laugardagur, ágúst 06, 2005

Stúlka ein hér í borg er sannfærð um að enginn geti skrifað, enginn geti verið myndarlegur og enginn geti verið fyndinn nema nokkrir nánustu vinir hennar. Allt sem vinirnir gera er betra en allt sem aðrir gera, algjörlega að óathuguðu máli.

Ég heyrði dálítið neyðarlega sögu á "djamminu" í gær. Ungur maður sem oft heldur ljóðaupplestra hefur þann ávana að eiga í hrókasamræðum á meðan dagskránni stendur svo ekkert heyrist í skáldunum sem eru að lesa fyrir tali hans. Það er vissulega heillandi þegar mönnum liggur svona mikið á hjarta en líklega fremur óheppilegt fyrir alla hlutaðeigandi.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Ég verð á Ölstofunni í kvöld fyrir þá sem telja mig skulda sér bjór eða vilja einfaldlega spjall. Myndið einfalda röð. Ég verð því miður ekki í mínum bestu fötum, er í gömlu gráu fötunum í vinnunni og þar sem mig langar að freista þess að skrifa fram að kráarferð geri ég mér ekki ferð heim til að skipta um föt. Þó er aldrei að vita. Mig langar ansi mikið að skella mér í bláu teinóttu fötin.

Um helgina þarf ég að vinna aukavinnu út af Úrvals-Útsýnar bæklingi. Ég er því í vondum málum í hjónaskákinni eftir að hafa fengið ágætar trakteringar undanfarið og ekki sýnt mikinn lit.

Menn sem eru að kaupa Símann og aðrir stórtækir athafnamenn eru með lægri laun en textamenn á auglýsingastofum eða framhaldsskólakennarar. Jón Ólafsson fékk á baukinn að lokum. Mun skatturinn hafa hendur í hári þessara manna?

http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=50010
Því er slegið upp að Viggó Sigurðsson hafi verið með drykkjuskap og dólgslæti í Flugleiðavél. Í hádeginu heyrði sögu af því að hópi góðglaðra mann hafi verið neitað um áfenga drykki í borð um Flugleiðavél. Þeir voru þó mjög kurteisir. Sú stefna virðist við lýði að menn fái ekki afgreitt áfengi ef það sést vín á þeim. Bersveinn og Viggó hafa eflaust lent í þessu. Viggó lætur ekki bjóða sér svona lagað og hefur því stokkið upp á nef sér.

Annars er aðalatriðið að hann standi sig með landsliðið.

http://www.ruv.is/hlaupanotan Umræddur Shankar spilaði töluvert með Frank Zappa, þar sem skiptust á rafmagnsfiðlusóló hans og gítarsóló Zappa.

Næstu daga er kommentakerfið bara opið þegar ég er við tölvuna. Ég bið gott fólk um að sýna því þolinmæði en umfram allt halda áfram að kommenta og hjálpa mér að halda síðunni góðri. Látum ekki þennan ömurlega skríl eyðileggja umræðuna fyrir okkur.

Varðandi pistlana mína þá má alltaf nálgast þá á ruv.is

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Tók upp pistilinn áðan. Eins og ég sagði áður þá get ég lofað góðum pistli núna og hvet því fólk til að hlusta á Spegilinn á morgun.

Frægðarmenni dagsins er Ari Trausti Guðmundsson. Ég sá hann í hádeginu og dáðist mjög að klæðaburðinum. Skipar Ari Trausti þar sér í flokk með mönnum á borð við Sjón og Sigurð Pálsson. Ég uppskar vingjarnlega kveðju fyrir glápið en við Ari Trausti erum þó ekki málkunnugir.

Það verður bara að segjast eins og er að forsíðufrétt DV í dag er ólýsanlega barnaleg, hvernig sem á hana er litið.

