Stækkar Óskar Árni lesendahópinn?
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
Nýtt TMM var að koma út, það síðasta sem Silja ritstýrir. Þar er ný smásaga eftir mig, Stolnar stundir, heitir hún. Auk þess er að finna þarna frekar jákvæðan ritdóm um Hliðarspor, skáldsögu sem kom út eftir mig í fyrra, en hún er ritdæmd í sömu grein og önnur bók, Tímavillt eftir Berglindi Gunnarsdóttur.
Björgólfur Guðmundsson virðist vera eini maðurinn á landinu sem ekki gerir sér grein fyrir því að þjóðin mun þurfa að blæða fyrir Icesave.
Fékk viðtal við Gunnar Harðarson í HÍ í dag. Við athugun okkar kom í ljós að ég er nánast búinn með alla heimspekikúrsa miðað við 120 einingar og þýsku sem aukafag upp á 60 einingar. Ég þarf því að komast í einhverja þýskukúrsa eftir áramót - og skrifa BA-ritgerð. Gunnar sagði að ég ætti að byrja bara strax á ritgerðinni. Eitthvað örlítið maldaði ég móinn fyrst, það væri svo langt síðan ég hefði lesið heimspeki af viti. Hann blés eiginlega á það. Nánast um leið og ég kvaddi Gunnar var ég búinn að fá hugmynd að ritgerðarefni og um leið og ég mætti aftur í vinnuna hringdi ég í Rúnar Helga til að fá lánaða hjá honum Um skáldskaparlistina eftir Aristóteles og byrjaði að gúggla upp greinum á netinu. Ég ætla að lesa um efnið fram að áramótum og skrifa ritgerðina í janúar.
http://www.visir.is/article/20081111/FRETTIR01/216688604/-1
Klárið þetta mál og borgum vænan hlut af innistæðunum.
Þetta kreppuástand er slappasta bloggtímabilið mitt. Ég hef alltaf notið mín best í tíðindaleysinu í þessari friðsömu góðæristíð þegar smámál fengu að njóta sín og ekki var nákvæmlega það sama efst á baugi dag eftir dag.
Mér þykir það verulega stór frétt að næstum fjögur þúsund manns komi saman í miðbæ Reykjavíkur til að mótmæla stjórnvöldum (og vonandi fjármálafurstum). Þetta er ansi stórt hlutfall af örsamfélagi. Menn ættu að bera þetta saman við mannfjölda í mótmælum erlendis. Meint skrílslæti virðast hafa verið tittlingaskítur, átökin til dæmis miklu minni en hjá trukkabílstjórunum í sumar en þeirra mótmæli áttu sér miklu veikari grundvöll en mótmæli almennings núna.