fimmtudagur, júlí 24, 2008

Táningur fer í Kringluna

Freyja þarf að fara í ferð með okkur út á land fljótlega þar sem engir aðrir unglingar verða með í för og í leiðinni missir hún af unglingaballi í höfuðborginni þar sem allar vinkonur hennar verða. Henni líkar þetta augljóslega ekki.

En ef herkænsku okkar komum við til móts við hana þegar hún krafðist þess að fá að fara í Kringluna með Rósu og eyða einhverjum peningum í skyndibita og bómullarboli.

Ég hitti vinkonurnar í Spron á Skólavörðustíg. Þær voru auðvitað stífmálaðar, í bláum Hekluúlpum sem allir voru í á áttunda áratugnum, urðu síðan þokkalega úreltar en komust í tísku aftur og eru ekki lengur Hekluúlpur. Það fyrsta sem barnið gerði þegar hún sá mig var að rétta út lófann.

"Hæ" - og útréttur lófi.

Ég náði í 5000 kall í hraðbankann. Hún hrifsaði peningana græðgislega úr höndum mínum og þakkaði fyrir sig.

Ég spurði hvort þær vildu skreppa með mér á Mokka. Ég gæti boðið þeim upp á eitthvað þar og þá þyrftu þær ekki að eyða peningum í mat í Kringlunni.

"NEI!¨- Við Rósu: "Hann er að grínast."

En ég var ekki að grínast. "Þegar þú varst lítil vildirðu alltaf fara með mér á Mokka."

"Við ætlum á Subway."

Svo gengu þær niður Skólavörðustíginn án þess að vilja ræða þetta frekar. Börnin þurfa að vaxa frá manni. Það er þeirra hlutverk.

mánudagur, júlí 21, 2008

Svona hálfgerð barátta

"Björk hélt ásamt Sigurrós tónleika þar sem lögð var áhersla á að það nýta mætti íslenska orku til annarra hluta en stóriðju og álvera. Hún margtók fram í viðtölum að hún væri ekki að berjast gegn virkjunum hún vissi að það væri nauðsynlegt að virkja til þess að byggja upp atvinnulíf, en þar mætti fara varlegar fram og henni fyndist álver skemma ímynd landsins. Hún lagði á það áherslu að bæta mætti og lagfæra aðgang að náttúruperlum."

Þetta segir Guðmundur Gunnarsson að hafi verið tilefni baráttutónleika Bjarkar og Sigur Rósar. Finnst ykkur þetta ekki verið dálítið veik yfirskrift á áróðurstónleikum? Þetta er ekki alveg eins afdráttarlaust og Live Aid þar sem safnað var peningum til sveltandi fólks eða "Free Nelson Mandela." Að halda baráttutónleika til stuðnings þeirri hugsun að nýta megi íslenska orku til annarra hluta en stóriðju og álvera þó að þar með sé ekki verið að berjast gegn virkjunum, og að lagfæra megi aðgang að náttúruperlum, er ansi óljós barátta. Það kreppir enginn hnefann og rekur upp stríðsöskur út af því.

Auk þess finnst mér þetta óþörf viðkvæmni. Hvorki Bubbi né Egill Helga hafa verið að kasta skít í Björk eða Sigur Rós. Þeir hafa einfaldlega skoðanir, t.d. á því hvernig Íslendingar eiga að brauðfæða sig.

Frægra manna blogg í anda 2005

Átti fund með Kristian Guttesen á Kaffitári í hádeginu. Jakob Magnússon talaði þar glaðbeittur í síma. Við Kristian ræddum um nám, skáldskap, starfslaun og líkamsrækt. Í miðju hádeginu birtist Egill Helgason og sýndi okkur giftingarhringinn sinn. Hann sagði okkur að mesta áskorun hans í lífinu til þessa yrði að tala grísku eins og innfæddur. Síðan fórum við að tala um kreppuna og tókum allir þungt andvarp. Ég fann hnút í maganum. Kreppuhnútinn.

