miðvikudagur, janúar 10, 2007

Hlé til 22. jan.

Ég er kominn með einhverja magakveisu og mætti vera hressari síðustu dagana fyrir brottför.

Flýg í fyrramálið til Frankfurt. Tek lestina þaðan til Heidelberg en það er innan við klukkutími. Þýskaland er mjög þéttbýlt og margar borgir þarna á leiðinni. Og mörg krummaskuð.

Þetta verður mikil vinnuferð og ekki beðið eftir neinum innblæstri. Verkið er á vinnslustigi. Það er samt um að gera að njóta lífsins svo maður verði kreatífur. Það geri ég nú bara með því að skoða mannlífið, lesa þýsku blöðin, labba upp í hlíðarnar. Varla að ég nenni alla leiðina að kastalanum.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Mamma var á fundi hjá Hönnu Birnu í morgun og sparaði ekki lýsingarnar á borgarfulltrúanum: "Alveg yndisleg manneskja ... einstaklega almennileg og það sem kom mér mest á óvart: hún er vel inni í málunum, hún kynnir sér þau almennilega ..."

mánudagur, janúar 08, 2007

Hvernig þýðir maður orðið "Schlichtung" á íslensku? Þegar boðað hefur verið til verkfalls í Þýskalandi þá tilkynnir vinnuveitandinn Schlichtung sem virðist vera e.k. formlegt samningsferli. Það þýðir að verkfalli er aflýst sjálfkrafa í 2 vikur. Flugumferð til Þýskalands er því væntanlega ekki að stöðvast á þriðjudaginn.

http://www.spiegel.de/reise/aktuell/0,1518,458231,00.html Þýskir flugumferðarstjórar hafa boðað verkfall fá og með þriðjudeginum. Ekki er það nú gæfulegt. Hvað skyldi ferðin mín frestast lengi?

sunnudagur, janúar 07, 2007

Ég uppgötvaði í gærkvöld að ég á a.m.k. hálft ritsafn Gunnars Gunnarssonar. Hingað til hef ég bara lesið Sælir eru einfaldir sem er reyndar frábær skáldsaga. Í nótt byrjaði ég á Aðventu sem er einstaklega læsileg. Gunnar er höfundur sem nær tökum á manni og gaman að eiga hann mestallan eftir. Bók Halldórs Guðmundssonar, Skáldalíf, hefur líka vakið áhuga minn á honum.

Ég er staddur í Eymundsson og er að klára síðustu síðurnar af Eitrinu hans EÖN. Auk þess tók ég úr hillunni Lífslogann eftir Björn Þorláksson, sögu sem ég hef haft áhuga á nokkuð lengi. Veit ekki hvort ég kemst eitthvað af stað í henni núna.

Síðast en ekki síst er ég minn eigin kollegi. Í töskunni eru Hringstiginn og Tvisvar á ævinni. Þetta er ég að glugga í vegna lokahlutans í sögunni minni. Í Hringstiganum er lýsing á því þegar ókynþroska barn kemur að fullorðnu fólki í samförum og í Tvisvar á ævinni er lýsing á einmana og þunglyndri unglingsstúlku. Í þessu verki hef ég hingað til verið að skrifa um karlhlunka sem eru meira og minna eins og ég sjálfur og það er býsna erfitt að skipta úr þeim gír í miðju kafi. Ég hef hins vegar oft náð mér á strik í lýsingum á persónum sem eru ólíkar mér, þar á meðal í kvenlýsingum. Þetta er kannski öðruvísi í smásögunum, frábær hugmynd hefur gefið mér innsæi og fleytt mér yfir hindranir í persónusköpun.