föstudagur, nóvember 14, 2008

Stækkar Óskar Árni lesendahópinn?


Ég fékk þessa ágætu bók póstsenda og áritaða um daginn, Skuggamyndir - úr ferðalagi, eftir Óskar Árna Óskarsson. Höfundur hefur lengi verið í uppáhaldi hjá fagurkerum á borð við mig, með sínum látlausu myndum af litlu hlutunum í tilverunni, myndum oft hlöðnum mystík og fortíðarþrá. Nú þykir mér hins vegar líklegt - þó að raunar sé útilokað að spá um slíkt - að lesendahópur Óskars Árna eigi eftir að vaxa verulega með þessari nýju bók. Smáprósarnir í henni hafa nefnilega mun víðari skírskotanir en fyrri verk höfundar. Hann segir hér sögur af forfeðrum sínum ýmsum þar sem einna mest kemur við sögu skáldið Magnús Stefánsson aka Örn Arnarson. Textarnir í bókinni eru meira og minna í samhengi þar sem sögu persónanna vindur áfram, texta af texta. Lýst er fátæku en þrautseigu fólki, svipmiklum örlögum. Komið er víða við á landsbyggðinni og úr verður ferðalag skálds í senn vítt og breytt um landið og inn í þjóðarsögu. Verkið er sérstæð blanda af örsagnasafni, ættarsögu, sagnaþáttum og skáldsögu. Textarnir í bókinni eru auk þess venju fremur grípandi og halda lesendum föngnum.
Það verður semsagt fróðlegt að sjá gengi þessarar bókar á næstunni en umfram allt ánægjulegt að geta blaðað í henni aftur og aftur á næstu misserum og fengið innblástur.

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Meira af einkamálunum

Nýtt TMM var að koma út, það síðasta sem Silja ritstýrir. Þar er ný smásaga eftir mig, Stolnar stundir, heitir hún. Auk þess er að finna þarna frekar jákvæðan ritdóm um Hliðarspor, skáldsögu sem kom út eftir mig í fyrra, en hún er ritdæmd í sömu grein og önnur bók, Tímavillt eftir Berglindi Gunnarsdóttur.

Varðandi markmið mín um BA-próf í heimspeki og þýsku er staðan sú að í heimspeki á ég eftir tvo litla byrjendakúrsa og BA-ritgerð. Annan kúrsinn, forspjallsvísindi, tek ég núna eftir áramót en hinn verð ég að taka næsta haust. Ég á alla þýskuna eftir og virðist mér að ég geti skráð mig í þrjú þýskunámskeið nú á vormisseri sem gefa samtals 15 einingar.

Ég hef þegar fengið hugmynd að BA-ritgerðarefni og er byrjaður að lesa undir ritgerðina. Mun því líklega ljúka henni snemma á næsta æri.

Ég mun lifa af harki og því sem ég á fyrir, vil þó helst ekki ganga á reiturnar. Hef þegar samið um eitt ritlistarnámskeið sem ég held eftir áramót.

Ég þigg með þökkum lausaverkefni við hæfi, prófarkalestur, textagerð og þýðingar úr ensku og þýsku - eða eitthvað annað. Ég er fljótvirkur, vandvirkur og ódýr en vil bara skipta við aðila sem eru borgunarmenn.

Óforbetranlegir fjármálamenn

Björgólfur Guðmundsson virðist vera eini maðurinn á landinu sem ekki gerir sér grein fyrir því að þjóðin mun þurfa að blæða fyrir Icesave.

Afneitunin er botnlaus.

Við getum ekki leyft þessu mönnum að vasast í stórtækri fjármálastarfsemi framar.

Ein Student

Fékk viðtal við Gunnar Harðarson í HÍ í dag. Við athugun okkar kom í ljós að ég er nánast búinn með alla heimspekikúrsa miðað við 120 einingar og þýsku sem aukafag upp á 60 einingar. Ég þarf því að komast í einhverja þýskukúrsa eftir áramót - og skrifa BA-ritgerð. Gunnar sagði að ég ætti að byrja bara strax á ritgerðinni. Eitthvað örlítið maldaði ég móinn fyrst, það væri svo langt síðan ég hefði lesið heimspeki af viti. Hann blés eiginlega á það. Nánast um leið og ég kvaddi Gunnar var ég búinn að fá hugmynd að ritgerðarefni og um leið og ég mætti aftur í vinnuna hringdi ég í Rúnar Helga til að fá lánaða hjá honum Um skáldskaparlistina eftir Aristóteles og byrjaði að gúggla upp greinum á netinu. Ég ætla að lesa um efnið fram að áramótum og skrifa ritgerðina í janúar.

