Hvern andskotann eru stjórnarflokkarnir að púkka upp á sértrúarsöfnuði? Eru þetta bandarísk áhrif? Sjá DV í dag.
Bloggsíða Ágústs Borgþórs
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
föstudagur, ágúst 13, 2004
fimmtudagur, ágúst 12, 2004
Það er dálítið erfitt að átta sig á réttu og röngu í heimi hinna pólitískt réttrúuðu. Sverri Jakobsson hefði ég talið í hópi þeirra. Hann skrifar að mörgu leyti þarfa grein um refsigleði í bandarísku réttarkerfi en eyðileggur hana síðan með eftirfarandi dæmi:
"Í Bandaríkjunum þykir sjö og hálfs árs fangelsi hæfileg refsing fyrir kennslukonu sem „tældi“ 12 ára strák. Sá maður er nú orðinn fullorðinn og gerir sér enn ekki grein fyrir því að hann sé fórnarlamb. En hver veit nema að hann hafi orðið fyrir ósýnilegum sálrænum skaða út af þessu? Var ekki réttast að senda þessa kennslukonu í langa fangavist, svona til vonar og vara?"
Hefði pólítískt réttrúaður getað hugsað sér að tilfæra svona dæmi með karlmann í hlutverki kennarans? Hvað köllum við karlkennara sem tæla 12 ára nemendur sína? Barnaníðinga.
Hefði ég haft gott af því að hafa mök við kennarann minn þegar ég var í 12 bekk í Landakotsskóla? Ansi er ég hræddur um að veröld mín hefði farið á hvolf.
Er þetta línan á hinu feminíska, samfylkjaða og vinstrigræna svæði?
Er konum allt leyfilegt í kynferðismálum en körlum ekki?
þriðjudagur, ágúst 10, 2004
Jónas Kristjánsson kallar stjórnarliða sirka 10 sinnum fasista í leiðara DV í dag. Inn í fúkyrðaflaum sinn fléttar hann ósmekklega veikindum Davíðs Oddssonar. Fyrir afar mörgum árum dáðist ég að ritstíl Jónasar en ofstækið spillti smám saman skrifum hans og gerði þau ótrúverðug enda hámarksbölsýni leiðarljósið í öllum málum. Núna virðist hann vera búinn að laga leiðaraskrif sín að öðrum standardi DV á slæmum degi.
Þegar ég var mjög ungur, grannur og hálfvangefinn, starfaði ég sem "kennari" í Skagafirði, raunar aðeins með stúdentspróf. Þetta var nokkru áður en hugtakið leiðbeinandi kom til sögunnar í grunnskólakerfinu. Ég hélt til á Hofsósi, fór nokkuð oft til Siglufjarðar og stundum til Sauðárkróks. Núorðið fer ég ekki oft á þessar slóðir en því fylgir hins vegar alltaf nokkur tilhlökkun, vegna minninganna og þess hve Skagafjörðurinn er glæsilegur og heillandi með sínum dulrænu litum í fjöllum og klettaeyjum. Héraðsvötnin eru líka ákaflega falleg. Ég gleymi því hins vegar alltaf að nútíminn er líka úti á landi og ómeðvitað finnst mér ég vera að á leiðinni inn í þessa fortíð frá miðjum 9. áratugnum þegar við keyrum í gegnum Skagafjörð og endum á Pæjumótinu á Siglufirði. Á Siglufirði er t.d. urmull af kaffihúsum, nokkuð sem tæpast þekktist áður, og fólk gengur um bæinn með eðalkaffi í lokuðum pappaglösum líkt og á Laugaveginum. Raunar var Siglufjörður óvenjulega líflegur þessa helgi vegna mótsins, mörg þúsund gestir í bænum og stöðug umferð, útitónleikar og fleira. Stelpunum gekk frábærlega á mótinu en ég nenni ekki að fara úti í það, flestum leiðast frásagnir af knattspyrnuafrekum annarra barna en sinna eigin. Ég fór líka á Síldarminjasafnið sem er geysilega flott.
Ein af mínum fyrstu frambærilegu smásögum heitir Saknað og birtist í TMM árið 1987 og í fyrstu bókinni minni haustið 1988. Þar kemur fyrir sjoppa og vídeóleiga í litlu þorpi, er svona meginsviðið í sögunni. Fyrirmyndin var bensínsjoppan á Hofsósi frá 1984. Þar var helsta félagslífið, hún var sjoppa, veitingastaður (brasbúlla), vídeóleiga og fleira. Ég hlakkaði mikið til að stíga inn í hana aftur þegar við stoppuðum á Hofsósi síðasta fimmtudag. En sjoppan var lokuð og ég sá engar bensíndælur á planinu. Þegar ég spurðist fyrir komst ég að raun um að sjoppunni hafði verið lokað fyrir tíu árum. Þarna er síðan risinn fínn veitingastaður sem hefði verið óhugsandi á sínum tíma. Síðan er auðvitað fyrir löngu búið að leggja niður Kaupfélagið en þorpsverslunin er á allt öðrum stað. Ég fór þangað inn til að kaupa eitthvert smáræði og sá að afgreiðslustúlkan var frekar ung. Ég gleymdi að reikna í huganum og tók að velta því fyrir mér hvort hún væri gamall "nemandi" minn, hefði t.d. verið í 9 ára bekknum sem ég kenndi. Ég spurði hana hvenær hún væri fædd og þá kom upp úr dúrnum að hún hafði verið á öðru ári þegar ég "kenndi" í þorpinu.
Núna er verið að vinna að kápumynd að væntanlegri bók og í tengslum við kápugerðina hef ég verið að bræða með mér titil á verkið. Hef ég lent í alveg ógurlegum brösum með nafn og fjölmörgum hugmyndum verið hent á milli mín og minna nánustu í þessum efnum.