laugardagur, desember 09, 2006

http://www.visir.is/article/20061209/FRETTIR01/112090104 Heldur Andrés Magnússon þá ekki bara áfram á Blaðinu? Hver verður ráðinn ritstjóri? Hvert fer SME?

Hjólið mitt er horfið. Erla sá það síðast í dag undir tröppunum. Því hefur þá verið stolið snemma í kvöld.

http://www.visir.is/article/20061208/FRETTIR02/61208124 Það er eitthvað sætt við það þegar klassísk tónlist er kommersilíseruð. Og hefur ekkert nema gott eitt í för með sér. Gott hjá Cortez og Einar Bárða sem örugglega er maðurinn á bak við þessa frétt. Kommentið á hana er fyndið.

Hitti Claudiu Overesch á Súfistanum. Mér virðist þýðingin hennar góð, ég skynja anda sögunnar í henni, en get ekki gefið út fullnaðardóm þar sem ég er þrátt fyrir allt ekki það sleipur í þýsku.
Claudia kynntist Hverfa út í heiminn í gegnum Uppspuna sem Rúnar Helgi og Bjartur eiga heiðurinn að en var hugmynd Rúnars Helga og hann ritstýrði henni afar myndarlega.

Þess má geta að stúlkan er bæði ung og mjög falleg. Það sem slíkt hreyfði engan veginn við mér og þykir mér hún þó líka viðkunnanleg fyrir utan það að hún les og kann að meta sögurnar mínar. Það er þá spurning hvort ég sé svona vel giftur eða er ég að verða náttúrulaus? Fátt er eins gott fyrir listamann og kynferðislegt náttúruleysi. - Þegar ég kom heim sagði ég Erlu frá því að þessi óvænti þýðandi minn væri falleg, 27 ára gömul stúlka. Erla hafði engan áhuga á þeim upplýsingum, henni þóttu þær álíka stressandi og ef ég hefði sagt að þetta væri 57 ára gamall karlmaður.

Annað kvöld sýni ég á mér nýja hlið á starfsmannaskemmtun Íslensku. Ekki verður síst fróðlegt fyrir sjálfan mig að kynnast þeirri hlið. Ljóstra þessu upp á sunnudaginn.

föstudagur, desember 08, 2006

Nýhil-menn reyna að halda því til streitu að tveggja blaðsíðna fjölritaður bæklingur sé bók en ekki bæklingur. Raunar nær slíkt rit því tæpast að kallast bæklingur, í auglýsingabransanum eru þau a.m.k. bara kölluð einblöðungar eða flyerar. Það þarf minnst fjórar síður fyrir bækling. Og bók þarf eitthvað meira.

Þeim nægir ekki að láta þennan ævisögubrandara standa sem slíkan heldur teygja hann á langinn með frekar idjótískum kvörtunum og kærumálum. En það er ekki endalaust hægt að hlæja að sama brandaranum auk þess sem Nýhil hefur alltaf virst vilja láta taka sig alvarlega. Og gefur nú út þrjár innbundnar skáldsögur.

fimmtudagur, desember 07, 2006

Heidelberg

Það verður líklega Heidelberg. Og 11 dagar í stað 14. Minni tími til skrifta en líka minni kvíði, þær hafa tekið dáldið á þessar ferðir með sinni einsemd. Og minni kostnaður, ánægðari eiginkona/fjármálastjóri.

Augsburg

Hótelin eru ansi dýr í München fyrir einn rithöfund í 14 nætur. Augsburg er miklu ódýrari og í leiðinni kynnist ég nýjum stað. Þetta er 260.000 manna háskólaborg í Bæjaralandi, að mig minnir hálftíma lestarferð frá München.

miðvikudagur, desember 06, 2006

... að ég hafi hlustað á sjálfan mig hverfa út í heiminn ...

Nach einer Weile kann ich mich des Gefühles nicht erwehren, als wäre ich selbst hier im Wohnzimmer gewesen und hätte mir dabei zugehört, wie ich mich immer weiter hinaus in die Welt entferne; bis zur Unkenntlichkeit.

þriðjudagur, desember 05, 2006

> Sæll Ágúst;
ég heiti Claudia og er að því að ljúka B.A.-námi í Íslensku fyrir erlenda stúdenta við H.Í.
Ég valdi eina af smásögum þínum; "Hverfa út í heiminn", sem efni fyrir lokaritgerðina en ég þýddi hana yfir á þýsku. Nú ætlaði ég að vera svo frek að athuga hvort þú værir hugsanlega eitthvað til í að lesa yfir þýðinguna; þ.e. EKKI prófarkalesa heldur einungis lesa hana einu sinni eða tvísvar og láta mig svo vita hvort ég hafi "hitt réttan tón"...mér sýnist einmitt "undirtóninn"; þ.e. það sem stendur "milli línanna" skipta mestu máli í sögunni; og það væri auðvitað frábært að fá þitt álit á það hvernig / hvort mér hafi tekst að ná hann.
Ég geri mér alveg grein fyrir því að þú átt annað að gera en að aðstoða ókunnunga nemenda við ritgerðina sína; en það kostar víst ekkert að
spyrja...:)
Kveðja;
Claudia

sunnudagur, desember 03, 2006

Björn Bjarnason bendir á í helgarpistli sínum að telji Jón Baldvin að CIA hafi verið með hlerunarherbergi í utanríksisráðuneytinu þegar hann var utanríkisráðherra þá sé þar aðeins við hann sjálfan að sakast. Stundum er eins og Jón Baldvin hafi ekki verið utanríkisráðherra þegar hann var utanríkisráðherra, heldur einhvers konar peð í höndum Sjálfstæðismanna sem hafi hlerað hann í bak og fyrir ásamt Bandaríkjamönnum og hlegið að honum. Ráðgjafar hans hafi síðan verið valdalausir, sérkennilegir karakterar úti í bæ. Ég kaupi þetta ekki alveg. En hvað veit ég svo sem?

Grein Illuga Jökulssonar um föður sinn í Ísafold er stórmerkileg. Illugi hefur sjaldan verið opinskár um sjálfan sig þrátt fyrir mikil skrif í fjölmiðla í gegnum tíðina. Það gefur þessum játningum hans mikið vægi en þó umfram allt það hvernig þær eru skrifaðar, vægðarlaus hreinskilnin og raunsæið.

Alkóhólismi fer ekki í manngreinarálit og þess vegna stöndum við oft frammi fyrir þeirri flatneskjulegu staðreynd að brennivín og ekkert annað en brennivín getur eitt og sér verið orsökin að ógæfu stórmerkilegs fólks; það eru engar dýpri ástæður. Harmurinn er ekki margbrotnari en það ef maður er alkóhólisti.

Annars er það sérkennilegt að sjálfur hef ég flest persónueinkenni alkóhólista. Samt hef ég aldrei átt í minnstu vandræðum með áfengi. Og þar sem áfengi eitrar mig ekki er auðveldara að átta sig á þessum löstum og dempa þá. Matur og sykur hafa ekki sömu eitrunaráhrifin, gera mann bara feitan.