laugardagur, mars 29, 2008

Kaffihúsamál

Það er ekki amalegt fyrir aðdáanda illskýranlegrar stemningar að fá kaffihús/bar á horninu á Snorrabraut og Laugavegi. Staðurinn heitir Stúdíó eitthvað og er partur af hótelrekstri. Ekki laust við að hótelandrúmsloftið smitist inn á barinn sem gefur þessu alþjóðlega stemningu. Aðsóknin er þokkaleg í dag. Þetta er miklu betra en Kaffisetrið (sem er að flytjast þangað sem Kaffi Vín var áður), svartleðurklædd sæti, þráðlaus nettenging og innstungur.

Talandi um kaffihús. Súfistaangistin heltók marga upp úr áramótum en í febrúar opnaði Te og kaffi síðan stórfína kaffistofu í Mál og menningu, að sumu leyti betri en Súfistann en ekki að öllu leyti; Te og kaffi maturinn er t.d. óttalega karakterlaus og verksmiðjulegur. En Súfistinn verður opnaður í Iðuhúsinu fljótlega þannig að allt fer þetta eins og best verður á kosið.

Erla sótti Kjartan á Café Roma áðan. Áður hafði ég hlustað á dapurlegt samtal undirverktaka við undirundirverktaka sem fjallaði um vangoldin laun sem áður voru e.t.v. ofgoldin, eða svo sagði umræddur og fjarstaddur yfirverktaki. Þetta voru óskaplega niðurdrepandi samræður, angist og pirringur fyllti loftið, en samt gat ég ekki stillt mig um að nema hvert einasta orð. Undirverktakinn virtist hafa hreppt sitt en ekkert var eftir handa undirundirverktakanum og Pólverjunum fjarstöddum sem vinna undir honum.

Hér á nýja barnum er eigandinn að tala um húseignir sínar í miðbænum og mismunandi góða leigjendur. Sumir þeirra eru Pólverjar og Litháar.

Verður nýja fjölmenningarísland það sama með haustinu þegar kreppan á að fara að bíta okkur virkilega fast?

Hvað um það þá var erlendur maður, líklega Portúgali, að mæta hér á fyrstu vaktina sína. Hann og eigandinn kynna sig hvor fyrir öðrum og sá útlendi segir: "My name is Santiago." Síðan klæðir hann sig í svartan bol, sem er alveg eins og sá sem stelpan er í, sem afgreiddi mig rétt áðan. Og nú sé ég hvað staðurinn heitir, það er hvít áletrun framan á bolunum: "Studio 29." - Hvers vegna? Varla er það húsnúmerið.

Stelpan er að leiðbeina þeim nýja. "This is espresso", segir hún og byrjar að laga í bolla, flóa mjólk e.t.c.

Ég er búinn að reyna að enda þessa færslu ansi oft. Hún minnir mig á langdreginn (en skemmtilegan) endi á lagi með hinum frábæra jazzbassagítarleikara Stanley Clarke. Það var á vinýlplötu sem ég átti upp úr 1980 og er löngu komin á haugana og þaðan inn í einhverja hringrás sem ég kann ekki skil á.

Ende.

Málfrelsissjóður til styrktar Hannesi Hólmsteini

Hannes Hólmsteinn hefur ekki gert neitt sem verðskuldar samtals (tvö dómsmál) margra milljóna ef ekki tugmilljóna sektir og hugsanlegt gjaldþrot í kjölfarið. Svo ég er með eftir helgi. En mitt framlag verður auðvitað dropi í hafið. Hvet réttsýnt fólk sem annt er um tjáningarfrelsið til að slást í hópinn.

En hvað með Gauk kvikmyndargerðarmann og fleiri? Það veitir ekki af nokkrum málfrelsissjóðum.

Var ég búinn að lofa einhverjum pistli hérna um frásagnartækni? Vel má vera að það sé eitt af því sem ég vil halda fyrir sjálfan mig. Kemur í ljós.

Vikulega heimsóknin á Café Roma er nokkuð sérstæð. Erla var farin á skíði og það var eitthvert óyndi og ófélagslyndi í Kjartani svo ég frelsaði hann úr vinahópnum og við hjóluðum saman upp á Hlemm með tvær tölvur í farteskinu.

