Drottinn minn dýri, ég fékk svo snilldarlega hugmynd í kvöld, svo gjörsamlega nákvæmlega það sem mér þurfti að detta í hug! Við Erla höfðum rætt fram og aftur í bílnum vandamál í handritinu mínu og mögulegar lausnir (hún hefur aldrei áður tekið svona mikið þátt í þessu, en henni hefur líka aldrei áður fundist efni eftir mig jafnskemmtilegt og þessi saga) og þó að sumar lausnirnar hljómuðu vel voru þær allar of gallaðar.
Svo kom lausnin undir kvöldið eftir að Erla haf'i keyrt mig á kaffihús og farið að leigja spólur með börnunum. Snilldarlausn. Hafi ég ekki verið orðinn endanlega sannfærður um eigin hæfileika þá er allur efi rokinn úr mér núna.
Þetta verður vægast sagt skemmtilegur endasprettur á verkinu.
Jonna systir er fimmtug á morgun. Ég verð veislustjóri og segi nokkur orð um afmælisbarnið.
Ég skrifaði grein á vettvang.net fyrir stuttu og hef af einhverjum ástæðum ekki fengið mig til að birta hana hér. Eiríkur Örn bloggaði hins vegar um hana rétt fyrir helgi.
Ég er að drekka Jack Daníels. Það er dásamlegur lúxus að vera hófdrykkjumaður.
Ég hef hins vegar ekki borðað sætindi síðan í september 2005.
Ég er sammála SOS í Mogganum um að það á að ráða erlendan þjálfara fyrir handboltalandsliðið eftir að Alfreð lætur af störfum. Ég er líka sammála honum um að aðeins tveir Íslendingar séu hæfir til að stjórna þessu liði: Alfreð og Viggó Sigurðsson. Guðmundur Guðmundsson kemur síðan næst þeim. - Eru þekktir erlendir handboltaþjálfarar spenntir fyrir því að þjálfa Íslendinga? Það hlýtur að vera dálítið spennandi markmið fyrir útlending að koma Íslendingum á verðlaunapall, allir sem fyglgjast með alþjóðlegum handbolta vita hvað býr í þessu liði sem í augnablikinu er það 8. besta í heiminum.
Svíi, Rússi eða Þjóðverji. Þetta eru mestu handboltaþjóðirnar.