laugardagur, október 14, 2006

Það er Ölstofukvöld hjá mér eftir margra mánaða hlé. Varla að ég tími kvöldinu samt. En um að gera að njóta þess.

Einhvern tíma, í 8 ára bekk í Landakotsskóla, vorum við að flétta körfur í handavinnutíma. Það var drepleiðinlegt og ég var klaufskur eins og í allri handavinnu. Einhvern tíma í herberginu mínu í Aberlestrasse í München, 1985 eða 6, rifjaðist þessi minning úr barnaskóla upp fyrir mér.

Núna rifjast upp fyrir mér minningin um að hafa í München rifjað upp körfufléttunina.

Ég geng oft framhjá Landakotsskóla.

Ég fór til München í vor og þar hafði fátt breyst - bara ég. Fólkið á kránum í háskólahverfinu var orðið að hálfgerðum smábörnum - en svoleiðis fólk hafði verið jafnaldrar mínir 85-86.

Í janúar fer ég líklega aftur til München. Ég ætti að vera að hugsa um Manchester en ekki München. Manchester verður án efa skemmtun, upplyfting, upplifun og smáviðurkenning. - München verður sköpun í indælli einsemd.

Ummæli Kidda Rót eru trúverðug og benda til þess að kallinn hafi verið hleraður. Stórmerkilegt. Næstum því jafnmerkilegt að hann sýnir bílstjóranum sínum miklu meiri trúnað en samráðherrum sínum. Eflaust er það ekki einsdæmi í stjórnmálasögunni.

Ég hef örlítið rætt um þetta við mér miklu fróðari menn og skv. þeim samtölum eru Bandaríkjamenn líklegir sökudólgar. Hef heyrt því fleygt að menn hafi jafnvel látið þetta yfir sig ganga, litið á það sem fórnarkostnað fyrir varnarliðið. Auðvitað bara tilgáta en ekki frá mér komin. - Ég óttast mest að þetta verði aldrei upplýst.

föstudagur, október 13, 2006

http://gudmundurmagnusson.blogspot.com/2006/10/ljsin-slkkt.html Mér fannst myrkvunin á dögunum eitthvað lykta af kommúnisma, svona í mínu fordómafulla hjarta vaknaði sú tilfinning. Hér er tengingin komin.

fimmtudagur, október 12, 2006

Mylsnueinvígi ÁBS og Guttesens - 2. hluti *

Hann var lengi að telja í sig kjark fyrir atvinnuleitina. Veigraði sér við að taka upp símann og hringja í menn. Þeir gætu orðið undrandi. Aðeins þeir sem best fylgdust með bókmenntalífinu gætu skilið að hann væri atvinnuþurfi. Aðrir tóku því sem gefnu að allt væri í sómanum. Fólk var búið að merkja hann í vitund sinni sem virtan og vinsælan rithöfund og það myndi ekki breytast þó að hann gæfi ekki út bók í mörg ár.



*Mylsna er textabrot úr skáldverki í smíðum, birt á blogg- eða heimasíðu höfundar. Mylsnueinvígi þarf ekki að fela í sér keppni, getur e.t.v. í einhverjum skilningi jafnast á við þann sið að kveðast á.

http://www.kistan.is/efni.asp?n=4900&f=1&u=14
"gæðir söguhetjuna mikilli og sérstæðri mannlegri reisn sem gerir Dagbók kameljónsins að afbragðsgóðri skáldsögu, þar sem þaulunninn söguþráður birtir smátt og smátt í hófstilltum litbrigðum manneskju í smæð sinni og reisn. "

Þetta segir Viðar Hreinsson í ritdómi um Dagbók Kamelljónsins eftir Birgittu Jónsdóttur, bók sem ég hef ekki lesið en kom út í fyrra. Þessi dómur er fyrst að birtast núna þegar nýtt jólabókaflóð er að skella á. Mig minnir að dómur Úlfhildar Dagsdóttur á bokmenntir.is hafi verið sambærilegur.

Viðar Hreinsson og Úlfhildur Dagsdóttir eru ansi hreint veigamikil nöfn í bókmenntaheiminum þó að eflaust séu þau ekki óskeikul. En hafi Birgitta sett saman afbragðsgóða bók í fyrra, sem allt bendir til, þá er þetta enn eitt dæmið um hvað erfitt er fyrir höfunda að fá verðskuldaða viðurkenningu nema að þeir séu markaðssettir með miklum hávaða. Þessi tvíblendingslega markaðs- og bókmenntavél sem byrjar að malla á haustin gerir bara ráð fyrir ákveðnum tegundum bóka sem eru gefnar út í ákveðnum búningi og umfram allt af ákveðnum forlögum. Og í seinni tíð þurfa þetta helst að vera spennusögur til að helstu bókmenntapáfar landsins nenni að fjalla um þær á áberandi hátt, nokkuð sem er alveg einstaklega furðulegt.

http://www.rholm.blogspot.com/ Raggi Hólm bloggar um hleranamál Jóns Baldvins. Önnur efsta færslan í augnablikinu.

Sko. Blaðra minna. Sanna meira.

Það gengur ekki að tefla fram nafnlausum og andlitslausum heimildarmönnum sem sönnun fyrir því að síminn manns hafi verið hleraður. Ekki er ég að rengja Jón Baldvin en hann verður að leggja fram sönnunargögnin þegar ásakanirnar eru svona alvarlegar. Mennirnir verða að stíga fram.