Annars er þetta dáldið "sjaldan er ein báran stök" helgi. Í gær datt opnanlegt fag út úr stofuglugganum og þá virtust góð ráð dýr fyrir óhandlagnasta mann hverfisins. Ég þurfti að sníkja stiga af nágrannanum og fá síðan bróðurson minn til að hjálpa mér.

Í dag uppgötva ég að p-ið á lyklaborðinu á fartölvunni minni stendur eitthvað á sér.

Hvar endar þetta?

En Kjartan er reyndar þægur og ég get skrifað. Svo er þetta eitthvað svo gaman.

Í bloggfríinu mínu las ég tvær nýjar íslenskar smásögur, mjög ólíkar, báðar glöddu geð mitt. Önnur var "Egg úr sal" eftir Óskar Magnússon sem birtist í Lesbókinni seint í febrúar. Frábærlega fyndin og raunveruleg saga. Hin sagan er "Þorpið á botni hafsins", einstaklega heillandi og áhrifamikil saga eftir Steinar Braga og birtist í fyrsta hefti TMM þessa árs.

Ég nota dálítið innantóm lýsingarorð um þessar sögur vegna þess að ég nenni ekki að greina þær hér. Hvet ykkur til að lesa þær.

Góða helgi.

föstudagur, mars 28, 2008

Tímar aðgerðaleysis

Átti maður að hlæja eða gráta yfir viðtalinu við Gísla Martein og Dag Eggerts úti á Hverfisgötu í Kastljósinu í gærkvöld?

Kannski hlæja og gráta.

Þeir stóðu fyrir framan viðbjóðslegan, útkrotaðan og niðurníddan húskofa, einn af ótalmörgum í miðborginni. Dagur er í svona léttum grobbstjórnarandstöðuham þess efnis að ástandið hefði verið skárra í dag 100 dagana hans. Gísli Marteinn viðurkenndi að of mikið væri blaðrað í nefndum og stýrihópum og of lítið gert en maður fékk sterklega á tilfinninguna að þannig yrði það áfram.

Þeir máttu eiga að þeir voru ágætlega klæddir - í æpandi mótsögn við húskofana.

Sú skoðun sérfræðinga virtist ekki hafa náð til þeirra að það sé marklaust og fráleitt að vernda hús og hús. Ákvörðun um allsherjarskipulag á Laugaveginum og í nágrenni er það sem gildir og langskynsamlegast virðist að byggja í gömlum stíl. Verndun húsa sem slíkra finnst mér vera óþörf, aðalatriðið er heildaryfirbragðið, byggingarlag þeirra húsa sem standa eiga á þessu svæði, hvort sem þau eru uppgerð, endurgerð eða nýbyggð.

Er nokkur minnsta von til þess að núverandi furðumeirihluti í borgastjórn geti tekið af skarið og komið þessum málum í höfn? Gulrótin er kosningasigur, nokkuð sem í dag virðist mjög fjarlægt fyrir báða flokka sem hafa meirihluta í borginni.

þriðjudagur, mars 25, 2008

Afsakaðu að ég vildi taka í höndina á þér

Ungur Svíi tekur múslímatrú í fangelsi. Líf hans var í rugli og hann skorti stjórn og festu. Honum þótti önnur trúarbrögð full af kjaftæði en í Kóraninum var honum sagt hvernig hann ætti að haga lífi sínu, frá a til ö.

Löngu síðar, sem frjáls borgari, reynir hann að heimsækja grunaðan hryðjuverkamann í fangelsi og þarf að eiga fund með tveimur konum af því tilefni. Við upphaf fundarins réttir önnur konan honum höndina en hann tekur ekki í hana heldur segir: "Ég er íslamstrúar." Konan biður hann afsökunar.

Sem ég horfi á þetta á skjánum þykir mér atvikið afar ógeðfellt. Ef ég væri kona hefði ég kannski sparkað í sjónvarpið.

Ég ætla ekki að sökkva mér niður í rannsóknir á Íslam til að kveða upp úr um hvað er rétt túlkun á Kóraninum. Ég veit bara að sú túlkun sem er ógeðfelld, forneskjuleg og kvenfjandsamleg veður víða uppi. Sá sem lýsir óbeit sinni á slíkri túlkun á Íslam er gjarnan settur í flokk með rasistum sem hafa uppi fordóma gegn útlendingum á Íslandi.