Ég kíkti aðeins á Mokka í gærkvöld og það voru bara ungir krakkar þar. Guðný afgreiddi mig og ég spurði hana hvort þetta hefði líka verið svona þegar ég var ungur og hún sagði að það hefði oft verið þannig. Okkur þótti nokkuð merkilegt að nýjar kynslóðir fylltu staðinn þar sem nú væri svo miklu meira af lókölum í boði en þegar ég var að þvælast þarna upp úr 1980. Krakkarnir voru allir sætir og viðkunnanlegir. Menntaskólaleg í klæðaburði. Einn var með fartölvu. Það var eina breytingin frá því í gamla daga.

Hvað var Guðný á Mokka annars gömul þegar ég var menntaskólaunglingur? Fimmtug?

Tilgangslausar spurningar

Erla gjörsamlega stakk mig af í skokkinu áðan. Háfætti hlaupagikkurinn setti skyndilega mótorinn í gang og hvarf þéttvaxna eiginmanninum sjónum. Í kvöld velti ég því fyrir mér hvað ég ætti að borða áður en við skokkuðum næst og hvað ég ætti að fá mér fyrir Reykjavíkurmaraþonið. Velti því fyrir mér hvort tvær appelsínur 2 klst. fyrir hlaup myndu hjálpa. Þá datt mér skyndilega í hug þetta: Hvað ef það væru ekki til neinar appelsínur og maður væri þyrfti að hugsa: Hvernig á ég að redda mér appelsínum? Hvernig á ég að komast yfir gott kaffi? Hvar er hægt að fá tóbak og bjór? Hverjir hafa sambönd? Hvernig á ég að útvega næga mjólk handa krökkunum? Og í kjölfarið spurði ég mig: Hvaða áhrif hefur það á mann að lifa í allsnægtum? Er það þroskaheftandi?

Algengir ördálkar í blöðunum ganga út á það að hringt er í einhvern og spurt: Hvernig hefurðu það? Undantekningalaust hefur hinn aðspurði það alveg fyrirtak gott og hefur aldrei haft það betra. Hvenær kemur að því að blöðin hitta á einhvern sem hefur það skítt í augnablikinu?

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Ég lofa nokkuð góðum pistli á föstudaginn. Ég viðurkenni að síðasti pistill var slakur enda skrifaður í miklum flýti fyrir Krítarferðina þar sem ég þurfti að skila tveimur í einu. Hinir pistlarnir mínir hafa mér fundist þokkalegir þó að auðvitað sé ekki mitt að dæma heldur Hildar, Kristjóns, EÖN og allra póstdmódernista um og undir þrítugu í heiminum.

Staupasteinn í nótt kl. 00.15. Létt nostalgíukast. Þarf að skrifa eitthvað áður í kvöld og verðlauna mig með Staupasteini.

Uppáhaldskaffihúsin mín núna eru Hressó og Segafredo (nú troðfyllast þau og það verður ekki líft þar lengur). Talandi um nostalgíu þá er Hressó staður sem ég man úr æsku þó að ég færi sjaldan þangað þá og síðan var þetta líflegt kaffihús þegar ég var ungur. Núna er staðurinn genginn í endurnýjun lífdaga og hefur aldrei verið betri. - Á Segafredo er geysilega gott kaffi og sitji maður út við vegg sem næst afgreiðsluborðinu er skemmtilegt hliðarútsýni upp á Laufásveg.

