þriðjudagur, september 30, 2008

Show me the money

Hvað hefði almenningur sagt um það að ríkið lánaði Glitni 84 milljarða án þess að fá nokkurn skapaðan hlut í staðinn?

Hvers konar mismunun væri það á frjálsum markaði?

Hverjar hefðu orðið niðurstöður skoðanakönnunar um slíkt spursmál?

Enginn lætur frá sér 84 milljarða án þess að fá eitthvað í staðinn: eign, áhrif og völd.

Sá sem á peninginn á leikinn.

"Hefnd Davíðs" - bull.

mánudagur, september 29, 2008

Hin hliðin


http://www.visir.is/article/20080929/FRETTIR01/983632552

Vilhjálmur Bjarnason vill skýringar á því hvers vegna Glitnir fékk ekki neyðarlán.

Því er haldið fram við mig að það eina sem Glitni hafi vantað hafi verið gjaldeyrir, þeir hefðu jafnvel getað borgað fyrir hann í krónum.

Því er einnig haldið fram við mig að ummæli Weldings í Silfrinu hafi verið eðlileg, svona hratt geti hlutirnir breyst á einni viku. Ég á erfitt með að kyngja því.

Ég legg til að ríkið haldið Reykjavíkurmaraþon næsta ár og við hlaupararnir verðum öll í mjög púkalegum bolum sem minni á gamla "góða" DDR. - Welding verður auðvitað að taka þátt.

1. Hvað vildi Hallgrímur? 2. Burt með Lárus Welding

1. Vildi Hallgrímur að ríkið myndi ausa peningum í Glitni án þess að eignast hluti í bankanum?

Vildi hann að rifist yrði um málið á Alþingi í nokkrar vikur? Hvað afleiðingar hefði það haft á mörkuðum?

2. Fyrir viku lýsir Lárus Welding yfir ánægju sinni með stöðu Glitnis, telur hana sterka. Telur þjóðnýtingu íslenskra banka útilokaða.

Það er með öðrum orðum nákvæmlega ekki orð að marka það sem þessi maður segir.

Ég vil hann burt úr þessum banka sem er í eigu ríkisins - ég get ekki þolað ríkisforstjóra af þessu tagi.

p.s. Reykjavíkurmaraþon ríkisins hljómar ekki illa. Ég skal taka þátt.

sunnudagur, september 28, 2008

Vorkenni ekki Keflvíkingum

Ég hefði vel unnt Keflvíkingum að verða Íslandsmeistarar. Ég hélt með þeim í dag enda þurftu þeir að vinna Fram svo KR gæti krækt í þriðja sætið. En þeir klúðruðu þessi. KR klúðraði oft titlinum á 10. áratugnum allt þar til 1999 þegar við unnum hann loks. En lokaprófin okkar voru strembin. Árið 1990 töpuðum við titlinum á markatölu. Árið 1996 töpuðum við úrslitaleik á útivelli fyrir liðinu sem var að berjast við okkur um titilinn, þ.e. ÍA. Við lentum í því sama á heimavelli gegn ÍBV árið 1998, sem þá var mjög sterkt lið. - Verkefni Keflavíkur í dag var karakterpróf sem þeir féllu á. Þó að Fram hafi komið á óvart í sumar er þetta bara miðlungslið, á svipuðu róli og Fjölnir. Þeir hafa staðið sig vel og verið heppnir en þeir eiga engan veginn heima í þriðja sæti. Keflvíkingar áttu að geta lagt þetta lið að velli á heimavelli, enda með miklu betra lið. En þeir fóru á taugum. Þess vegna áttu þeir titilinn ekki skilið þegar upp var staðið.

Annars er það skrýtið með grýlurnar í boltanum. KR hefur ekki unnið Keflavík í mörg ár. En KR mundi hins vegar aldrei tapað á heimavelli gegn Fram í leik sem gæti tryggt okkur titilinn. Við mættum þeim þrisvar í sumar, í deild og bikar, og unnum alla leikina örugglega. Meira að segja í fyrra, þegar ekkert gekk hjá okkur, tókum við fjögur stig af Fram.

En næsta sumar drepum við KR-ingar grýlur og ein grýlan sem fellur verður Keflavík. Ég er alveg sannfærðu um að við tökum a.m.k. þrjú stig af þeim. KR-liðið er á mikilli uppleið og verður mjög sterkt næsta sumar. Við fáum tækifæri til að sigrast á annarri grýlu sem er ÍBV á útivelli en Vestmannaeyingar eru aftur komnir upp í úrvalsdeild.

Ég veit hins vegar ekki hvort við náum að drepa FH-grýluna næsta sumar. Ég vona það innilega. En Keflavík heima og ÍBV úti eru vígi sem líklega falla.

Og það kemur ekki annað til greina en að vinna bikarinn um næstu helgi.