Í febrúar byrja ég að kenna ritlistarnámskeið hjá Mími.

Annað er nokkuð óljóst, fyrir utan að ólíklegt er að ég verði starfsmaður Íslensku auglýsingastofunnar í framtíðinni nema kannski í hlutastarfi.

Mig langar inn í aðra hversdagsveröld en sinna skáldskapnum áfram. Er með skáldsögu í smíðum sem mætti ganga hraðar en ég held ég sé þó að ná tökum á henni aftur. Það mun hins vegar líklega sannast með þessa BA-ritgerð að ég er fljótur að skrifa allt nema skáldskap, hann tekur mig alltaf langan tíma.

Mig langar til að verða kennari, bara alls ekki barnakennari. Mér finnst gaman að tala fyrir sal af fólki enda naut ég þess út í ystu æsar að halda gestafyrirlestur um auglýsingatextagerð í Háskólanum um daginn. Ég átti eftir að segja ykkur frá því. Maður hefur verið svo upptekinn af þessu kreppuvæli að ég er hættur að blogga um sjálfan mig. Einhvern tíma hefði ég bloggað samdægurs um slíkan atburð.

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Stoltenberg

http://www.visir.is/article/20081111/FRETTIR01/216688604/-1

Ein af fáu uppörvandi fréttum undanfarið. Er Stoltenberg að eyða meira púðri í að tala máli Íslendinga en Geir Haarde? Það mætti halda það.

Semjið um Icesave

Klárið þetta mál og borgum vænan hlut af innistæðunum.

Fáum síðan lánin sem við þurfum.

Við getum ekki sagt okkur úr lögum við aðrar þjóðir - þá veslumst við bara upp.

Leyfum þeim mönnum sem bera ábyrgð á Icesave aldrei að koma nálægt bankarekstri aftur. Þeir ættu aldrei að koma nálægt viðskiptum á Íslandi aftur.

mánudagur, nóvember 10, 2008

Allt hverfur í skuggann

Þetta kreppuástand er slappasta bloggtímabilið mitt. Ég hef alltaf notið mín best í tíðindaleysinu í þessari friðsömu góðæristíð þegar smámál fengu að njóta sín og ekki var nákvæmlega það sama efst á baugi dag eftir dag.

Í rauninni er ég alveg tilbúinn að verða aftur góður bloggari í kreppu, en þetta ástand núna er ekki bara kreppa heldur æpandi óvissa. Þegar menn drulla sér loksins til að taka ákveðna stefnu og við vitum nokkurn veginn afleiðingarnar af offjárfestingum hrokafullra plebba og innistæðuránum Icesave-glæpahunda, þá get ég farið að blogga um dagleg málefni í breyttum veruleika. Það er hægt að laga sig að breyttum veruleika en það er erfitt að halda jafnvægi þegar maður veit ekki hvernig ástandið er eða verður.

Núna hugsa og tala allir um það sama, alla daga, og leita í ofvæni eftir upplýsingum sem ekki fást.

Ég held að við eigum og munum semja um að gera upp hluta af Icesave-reikningunum.

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Mannfjöldinn er fréttin - ekki eggjakastið

Mér þykir það verulega stór frétt að næstum fjögur þúsund manns komi saman í miðbæ Reykjavíkur til að mótmæla stjórnvöldum (og vonandi fjármálafurstum). Þetta er ansi stórt hlutfall af örsamfélagi. Menn ættu að bera þetta saman við mannfjölda í mótmælum erlendis. Meint skrílslæti virðast hafa verið tittlingaskítur, átökin til dæmis miklu minni en hjá trukkabílstjórunum í sumar en þeirra mótmæli áttu sér miklu veikari grundvöll en mótmæli almennings núna.