þriðjudagur, apríl 11, 2006

Páskafrí

Ég held til Vopnafjarðar á morgun og kem aftur þriðjudaginn eftir páska. Síðan er í fríi þangað til og kommentakerfið lokað.

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060411/LIFID01/104110005/1120 Af einhverjum ástæðum hef ég ekki haft áhuga á ljóðagerð síðan ég varð þrítugur en mér finnst þetta framtak alveg til fyrirmyndar. Svona á að finna höfunda: leyfa öllum að spreyta sig og láta verkin tala.

Ég sætti mig ekki við að sá sem reynir að flytja heróín til landsins sé áfram fjölmiðlastjarna, sífellt viðtalsefni sem afturbatafíkill og "rithöfundur". Hér eftir verður slíku að linna. Eitt er að flytja dóp til landsins, heróin er annar handleggur og algjörlega ófyrirgefanlegur verknaður.

mánudagur, apríl 10, 2006

Það gengur aftur vel að skrifa núna og bók er ekki útilokuð í haust þó að hún sé frekar ólíkleg. Það er hins vegar gott að útiloka ekki þann möguleika svo maður haldi sér að verki. Við erum aftur að tala um stutta skáldsögu. Ég fann nýja leið að þessu dæmi fyrir stuttu.

Ég hitti Eyvind í hádeginu og mér fannst hann líta frekar vel út. Bara sætur strákur en dálítið þungur. Hann er miklu dómharðari en ég í þessum efnum.

Sá sem sér um ræstingarnar hér tekur ekki undir kveðju. Tvisvar í röð hefur hann hunsað kveðju mína. Það gleður mig þegar ræstingafólk er hrokafullt því svo oft hefur það orðið að þola hroka í störfum sínum gegnum tíðina, á fínum skrifstofum yfirlækna og deildarstjóra og ég veit ekki hvað. En kannski tekur hann bara undir í huganum og hefur ekki rænu á að mynda hljóðin, eitthvað utan við sig. Hvað veit ég.

Mogginn er sammála mér um klókindi Vilhjálms Þ. undanfarið og gengur raunar lengra, kallar þetta snilldarleik.

sunnudagur, apríl 09, 2006

Kjartan gaf mömmu sinni 500-kall í afmælisgjöf í gærmorgun. Hann átti einhverja seðla í skókassa og náði í gjöfina þangað. Þetta er viðmiðunarupphæð í barnaafmælum í skólanum, stundum er keypt fyrir þessa upphæð en stundum er afmælisbarninu bara gefinn 500-króna seðill. Kjartan þótti þetta greinilega tilvalin afmælisgjöf handa móður sinni.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1195354 Nokkuð sterkur leikur hjá Villa í baráttunni um atkvæði eldri borgara, að gagnrýna ríkisstjórnina til að sýna að honum sé alvara, því auðvitað bregðast menn við áherslum hans á málefni aldraðra með því að vísa til verka sjálfstæðismanna í ríkisstjórn telji þeir þá ekki hafa staðið sig þar.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item69036/ Athyglisverð kenning. Ef þetta er rétt vissu þá Bretar líka um eiginlegan tilgang Íraksinnrásarinnar? Vissu það einhverjir fleiri staðfastir?