En ég hef aldrei sagt stakt orð sem gefur til kynna andúð á útlendingum á Íslandi. Ég hef áhyggjur af uppgangi öfgafulls Íslams víða í Evrópu, t.d. á Norðurlöndum og í London. Slíkar áhyggjur hafa ekkert að gera með meint útlendingavandamál á Íslandi.

Í hópi þúsunda, ef ekki tugþúsunda, manna frá Austur-Evrópu sem hér sækja vinnu, hljóta að vera glæpamenn. Í hópi þúsunda og tugþúsunda Íslendinga eru glæpamenn. Ég get haft áhyggjur af glæpum á Íslandi og viðbúnaði lögreglu almennt til að takast á við jafnt aðflutta sem innfædda glæpamenn. En það gerir ekki aðflutta starfsmenn sem slíka að vandamáli.

Fjölmenning snýst um það að heimamenn aðlagi sig að menningu innflytjenda jafnt og innflytjendur aðlagi sig að menningu heimamanna. Það er ekki óeðlilegt markmið þegar ekki strandar á grundvallaratriðum. En að laga sig að eða umbera trúarofstæki og kvenfyrirlitningu er fásinna.

Þegar maður er kallað afturhald fyrir slíka afstöðu er verið að kalla mann afturhald fyrir að snúast gegn afturhaldi.

mánudagur, mars 24, 2008

Café Roma á Eyjunni

Það gerðist ítrekað misserin mín á Vísisblogginu að ég hjólaði upp á Rauðarárstíg, settist inn á Café Roma (sem í raun réttri telst til Laugavegar), kveikti á fartölvunni og bloggaði. Ég hætti hins vegar um áramótin og nú tæpum þremur mánuðum síðar er ég að detta inn á Eyjuna. Á nákvæmlega þessari stundu er ég staddur á þessu sama ágæta kaffihúsi en gamla blogspot-síðan mín færist hingað á Eyjuna. Vel má vera að fyrstu færslurnar hér munu ekki leiftra af sömu stílsnilldinni og margt sem ég bloggaði áður því ég skynja þegar í byrjun að ég er ryðgaður í þessu formi.

Allir vita hvers vegna ég hætti og hafa hlegið að því upp í opið geðið á mér. Bókin mín seldist í 200 eintökum. Líklega munu um 1000 manns taka hana að láni á bókasöfnum á þessu ári (miðað við útlán hingað til). Þetta er mín staða. Ég er rithöfundur. Ég á lesendur en þeir eru ekki ýkja margir enn sem komið er. Auðvitað er engan veginn útséð með minn rithöfundarferil. Menn eldast vel í þessu fagi, ég er 45 ára og er við góða heilsu. Ég kann nú orðið ýmislegt fyrir mér í ritlistinni og á eftir að láta mikið að mér kveða í framtíðinni.

En engu að síður er það þannig að þegar ég gef út bók er niðurstaðan yfirleitt svona frekar vinsamlegt tómlæti. Hingað til, það er að segja. "Æ, það er svo mikið af rithöfundum og bókum", hugsa ég þá.

Á hinn bóginn er það líka staðreynd að þegar ég blogga dreg ég að mér athygli. Bloggarar eru hins vegar miklu fleiri en rithöfundar, þeir skipta líklega tugum þúsunda hérlendis. Af einhverjum ástæðum hef ég aldrei runnið saman við þann massa heldur alltaf skorið mig úr og það án þess að reyna nokkuð beinlínis til þess.

Það þýðir lítið að velta vöngum yfir þessu. Bara halda áfram. Að skrifa sögur og blogga. Því mér varð fljótt ljóst að ég vildi halda áfram blogginu. En ég vildi líka breyta til. Ég talaði við Eyjuna fyrir stuttu. Þeir tóku vel á móti mér og létu teikna af mér þessa fínu mynd.

Ég hef ekkert að segja um hrun krónunnar og yfirvofandi kreppu. Aðrir gera því góð skil og ég les af áhuga. Mig langar hins vegar að fjalla dálítið um frásagnartækni á næstunni. Það verður ekki þungmelt en er efni næsta pistils sem birtist í síðasta lagi eftir viku.