Ef ekki þá verður þetta bara afgreitt sem bull.

Og hvað kemur þetta Þjóðarhreyfingunni við?

miðvikudagur, október 11, 2006

http://www.bokmenntir.is/ritaskra.asp?cat_id=845&author_id=106&lang=1

Búið að fylla vel út í þennan pakka - býsna góð samantekt.

Sko. Hlera minna. Tala meira.

Jón Baldvin heldur því fram að síminn sinn hafi verið hleraður svo seint sem sirka 1992-1993. Að þessu hafi vinur hans með sérútbúnað komist. Halldór Blöndal heldur því fram að símar ráðherra hafi verið yfirfarnir reglulega með mögulega hlerun í huga og ekkert hafi komið fram.

Hér hefur einhver farið með fleipur. Kannski vinur Jóns Baldvins?

Það magnaðasta er að hann skuli ekki hafa gert veður út af þessu og gefið sér að Bandaríkjamenn væru að hlera símann hans. Hefur þetta þá alltaf verið raunveruleikinn í samskiptunum við Bandaríkjamenn? Að þetta væri það sem búast mætti við?

Neðangreint gekk nokkurn veginn eftir. En svona þyrfti maður helst að skrifa á hverjum degi.

þriðjudagur, október 10, 2006

The Great Icelandic Short Novel Nite!

  • Frekar auðveldum vinnudegi lokið
  • Svo vel sofinn að erfitt verður að sofna yfirleitt í nótt
  • Veit nákvæmlega hvað ég er að fara að glíma við
  • Hef kjallaraherbergið á Íslensku út af fyrir mig
  • Dásamleg rigning og kvöldmyrkur úti
  • Konu og börnum líður vel heima

Svo þetta er stóra kvöldið í vikunni, jafnvel mánuðinum. Nokkurra blaðsíðna kvöld.

  • Stressaður
  • Of mikið kaffi í hausnum
  • Eilífar efasemdir

Just do it.

mánudagur, október 09, 2006

Er ekki nokkuð ljóst að ríkisstjórnin er búin að drepa kosningamálið matarverð hjá stjórnarandstöðuflokkunum? Það fer að verða frekar fátt sem stjórnarandstaðan getur teflt fram af krafti auk þess sem það virkar yfirleitt ekki vel að stökkva upp á vinsældavagna.

Á hinn bóginn held ég að það sé hárrétt hjá Ingibjörgu Sólrúnu (Silfur Egils í gær) að verulegar líkur séu á því að stjórnin falli. Óvinsældir Framsóknar eru yfirþyrmandi og Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei fara yfir 40%, síst af öllu eftir 16 ára stjórnarsetu.

Vel má vera að gefa eigi stjórnarflokkum frí eftir svo langan tíma en þá er líka rétt að minna enn og aftur á að mikil endurnýjun hefur átt sér stað innan stjórnarflokkanna sjálfra og sérstaklega eru þær breytingar sannfærandi hjá Sjálfstæðisflokknum. Þar eiga sér stað raunveruleg umbrot sem allir skynja en alls ekki er verið að reyna að halda fram til kynningar. Ekkert er verið að rembast við að kynna nýja ásjónu flokksins heldur eru valdaskiptin öllum ljós.

sunnudagur, október 08, 2006

Ég verð mjög hugsi yfir prófkjörslistanum - vel og lengi. Hugsa að ég þegi yfir þeim hugsunum. En ég mun örugglega nota réttinn og tækifærið til að raða upp fólki.

Það sama gildir um trúmálin. Eitthvað hefur breyst í þeim efnum hjá mér á líðandi ári þó að seint myndi ég flokkast sem mikill trúmaður. En ég þegi yfir þessu og það er engan veginn af ótta við þá Vantrúarpilta sem mér virðist vera ágætur söfnuður.

Ég upplifði það í dag að sjá sjálfan mig í spegli án þess að gera mér grein fyrir því að það væri spegilmynd. Í a.m.k. hálfa sekúndu taldi ég mig vera að horfa á einhvern annan. Ég sat á kaffihúsinu í Smáralind, út við ganginn, og drakk kaffi á meðan Erla og Freyja voru að vasast í búðum. Þegar ég skyndilega leit um öxl blasti við mér þessi ókunnugi maður, í risastórum spegli sem ég gerði mér enga grein fyrir að væri þarna.

Tilfinningin sem ég náði að upplifa áður en ég áttaði mig á því hver þetta var, voru e-k ónot. Satt að segja mættu augu mín manni sem mér líkaði ekki við.

Ég hef raunar áður fundið fyrir þessari tilfinningu þegar ég skoða ljósmyndir af sjálfum mér: Að mér líki hreinlega ekki við sjálfan mig. En þó líkar mér óskaplega vel við að vera ég. Þetta er ekki birting slæmrar sjálfsmyndar Ég fíla alveg að vera þessi náungi - ég myndi bara ekki vilja vera einhver annar sem þarf að vera nálægt honum. Ég myndi líklega ekki vilja eiga neitt saman við mig að sælda, við þennan Ágúst Borgþór, ef ég væri einhver annar.