107 kg

Núna gretta gáfumennirnir sig sem héldu uppi svo ágætri bókmenntaumræðu hér að neðan. En staðan á megruninni er sú að ég hef ekkert lést í langan tíma. Ég hef hins vegar ekkert gefið eftir í bindindinu. Í maí og júní léttist ég úr 114 kílóum niður í 107 með því að hætta að borða hveiti og sykur. Mig langar til að verða slétt 100 kg en lítið minna en það. Ég borða frekar mikið, er að gleypa í mig ost í miklu magni, fæ mér stundum skyr og harðfisk rétt áður en ég fer að sofa, í versta falli vakna ég um nætur eða eldsnemma á morgnana og fæ mér skyr með rjóma. Lystin er mikil en ekki lengur þessi gegndarlausa græðgi, því áður átti ég til að troða mig út af súkkulaði og kexi á nóttunni. Staðan er sú að ég á ekki á hættu að fitna aftur á meðan ég hreyfi mig reglulega og rýf ekki bindindið. En ætli ég að ná þessu 7 kílóum af mér í viðbót sem mig dreymir um þá þarf ég að taka mig á. Hef ekki alveg viljann í það þessa dagana. Það munaði einhvern veginn afar mikið um þessi fyrstu sjö kíló, það var eins og ég færðist af obese-stiginu niður á overweight-stigið. Þannig virka ég þokkalega grannur í fötunum núna og mér líður ekki illa berum að ofan þó að ég sé augljóslega of feitur. Mikilvægara er að ég verði ennþá ekki þyngri en 107 kg eftir tvö ár en að ég verði 100 kíló fyrir haustið, þannig að mikilvægast er að stimpla bindindið til eilífðar inn í vitundina.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Já, ný tilvitnun. Þetta brot skrifaði ég áðan. Það er í rauninni einfalt að skrifa góða skáldsögu: Það þarf góðan söguþráð og trúverðugar persónur, og síðan svona einfaldan stíl sem heldur út alla söguna.

Barnaland

Drengurinn (5) fór á fyrstu knattspyrnuæfinguna sína áðan. Mér skilst á móðurinni að honum hafi gengið vel. Ennfremur er hann búinn að læra á fótboltatölvuleik sem ég gaf honum og gat ekki lært sjálfur á. Hann hefur létta einhverfutendensa sem fela í sér að geta sökkt sér daglangt niður í hugðarefni sín. Hann er ókvartsár, hlýðinn og hugrakkur. Föðurbetrungur.

Mín reynsla af tölvuleikjanotkun drengsins míns gefur til kynna að þeir séu þroskandi fyrir krakka á hans aldri.

Í Varmahlíð fór ég að skrifa ákveðna klausu inn í skáldsöguna en breytti svo til og gerði hana að útvarpspistli. Eftir það hef ég alvarlega verið að velta fyrir mér muninum á því að sýna og segja frá.

Hvers vegna hefur matreiðsla í vegasjoppum ekkert breyst í áratugi? Og hún er alls staðar eins. Þetta er ekki matreiðsla heldur algjörlega stöðluð útgáfa af skyndibitum. Enginn munur er á Staðaskála og miklu minni sjoppum. Síðan er hvergi tekið af borðum fyrr en undir lok vaktarinnar, nema kannski helst í Varmahlíð. Ástæðan er líklega sú að það er svo mikið að gera, alltaf stríður straumur af fólki að kaupa sér hamborgara og franskar.

Tvö úrlausnarefni

1. Ég er að fá útborgað og mig langar í jakkaföt en ég mér dettur ekkert í hug til að réttlæta þau kaup fyrir Erlu. Ekki nema að ég rambi inn á útsölu. Ólíklegt er að ég finni nokkuð í minni stærð á útsölu.

2. Að sýna en ekki segja frá er bæði góður og oftast nauðsynlegur vegvísir í smásagnagerð. En hversu mikið á það að gilda þegar um skáldsögu er að ræða? Þetta er að angra mig við skrifin núna. Ég er mikið að segja frá en minna að sýna.

Mikið væri gott ef sumum persónu lærðist að skilja að bloggsíða rithöfundar er ætluð lesendum hans og vinum en ekki óvinum og þeim sem þola hann ekki. Þeir eiga að vera úti, snúa sér eitthvað annað, þegja.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Um helgina lék ég knattspyrnu við börn og unglinga, drakk Metaxa, fór í pínulitla göngu og skrifaði tvo útvarpspistla á veitingastofunni í Varmahlíð.