Táningur fer í Kringluna
Freyja þarf að fara í ferð með okkur út á land fljótlega þar sem engir aðrir unglingar verða með í för og í leiðinni missir hún af unglingaballi í höfuðborginni þar sem allar vinkonur hennar verða. Henni líkar þetta augljóslega ekki.
En ef herkænsku okkar komum við til móts við hana þegar hún krafðist þess að fá að fara í Kringluna með Rósu og eyða einhverjum peningum í skyndibita og bómullarboli.
Ég hitti vinkonurnar í Spron á Skólavörðustíg. Þær voru auðvitað stífmálaðar, í bláum Hekluúlpum sem allir voru í á áttunda áratugnum, urðu síðan þokkalega úreltar en komust í tísku aftur og eru ekki lengur Hekluúlpur. Það fyrsta sem barnið gerði þegar hún sá mig var að rétta út lófann.
"Hæ" - og útréttur lófi.
Ég náði í 5000 kall í hraðbankann. Hún hrifsaði peningana græðgislega úr höndum mínum og þakkaði fyrir sig.
Ég spurði hvort þær vildu skreppa með mér á Mokka. Ég gæti boðið þeim upp á eitthvað þar og þá þyrftu þær ekki að eyða peningum í mat í Kringlunni.
"NEI!¨- Við Rósu: "Hann er að grínast."
En ég var ekki að grínast. "Þegar þú varst lítil vildirðu alltaf fara með mér á Mokka."
"Við ætlum á Subway."
Svo gengu þær niður Skólavörðustíginn án þess að vilja ræða þetta frekar. Börnin þurfa að vaxa frá manni. Það er þeirra hlutverk.