fimmtudagur, janúar 08, 2009

Námskeiðin eru tvö

Stutt og skemmtilegt viðtal birtist við mig í Fréttablaðinu í dag. Þar er hins vegar lögð aðaláhersla á þá staðreynd að ÁBS sé að fara að kenna blogg. Það er í sjálfu sér ekki rangt.

Námskeiðin sem ég kenni í Mími í næsta mánuði eru tvö, annað er í smásagnagerð en hitt í greina- og pistlaskrifum. Í síðarnefnda námskeiðinu er m.a. tekið fyrir blogg.

Nánar greina-,pistla- og bloggnámskeiðið hér, og skráning:
http://mimir.is/index.php?option=com_mtree&task=viewlink&link_id=453&Itemid=365

Nánar um smásagnanámskeiðið hér, og skráning:
http://mimir.is/index.php?option=com_mtree&task=viewlink&link_id=452&Itemid=365

mánudagur, janúar 05, 2009

Námskeið í smásagnagerð

Á linknum hér fyrir neðan er hægt að skrá sig í smásagnanámskeið hjá mér hjá Mími í febrúar.
Námskeiðið er samtals 15 kennslustundir og kennt er eitt kvöld í viku í 6 vikur.

Þetta verður skemmtilegt. Fyrst æfum við okkur í að búa til sterkar og lifandi sviðsmyndir. Við komum með hugmyndir að nokkrum senum, t.d. Tvær vinkonur hittast á kaffihúsi og önnur játar fyrir hinni að hún sé að halda framhjá. - Við æfum okkur að draga upp mynd af þessu, skrifa samtalið, lýsa svipbrigðum og lýsa umhverfinu. - Foreldrar yfirheyra stelpu sem var að koma heim og þau gruna hana um að hafa verið að drekka. - Og að sjálfsögðu fleiri hugmyndir.

Þegar nemendur eru búnir að draga upp skemmtilegar sviðsmyndir fara þeir að skrifa heilar smásögur. Ég sýni þeim muninn á smásögum með óvæntum endi og smásögum sem draga upp mynd til að afhjúpa ástand. -

Við lesum fullt af smásögum, sögur með sterkum sviðsmyndum, sögur sem afhjúpa og sögur með óvæntum endi. Við skoðum þessa þætti í sögunum.

Endurskriftir eru mikilvægar í skáldskap. Til að geta orðið rithöfundur þarf maður að fá yndi af því af því að endurskrifa. Sífelldar endurskriftir eru ekki bara til að leiðrétta og fága heldur uppgötvar maður alltaf eitthvað nýtt við endurskriftir og textinn verður ríkulegri.

Ég mun eyða miklum tíma í að yfirfara ritverk nemenda minna og þeir skila mér þeim síðan endurskrifuðum.

Ef við viljum getum við síðan opnað vefsvæði í lokin og birt allar smásögur námskeiðsins þar.


Námskeiðið kostar 20 þúsund kall. Skrá sig hér:

http://mimir.is/index.php?option=com_mtree&task=viewlink&link_id=452&Itemid=368.