sunnudagur, júlí 20, 2008

Café Roma, sun. 20. júlí 08


Ég tók út mína árlegu tjaldgistingu á Laugarvatni á föstudagsnótt. Þétt var tjaldað en þó fremur friðsælt enda 30 ára aldurstakmark á tjaldstæðin. Við Erla tjölduðum síðast á Laugarvatni árið 1993 og tókum þá þokkalega vel á í drykkju enda barnlaus. Aldurstakmarkið kom þó ekki í veg fyrir að þekktustu lög Bubba væru tekin alla nóttina einhvers staðar í þokkalegri fjarlægð frá okkur. Þetta voru allt rámar kvenraddir en bakvið þær heyrðist muldur í drafandi karlkynsfyllibyttum. Hávaðinn var ekki meiri en svo að við sváfum vært. Gæslumaðurinn tjáði mér hins vegar daginn eftir að þetta hefði verið erfið nótt fyrir næstu tjaldbúa við gleðskapinn, sumir hefðu ekki fengið svefnfrið fyrr en klukkan hálfátta um morguninn.

Maður kemst ekki svo glatt undan Bubba Morthens í þessu þjóðfélagi. Um morguninn kom ég við, þokkalega útsofinn, í þjónustumiðstöðinni og keypti laugardagsmoggann. Þar var ágætisviðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við margnefndan. Í sunnudagsmogganum var trúhneigð Bubba síðan tekin fyrir í Staksteinum og þegar ég komst á netið var Jónas Kristjánsson farinn að sauma að honum fyrir yfirlýsingar í laugardagsviðtalinu.

Samt var þetta líklega frekar róleg Bubbahelgi. En Bubbi getur verið hittinn í ummælum, segir það sem þjóðin er að hugsa, og hvað álversframkvæmdir og áróðurstónleika snertir þá er ég hjartanlega sammála honum.

Sumir listamenn hafa einfaldlega þá náðargáfu að tala alltaf beint inn í sál þjóðarinnar, vera einhvern veginn alltaf í takt við bolinn. Flestir listamenn eru hins vegar meira og minna í skugganum. Tæpast hefur Guðbergi Bergssyni liðið eins og stjörnu þegar hann hýrðist úti í Flatey fyrir tæpum 40 árum og notaði ónýta hurð fyrir skrifborð. Hann átti þó sínar frægðarstundir síðar og hæddist að öllu og öllum þegar hann tók við Íslensku bókmenntaverðlaununum árið 1991.

Í sunnudagsmogganum er athyglisverð grein um breska meiðyrðalöggjöf sem þar er kölluð þjóðarskömm. Sem rifjar upp nýlegar færslur og umræður hér um mál Jóns Ólafssonar gegn Hannesi Hólmsteini.

Ég steig á vigt í gær og var enn einu sinni pompaður niður í 105 kíló. Eða 105 og hálft. Á gamalli vigt sem sýnir líklega 3 kílóum of lítið. Alltaf þegar þetta gerist hugsa ég: Nú verð ég bráðum grannur. Svo þegar ég vigta mig næst er ég orðinn 108 kíló og verð skelfingu lostinn. Þetta eru einfaldlega sveiflur. Ég léttist sællar minningar um nokkur kíló sumarið 2005 og síðan þá hef ég verið á þessu róli. Ég er hvorki í megrun né ofáti og ég verð einfaldlega í þessum holdum nema ég geri einhverjar drastískar breytingar, sem ég efast um. Ég er kannski mjög gott dæmi um að kjörþyngd er engan veginn forsenda góðrar heilsu og kannski ekkert alltaf það æskilegasta.

Þetta er yndislegt sumar en skuggi kreppunnar hvílir yfir því. Í blöðunum og á netinu eru gúrkufréttir vegna þess að það er ekkert að frétta af kreppunni nema að hún magnast og heltekur okkur síðan í haust. Ég lýsti því yfir að ef ég myndi missa vinnuna myndi ég skrá mig í háskólann í þýskunám og taka síðan kennsluréttindi í kjölfarið. Þetta þykir öllum í kringum mig óskaplega góð hugmynd. En ég missi líklega ekki vinnuna. Það er samt gott að vera með tilbúið b-plan.

Það er þá eins gott að halda áfram með bókina svo hún yrði búin áður en þetta gerðist.