föstudagur, ágúst 01, 2008

Kannski er aðgerðaleysið betra

Útspil umhverfisráðherra var það síðasta sem við þurftum núna. En hún greip þetta tækifæri til að lúkka vel í augum umhverfissinna. Það er dýr ímyndaraðgerð. Ef það er eitthvað sem við þurfum núna þá er það nýtt álver, á meðan allt annað er að skreppa saman. Menn hafa kvartað undan aðgerðaleysi stjórnmálamanna undanfarið. Kannski er aðgerðaleysið skárra en aðgerðir.

fimmtudagur, júlí 31, 2008

Fínir ráðskonustrákar

Texti Baggalúts hvetur ekki til nauðgana. Ráðskonustrákurinn skaut yfir markið. En hann þyrlaði upp mikilli umræðu í leiðinni og það er gott. Umræðu um nauðganir verður að halda vakandi og það er til fyrirmyndar að karlmenn hafi frumkvæði í þeirri umræðu. Þrátt fyrir feilskotið hefur tekist að magna upp þá umræðu núna á hvað mikilvægustum tíma.

þriðjudagur, júlí 29, 2008

12 milljarðar

Ef íslensku bankarnir eru enn að græða meira en tug milljarða á ársfjórðungi, hvers vegna geta þeir þá ekki lengur lánað peninga?

Myndir úr Flatey

mánudagur, júlí 28, 2008

Flatey

Ég eyddi helginni í Flatey með stórum hópi vinafólks og fjölskyldna. Staðurinn kom mér á óvart. Ég átti von á einangrun og kyrrð og örfáum tannlausum heimamönnum. Þess í stað var krökkt af fólki, þetta var svipað og á veðurgóðum laugardegi í miðbænum. Ég þekkti m.a.s. töluvert af fólki þarna. Veðrið var stórkostlegt. Á laugardeginum fór ég í sjóbað að áeggjan Malla, Vestmannaeyingsins Martins Eyjólfssonar. Við vorum nokkrir sem fórum í sjóinn og svömluðum þar í röskar 20 mínútur. Á eftir var mér kalt en þetta var samt miklu auðveldara en að hlusta á Malla útlista æti lundans í Eyjum eða reglugerðarverk Evrópusambandsins. Ég slapp þó ekki við það.

Ljósmyndir úr ferðinni eru væntanlegar hingað.

Staðfastur borgarstjóri

Ég hélt að það væri orðin sæmileg sátt um að byggja upp Laugaveginn í gamla stílnum. Einu gildir hvernig gamla götumyndin í rauninni var. Við þurfum heildstætt útlit og best er að leita í okkar byggingarsögu og byggja miðbæinn upp út frá því. Listaskólakumbaldinn passar engan veginn inn í þessi áform.


Borgarstjórinn vex sífellt í áliti hjá mér. Hann er sjálfum sér samkvæmur og lætur ekkert róta sér.