http://www.jpv.is/index.php?page=49&PHPSESSID=5f5fd7b62e2039a56666a3dcaaf67677
Svona á að blogga. Góða skemmtun.
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
http://www.jpv.is/index.php?page=49&PHPSESSID=5f5fd7b62e2039a56666a3dcaaf67677
Ég þarf að taka upp tvo pistla í dag þar sem ég er að fara til Krítar á mánudaginn og verð úti í tvær vikur. Þegar ég var að semja þá virtist fyrri pistillinn vera bull en sá síðari solid. En eftir að hafa skrifað þá er bullpistillinn orðinn góður en hinn hálfgerð flatneskja.
Núna er skyndilega ekkert mál að birta myndir á bloggsíðum, jafnvel fyrir tölvuanaalfabeta eins og mig. En hvaða myndir langar mig að birta? Ætti ég kannski að skanna inn 11 ára gamla brúðkaupsmynd af mér og Erlu, tala um hvað sá dagur hafi verið fagur og saka í leiðinni aðra bloggara um væmni?
Nýja tilvitnunin er brot af því sem ég hef skrifað í kvöld. Fæ ég núna dramatísk komment um hvað það sé hættulegt fyrir rithöfund að gera þetta? Ég get aldrei munað hvers vegna. Fyrirfram þökk fyrir umhyggjuna.
http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=47094 Það hljóta flestir að hafa samúð með auglýsingastofunni í þessu tilviki. Sem minnir mig á annað: Á Steingrímur Njálsson sér alnafna?
Aftur að þessu Baugsmáli. Ávirðingarnar virðast í leikmannsaugum afar lítilfjörlegar. Engu að síður hefur rannsóknin staðið yfir í þrjú ár. Innrás lögreglunnar í húsnæði Baugs kemur á afar slæmum tíma fyrir fyrirtækið og einnig birting ákærunnar núna. Reyndar er það svo að það er alltaf slæmur tími fyrir Jón Ásgeir að birtar séu fréttir sem geta dregið mannorð hans í efa enda stendur hann alltaf í stórfjárfestingum. Pálmi Haraldsson skrifar einlæga grein í Morgunblaðið í gær til varnar Jóni Ásgeiri og vegur þar að lögreglunni.
Eftir að hafa hvílt One Size Fits All með Frank Zappa í fjögur ár er orðið tímabært að spila hana aftur. Gítarsólóið í Inca Roads er töfrandi.
Þar sem ég hef ekki mikinn áhuga á fyrri verkum mínum þessa dagana en þeim mun meiri áhuga á því að skrifa eitthvað nýtt, ákvað ég að setja tilvitnun úr því sem ég er að skrifa núna. Það er ekkert meira um þessa klausu að segja, þið fáið ekki að vita samhengið og ég veit ekki einu sinni hvort það eru villur í þessu, né hvort þetta muni birtast orðrétt í bók þegar þar að kemur. Ég pastaði þetta bara úr handritinu.
Svo ég rausi aðeins meiri rassvasaheimspeki þá má segja að Hume hafi lagað siðferðisboðskap Krists um það að gjöra sjálfur öðrum það sem maður vill að þeir gjöri oss að trúleysinu með því að halda því fram að samúðin væri ein af eðlishvötum mannsins. Og yfirleitt vill maður ekki gera öðrum það sem maður vill ekki að þeir geri manni sjálfum. Maður vill vera góður við fólk og maður hefur samúð með fólki af því maður getur sett sig í spor þess. Það sem ég vil ekki að hendi mig vil ég ekki heldur að hendi aðra. Svo kemur breyskleikinn auðvitað inn í þetta og freistingin til að hæða einhvern bloggara getur orðið þessu siðferðisboði sterkari, nú eða hefnigirni kokkálaðra og ótalmargt fleira.
Skemmtilegt er hvernig lífið stillir stundum upp andstæðum. Þið munið eftir því er ég rakst á umdeildan blaðamann fyrir stuttu úti á götu. Þá var lognviðri en ég sagði að hann væri með storminn í fangið. Rétt í þessu rakst ég á blaðamann í afar sambærilegu starfi, þ.e. ritstjórann á hinu vikuritinu í sömu kategóríu, blaði sem einmitt siglir nú lygnan sjó þar sem reiði og hneykslun almennings beinist öll að kollegunum. En þessi ritstjóri gekk þrátt fyrir það í mótvindi, hífandi roki.
Ég er aðeins byrjaður að lesa Baudrillard. Dálítið gaman hvað þetta er kunnuglegt vegna þess að svo margir hafa skrifað og bloggað um þessar kenningar. Maður er t.d. alltaf að rekast á þetta í Lesbókinni og er ekki nógu fljótur að fletta framhjá, svo ein og ein setning festist í huganum. Ég hef ekki lesið heimspeki síðan 1992. Ég tók 50 einingar í HÍ á sínum tíma og las ekkert nýrra en Saul Kripke og eitthvað af greinum eftir materialista. Kripke sannaði fyrir manni að efnishyggja gengi ekki upp og manni þótti það sniðugt hjá honum en var samt sannfærður um að hann hefði rangt fyrir sér. Líklega gerði hann mig að efnishyggjumanni. Það átti líka að heita að ég læsi Wittgenstein en ég man ekkert eftir honum. Ég var mjög hrifinn af David Hume en ekki eins af Kant. Hume átti líklega stærri þátt í efnishyggjunni sem Kripke njörvaði niður í kollinum á mér. Svo las ég Sartre og Camus heilmikið. Decartes. Platon og Aristóteles. Þorstein Gylfason og Pál Skúlason.Ég hataði veðjun Pascals og geri það enn. Mig minnir að ég hafi fengið fínar einkunnir í þessu öllu nema rökfræði sem ég fékk þó 7,5 í en það var líklega lægsta einkunnin mín. Nóttina fyrir rökfræðifræðiprófið ætlaði ég að lesa mikið en horfði þess í stað á klámmyndina Wicked Sensations (Þetta var 1991 og myndin var frá 1986). Merkilegt við þá mynd að hún rembdist við að halda í hefðina frá því um 1970 og vera alvöru kvikmynd með söguþræði og góðum leik. Úkoman var algjörlega banal en líklega var kynlífið í henni fallegt miðað við nútímann og kannski ekki einu sinni klám. Gæti jafnvel gert sig á kvikmyndahátíð.