þriðjudagur, október 17, 2006

Stutt frí

Safna í bloggsarp. Skreppa til Manchester. Hittumst í næstu viku.

Ég held að kvennaflagarinn hafi í nútímanum misst nánast alla fyrri virðingu og raunar er erfitt að skilja hvers vegna hann yfirleitt naut hennar. Ég gæti hins vegar trúað því að veiðiskilyrði hans hafi aldrei verið betri en núna. Fátt þráir óöruggt fólk meira en að því sé sýndur áhugi og athygli. En nútildags liggur slíkt almennt ekki á lausu. Mín tilgáta er því sú að flagarar eigi í besta falli skilið aðdáun fyrir dugnað.

Eru þeir kannski ekki til lengur?


Ég veit ekki hvort það eru ellimerki en mér fannst síðasti Spaugstofuþáttur drepfyndinn.

Þegar ég fæ einhvern (Skruddu? - Commu?) til að gefa út úrval af smásögunum mínum í kilju þá vil ég hafa sambærilega kápumynd og Bernard Malamud utan á sínum Complete Stories.

Spurning hvort það eru líka ellimerki. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort það geti verið að Malamud sé á aldur við mig á þessari mynd.

Ég las þessa bók, að ég hélt upp til agna, árið 1999. Komst síðan að því um daginn að ég átti tvær síðustu sögurnar ólesnar.

mánudagur, október 16, 2006

http://gudmundurmagnusson.blogspot.com/ Guðmundur Magnússon, sem er líklega mest spennandi bloggarinn þessa dagana, heldur því fram að Árni Páll og Jón Baldvin séu einu mennirnir sem kjósi að vera með pukur í hleranaumræðunni. Það er sannleikskorn í því.

Stundum verða menn fylgisfælur fyrir flokka sína, hvort sem það er sanngjarnt eða ekki. Við slíkar aðstæður er skynsamlegt fyrir þá að þekkja sinn vitjunartíma og draga sig í hlé. Nauðsyn endurnýjunar er lögmál. Um þetta hugsa Sjálfstæðismenn þessa dagana.

Reyndar getur þetta verið vandasamt. Ég held t.d. að það hefði verið betra fyrir Framsóknarflokkinn ef Halldór Ásgrímsson hefði þraukað en sú staða sem nú er uppi. Sérkennilegur leiðréttingabragur er á tilsvörum nýja formannsins. Við spurningum sem eru almæltar og virðast sjálfsagðar bregst hann gjarnan með orðunum: "Svona getur þú ekki spurt ..."
Það var broslegt að sjá hann reyna að taka Egil Helga í kennslustund í Silfri helgarinnar. Hann komst engan veginn upp með það.

sunnudagur, október 15, 2006



Bróðursonur minn varð Íslandsmeistari með 4. flokk KR í haust. Hann er markvörður. Án nokkurs vafa besti knattspyrnumaðurinn sem komið hefur fram í fjölskyldunni, enda þarf ekki mikið til. Hann heitir Sverrir Borgþór.

Þrátt fyrir ánægjulegt kvöld á Ölstofunni í gærkvöld og fjölmörg hnyttin ummæli sem verðskulda tilvitnun á þessari síðu þá stendur eiginlega upp úr það sem gerðist ekki. Þegar ég kom á barinn um hálftólfleytið kom í ljós að ég var peningalaus. Fyrir mistök var Erla með debetkortið mitt og ég hafði ekkert lausafé. Gunni Randvers varð að draga mig að landi í dökka bjórnum. Eftir því sem leið á kvöldið sótti á mig kvíði fyrir þeim möguleika að rekast á ÞÞ í ljósi loforðs frá því í sumar. Ef svo færi væri bara um tvennt að velja: Láta eins og ég þekkti hann ekki, sem hefði verið þumbaralegt og lélegt, eða útskýra fyrir honum stöðuna. Sem hefði einhvern veginn verið alveg gjörsamlega glatað.

Þegar ég síðan sá honum bregða fyrir til hliðar við mig löngu eftir miðnætti, faldi ég mig einfaldlega bak við næsta mann.

Þetta var semsagt gott kvöld sem hefði getað orðið betra. Vonandi gefst annað tækifæri fyrir áramót, en ég fer ekki út að drekka nema á sirka tveggja mánaða fresti.

p.s. Ummæli ónefnds vinar um þessa síðu: Þetta er eins og þú myndir glenna rassgatið út í glugga og kalla: "Komið og sjáið." - Flestir við borðið voru ósammála honum.