laugardagur, október 22, 2005

Ég varð skyndilega þreyttur á gömlu hlaupaleiðinni dag og þegar ég var kominn út í Nauthólsvík ákvað ég að fara til baka í gegnum Vatnsmýrina og/eða Hringbraut. Það var sérkennilegt ferðalag og skokkæfingin fór sem slík í vaskinn því útilokað var að halda uppi mínu eðlilega tempói. Um tíma hafði ég ekki hugmynd um hvort ég kæmist yfirleitt heim, ég komst ýmist ekkert fyrir bílum eða fór í undarlega hringi upp í tilgangslausar göngubrýr sem leiddu mig ekki neitt.

Ég er ekki að segja að skipuleggja ætti þetta svæði með skokkara í huga en þetta er bara dæmi um hvað þessar framkvæmdir eru mikið rugl. Það ætti að vera ósköp einfalt að komast vestur í bæ frá Hótel Loftleiðum en sú flókna völundarleið minnir helst á draumarugl.

föstudagur, október 21, 2005

Mér gengur allt í haginn í dag en slíkt vekur mér alltaf nokkurn ugg. Skyldi ég vera að fá risavillu í hausinn?

Svokölluð haustlitaferð er í vinnunni í kvöld, þetta er árleg skemmtiferð. Ég ætla að gera mér far um að drekka lítið, ég nenni ekki að vera þunnur á morgun.

Vilhjálmur nýtur vinsælda út fyrir Sjálfstæðisflokkinn en Gísli Marteinn er fylgisfæla skv. nýjustu skoðanakönnunum. Gísli Marteinn er fínn og á framtíðina fyrir sér en Vilhjálmur er einfaldlega traustvekjandi karl sem fólk sér í hendi sér að getur hæglega stjórnað borginni.

fimmtudagur, október 20, 2005

Ég verð víst að játa það að drengurinn minn er knattspyrnufíkill. Þegar móðirin ætlaði að sækja hann eftir knattspyrnuæfingu í KR-heimilinu í gær sat hann og horfði á Chelsea-Real Betis með nokkrum eldgömlum og grásprengdum KR-ingum. Hann varð ofsareiður yfir því að vera sviptur leiknum, bandbrjálaður.

Auk þess segist hann elska mig af einni ástæðu: hann grunar sterklega að ég ætli að gefa honum FIFA 2006 leikinn og Playstation til að spila á hann í afmælisgjöf. Og hann hefur rétt fyrir sér.

Ég er að fara viðtal á Útvarpi Sögu kl. 15.

miðvikudagur, október 19, 2005

Þegar ég kom út á götu af OA-fundi í gærkvöld var allt sveipað þykkri og hlýrri þoku. Kannski fyrir áhrif fundarins og þess að ég er ekki að éta yfir mig þessa dagana hreifst ég mjög af þessu og arkaði heim í barnslegri gleðivímu. Heima fékk ég Erlu út með mér og hufum í þokuna rétt undir miðnættið.

Greinin birtist í Blaðinu í dag og vísað er í hana á forsíðu. Í gær birti Blaðið tilvitnun í bloggið mitt um sama efni.

þriðjudagur, október 18, 2005

Greinin birtist ekki. Annaðhvort ætla þeir að birta hana á morgun eða þeir hafa ekki verið sáttir við hana. Hallast að því fyrrnefnda.

Er að bíða eftir Blaðinu og hugsa hvernig greinin hafi komið út. Ég setti örugglega hraðamet í gær, skrifaði hana á hálftíma.

Ætla að horfa á Bayern München-Juventus með Kjartani í kvöld. Hann er mjög spenntur. Það besta sem maður getur gert fyrir þennan dreng er að leyfa honum að horfa á fótbolta. Það er ekki erfitt að gera honum til hæfis.

mánudagur, október 17, 2005

Ég var að komast að því rétt í þessu að ég þarf að skila grein í Blaðið fyrir morgundaginn. En eiginlega var ég byrjaður á greininni hér litlu neðar og því ætti þetta ekki að vera stórmál.

Í skáldapartíinu á laugardaginn var Hörður Gunnarsson ljóðskáld. Það litla sem ég hef lesið eftir hann finnst mér gott. Það leiðir hugann að því að flest ljóðskáld eiga sér sáralitlar vonir um viðurkenningu og umheimurinn gerir engan greinarmun á Herði Gunnarssyni og einhverjum vitleysingi sem getur ekki skrifað nafnið sitt en skrifar samt ljóðabækur, en það hefur alltaf verið til töluvert af slíkum ljóðskáldum. Ég sagði því við Hörð nokkuð sem ég hefði aldrei þolað að nokkur segði við mig: að hann yrði að skrifa skáldsögu og fá hana gefna út. Annars yrði hann alltaf óþekktur.

Það tókst ekki að fá Townshend til að spila á gítar í partíinu en í sárabætur braut annar gítarleikarinn kassagítarinn sinn.

Dauði dauðans. - Þetta er fimmaurabrandari dagsins.

Eflaust eru allir klisjubloggarar að tala um veðrið. Ég þarf því að sleppa því en nýt þess bara í staðinn.

Misnotkunin á stúlkunum í gula húsinu var á vitorði barna í skólanum á sínum tíma. Það skal því enginn segja mér að þeir fulltrúar sem undanfarið hafa svarið af sér grun eða vissu í málinu hafi ekkert vitað. Þeir hafa hins vegar eflaust átt mjög erfitt um vik að aðhafast nokkuð. Það er líka alltaf þægilegra að gera það ekki.

Þetta leiðir hins vegar hugann að öðru. Margir sem telja sig til þekkja fullyrða að barnaverndarnefnd taki aldrei börn af fólki nema öll önnur ráð séu þrotin og í raun séu mörg dæmi um að hún geri það ekki þó að ástæða væri til. Fjölmiðlar, sem hafa verið mjög uppteknir af Telmu-málinu, hafa hins vegar hvað eftir annað slegið upp fréttum um foreldra sem hafa misst börn sín í hendur kerfisins að virðist að ósekju. Í slíkri umfjöllun er einungis dregin fram málshlið foreldranna en barnaverndaryfirvöld geta lögum samkvæmt ekki tjáð sig um slík mál.
Með sumum slíkum umfjöllunum fylgja hins vegar ljósmyndir af foreldrum sem nægja einar og sér til að fullvissa mann um að viðkomandi einstaklingur geti ekki alið upp barn. Þetta eru ekki fordómar gegn útliti, en sum andlit segja bara einfaldlega of mikla og berorða sögu til að hægt sé að leiða hana hjá sér.