnudagur, maí 29, 2005

Ég hef verið að grauta í pistlum um helgina en í stað þess að klára einn er ég með þrjá í smíðum. Mér féllust eiginlega hendur við snilldartilþrif Guðna Elíssonar í Lesbókinni, svona eins og þegar Brian Wilson hlustaði á Bítlana. Huggaði mig þó við það að Bakþankar Fréttablaðsins um helgina virkuðu eins og hvert annað píp eftir þann lestur og kannski voru þeir það bara.

Annars hef ég ekki verið með sjálfum mér undanfarið en hvenær er maður það svo sem? Hvar er maður sjálfur? Og út í hvaða fen er ég kominn núna? Og hvað væmnishjal var þetta í mér um óvini á föstudaginn? Ég er óútreiknanlegur. Kannski á ég eftir að mala þau öll mélinu smærra.

Mér gengur illa að halda mér að verki. En seiglast þó áfram.

Kominn í vinnuna og nettengda tölvu degi á undan áætlun. Hef samt fátt að segja nema að ég hvet fólk til að lesa viðhorfspistil Guðna Elíssonar í Lesbókinni á laugardaginn. - Vírusinn er að fara úr mér og ég sleppi KR-FH í kvöld. Verð væntanlega orðinn endanlega góður á morgun.