http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1185892 Hlýtur niðurstaðan af þessu ekki að vera sú að menn kjósi að slátra DV?
Bloggsíða Ágústs Borgþórs
Smápistlar um bókmenntir, daglegt líf og fleira.
föstudagur, febrúar 17, 2006
fimmtudagur, febrúar 16, 2006
Hugsanlegt er að ég sendi einhvern kafla úr skáldsögunni til birtingar í TMM. Silja hefur ekki tekið ólíklega í það þó að hún samsinni mér um að smásögur séu heppilegri en sögukaflar til birtingar. Þetta skýrist á næstunni. Kannski líkar Silju ekkert við þetta.
Ég skokkaði í gær í norðanandstyggðarrokinu sem hefur versnað í dag. Ég skokkaði líka á mánudagskvöldið og á laugardaginn. Það mætti vera meira af þessu upp á brennsluna að gera. Ég borða of mikið til að geta grennst meira og of lítið til að fitna aftur. Er því alltaf fastur í þessum 107 kíóum. Hef ekki bragðað sykur síðan í september og finn aldrei fyrir löngun í hann. Það er nú viss áfangi.
Það er óhugnanleg tilhugsun að eftir að hafa skrifað nokkrar línur um skáldsöguna mína, skokkið og holdarfarið, eins og svo ótal oft áður, þá dettur mér ekkert meira í hug. En ég birti pistil í Blaðinu á þriðjudaginn. Lesið bara hann.
Og heyrðu, ég er að fara að hitta Guttesen í hádeginu. Segi ykkur hvernig hann verður klæddur. Mér virðist hann reyndar hafa fitnað, er að fá á sig ráðsett vaxtarlag.
miðvikudagur, febrúar 15, 2006
http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060215/FRETTIR01/60215006/1091 Þetta er reyndar líka komið hérna.
http://www.fjallabaksleidin.blogspot.com/ Hér er eitthvað bráðskemmtilegt komið í gang. Skoðið líka kommentin. Ég er að tala um færsluna Íslandsmeistaramót í ljóðlist.
þriðjudagur, febrúar 14, 2006
Ég hitti Guttu í morgun, gamla vinkonu úr M.R. Við fengum okkur kaffi í Bankastrætinu. Okkur leið eins og við værum að skrópa í tíma í M.R. Staðurinn var þéttskipaður. Ég er ekki vanur að fara á kaffihús svona snemma á morgnana en augljóslega er þetta vinsæll tími.
mánudagur, febrúar 13, 2006
Án þess ég vilji segja að kosningarnar í vor snúist bara um Vilhjálm Þ. og Dag þá verður spennandi að sjá þá takast á. Hér mætast andstæður. Dagur er yngri og myndarlegri, hefur afar mjúka áru og höfðar til kvenna. Hann er margmáll og loðinn í tali en hætta er á að margir spái ekkert í hvað hann er að segja en kjósi hann vegna þess að þeim finnst hann vera viðkunnanlegur. Vilhjálmur er hins vegar þannig að maður skilur allt sem hann segir og trúir hverju orði. Ef hann segist ætla að lækka fasteignaskatta um 25% en ekki verði hægt að lækka útsvarið næstu tvö ár, þá trúir maður honum. Hægri menn þurfa að brýna vopnin gegn Degi, víða má finna á honum höggstaði. En það þarf að fara varlega, ekki valta yfir hann í Hönnu Birnu ham, því fólk hlustar ekki alltaf á innihaldið; áferðin hefur allt of mikið að segja.
sunnudagur, febrúar 12, 2006
Las fyrir strákana úr 2. versjón af skáldsögunni í gærkvöld og þáði rauðvín. Þeim fannst textinn hljóma betur en það sem ég hafði lesið úr 1. versjón og voru raunar hæstánægðir með það sem þeir fengu að heyra.
Benni kom mér þægilega á óvart með býsna skemmtilegri blaðagrein sem hann hafði skrifað fyrr um daginn. Ekki oft sem ég hef ástæðu til að hrósa Benna og var mér það mikil ánægja.
Gunni las úr smásögu sem lofar góðu. Minnir pínulítið á Sektarskipti eftir meistarann.
Bróðurdóttir mín sagðist vera að lesa sögu eftir mig í Iðnskólanum og þyrfti að gera verkefni við hana. Hún sagði að tilfinningin væri sérkennileg. Þetta tjáði hún mér í fjölskylduafmæli.