laugardagur, febrúar 17, 2007

Ég tel nánast útilokað að framleiðendur löglegs klámefnis, sem halda ráðstefnur og hvaðeina, séu viðriðnir barnaklám eða yfirleitt nokkuð ólöglegt. Hins vegar er klámmyndaframleiðsla ólögleg á Íslandi og því hljóta hugsanlegar klámmyndatökur hópsins hér á landi að vera ólöglegar. Ég efast hins vegar um að ráðstefnan sem slík ólögleg.

Þeir sem berjast gegn ofbeldi gegn konum þurfa að gæta þess að fá ekki á sig almennan púritanastimpil. Það skemmir fókusinn.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Ég er að endurskrifa lokahluta sögunnar sem fjallar um unga konu. Þó að sagan sé í 3. persónu þarf ég að breyta málsniðinu á henni, málfarið er of fágað, en samt má ég ekki detta niður í eitthvert slangur - þetta er reyndar frekar auðvelt, ég skynja alveg hvar tónninn liggur. En ég hef eitthvað bitið það í mig að það sé gott fyrir mig að vera eitthvað nálægt mér yngra fólki á meðan ég skrifa þetta og þess vegna hef ég verið að breyta um kaffihús; gef t.d. Súfistanum frí en er að uppgötva Prikið sem er undarlegur staður, bæði eldgamall og nýr. Hann er einhvern veginn bæði fyrir minn tíma og eftir minn tíma.

Það er gaman hérna og útsýnið af efri hæðinni er skemmtilegt þó að það sé ekki vítt.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Talið við Viggó aftur

Við vorum að kryfja handboltavandann, ég og vinnufélagi, og eftir að hafa farið hringinn var niðurstaðan óhjákvæmileg: Það eru bara tveir Íslendingar hæfir til að þjálfa landsliðið, Viggó Sigurðsson og Alfreð Gíslason. Þetta eru bestu íslensku handboltaþjálfararnir enda búnir að sanna sig í bestu deild í heimi, í Mekka handboltalands, Þýskalandi, þar sem sterkustu liðin spila og nýkrýndir heimsmeistarar búa.

Gott og vel. Viggó sagði starfinu lausu. Viggó er skapstór. Hann lenti illa í pressunni sem hamaðist alltof mikið í honum og blés upp einhver ómerkileg atvik.

Skapstærð Viggós hefur án nokkurs vafa nýst landsliðinu vel og æst það upp. Hann tók við liðinu á hárréttum tíma og hleypti nýjum mönnum að.

Viggó er á lausu. Talið við hann aftur. Hann er ekki gallalaus en hann er besti kosturinn ef Alfreð hættir.

Ef ekki - finnið þá útlending. Hvað er Bengt Johannsson að gera? Eða Mats Olson? - Ég er hrifnastur af Svíum og Þjóðverjum hvað handbolta snertir.

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

http://hafstein.blog.is/blog/hafstein/entry/121732/ Pétur Hafstein Lárusson hittir naglann á höfuðið um Byrgið og Breiðuvík, sérstaklega Breiðuvík. Ég hef a.m.k. alltaf vitað að drengir voru beittir þar ofbeldi og ég held að allir hafi alltaf vitað það. En það var bara einhvern veginn ekkert móment til að slá því upp fyrr en skyndilega núna.

Hvað segiði, er Stefán Máni farinn að blogga?

mánudagur, febrúar 12, 2007

Bjarg

DV reið á vaðið með umfjöllun um Breiðuvík en fyrri greinin var þó af einhverjum ástæðum frekar litlaus. Fremur stutt umfjöllun blaðsins um stúlknaheimilið Bjarg er hins vegar mjög áhugaverð og vel unnin.

Bjarg er málefni sem dylgjað hefur verið um í samfélaginu lengi en þrátt fyrir uppnám út af því á sínum tíma hefur það aldrei verið til lykta leitt.

Slíkt á að gerast núna og fjölmiðlar verða að fylgja þessu máli til enda.

Mikilvægt er að hafa í huga að gerendur eiga sér líka málsbætur og voru að einhverju leyti leiksoppar úreltra viðhorfa og úrelts tíðaranda.

Engu að síður eiga þeir að horfast í augu við þessa fortíð sína. Einhver gæti átt eftir að glata virðingu sinni í samfélaginu á efri árum. En þá hefur viðkomandi guð og ætti að vita að allt annað er veraldlegur hégómi, skv. eigin viðhorfum. Viðbrögðin við spurningum blaðamanns koma hins vegar skelfilega út á síðum blaðsins.

Sterk áhrif feminisma í samfélaginu gætu hamlað Bjargsuppgjöri: konur beita ekki ofbeldi, allra síst kynferðislegu - þetta er sterk mýta. Ekki bætir úr skák að þarna er lagt til atlögu við eitt af höfuðvígjum feminismans á Íslandi.

Bjargsmálið hefur þó ekkert með kynjaumræðu að gera heldur snýst um ofbeldi gegn börnum í skjóli viðhorfa sem nú teljast úrelt.

Fáum allan sannleikann á borðið en forðumst dómhörku.

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Flautað til síðari hálfleiks. Eða framlengingar?

Drottinn minn dýri, ég fékk svo snilldarlega hugmynd í kvöld, svo gjörsamlega nákvæmlega það sem mér þurfti að detta í hug! Við Erla höfðum rætt fram og aftur í bílnum vandamál í handritinu mínu og mögulegar lausnir (hún hefur aldrei áður tekið svona mikið þátt í þessu, en henni hefur líka aldrei áður fundist efni eftir mig jafnskemmtilegt og þessi saga) og þó að sumar lausnirnar hljómuðu vel voru þær allar of gallaðar.

Svo kom lausnin undir kvöldið eftir að Erla haf'i keyrt mig á kaffihús og farið að leigja spólur með börnunum. Snilldarlausn. Hafi ég ekki verið orðinn endanlega sannfærður um eigin hæfileika þá er allur efi rokinn úr mér núna.

Þetta verður vægast sagt skemmtilegur endasprettur á verkinu.

Jonna systir er fimmtug á morgun. Ég verð veislustjóri og segi nokkur orð um afmælisbarnið.

Ég skrifaði grein á vettvang.net fyrir stuttu og hef af einhverjum ástæðum ekki fengið mig til að birta hana hér. Eiríkur Örn bloggaði hins vegar um hana rétt fyrir helgi.

Ég er að drekka Jack Daníels. Það er dásamlegur lúxus að vera hófdrykkjumaður.

Ég hef hins vegar ekki borðað sætindi síðan í september 2005.

Ég er sammála SOS í Mogganum um að það á að ráða erlendan þjálfara fyrir handboltalandsliðið eftir að Alfreð lætur af störfum. Ég er líka sammála honum um að aðeins tveir Íslendingar séu hæfir til að stjórna þessu liði: Alfreð og Viggó Sigurðsson. Guðmundur Guðmundsson kemur síðan næst þeim. - Eru þekktir erlendir handboltaþjálfarar spenntir fyrir því að þjálfa Íslendinga? Það hlýtur að vera dálítið spennandi markmið fyrir útlending að koma Íslendingum á verðlaunapall, allir sem fyglgjast með alþjóðlegum handbolta vita hvað býr í þessu liði sem í augnablikinu er það 8. besta í heiminum.

Svíi, Rússi eða Þjóðverji. Þetta eru mestu handboltaþjóðirnar.