fimmtudagur, mars 05, 2009

Tvö bestu störf í heimi

Það er einstaklega góð tilfinning að opna tölvupóstinn sinn á Kaffitári og sjá þar nokkrar smásögur frá nemendum sínum. Texta sem þeir hafa stritað við undanfarna daga og vikur og lagt allt sitt í.

Að hugsa til þess að eitthvað af þessu fólki gæti sett saman bók, smásagnasafn eða skáldsögu, er næstum því jafn spennandi og tilhugsunin um að gera það sjálfur.

Þessi tvö tengdu störf, að skrifa smásögur og kenna öðrum það, eru líklega þau bestu í heimi.
Að fá borgað fyrir slíka iðju er mikill lúxus. Einu gildir þó að launin séu ekki þau hæstu. Það þarf enga kaupréttarsamninga og enga bónusa þegar maður fær að vinna að sköpun og útbreiðslu smásögunnar.

Það er óneitanlega spennandi markmið að geta helgað sig þessu í framtíðinni.

Einn áfangi að því marki er að koma einhverju góðu á blað í dag.

Það eru komnir nógu margir á næsta smásagnanámskeið en ennþá eru nokkur laus sæti.
Skráning hér:

http://mimir.is/index.php?option=com_attend_events&Itemid=420&task=view&id=316

miðvikudagur, mars 04, 2009

Hlutlaus

Það er erfitt að taka pólitíska afstöðu þessa dagana. Ég var kominn með upp í kok af síðustu ríkisstjórn, ömurlegri ákvarðanafælninni, óhreinskilninni, leynimakkinu.

Og ég gef þessari stjórn vissulega sjens. Á hinn bóginn tel ég að Guðlaugur Þór hafi verið að vinna þörf og nauðsynleg verk í heilbrigðisráðuneytinu og óttast að eftirmaður hans geri þann árangur að engu.

Annar ráðherra í stjórninni leggst gegn stóriðjuuppbyggingu. Það er jafnmikið 2007 og útrásarvitleysan. Lúxusmál úr fortíðinni.

Davíð hafði sannarlega mikið til síns máls í Kastljóssviðtalinu en engu að síður er það ekki slæm tilhugsun að hafa fengið Norðmann í stól Seðlabankastjóra. Svona róttækar breytingar eru dýrmætar fyrir ímyndina og hefðu þurft að eiga sér stað strax í haust.

Menn rekja rætur hrunsins til 18 ára valdasetu Sjálfstæðisflokksins. Það er fáránlegt. Þennan tíma hefur venjulegur en þokkalega forsjáll maður eins og ég byggt upp þægilegan fjárhag svo hann getur leyft sér að sigla án fastrar atvinnu í gegnum lægðina. Svo mun vera um þúsundir annarra. Tugþúsundir. Þetta hefur verið góður tími allt þar til síðasta haust.

Skefjalaus græðgi, eftirlitslaus fjármálastarfsemi með skattborgara og seðlabanka heimsins sem baktryggingu - er það sem vaðið hefur uppi allra síðustu ár. Loftbólueignamyndun, sýndarveruleikabissniss. Ömurlegt. En það táknar ekki að maður vilji leggja af frjáls viðskipti.

Öfgaskoðanir þrífast vel þegar hagkerfið er hrunið. Þannig hefur tvisvar á stuttum tíma birst sami maðurinn í þjóðmálaþáttum sjónvarpsins, kennt sig við kommúnisma og helst viljað banna auglýsingar í sjónvarpi. Ennþá hefur enginn lýst yfir ást sinni á fasisma. Get ekki séð að það væri neitt ósmekklegra. Skásta kommúnistaríkið var líklega DDR. Verstir munu hafa verið Rauðu Khmerarnir í Kampódíu. Í hvorugu ríkinu myndi nokkur vilja búa. Ekki einu sinni litli kommúnistinn í sjónvarpinu. Það er nokkuð öfgafullt að vilja kenna sig við þessa stefnu á ný þó að íslenskir bankar hafi farið á hausinn.

Flest viljum við áfram borgaralegt þjóðfélag með heilbrigðum bissniss og góðu velferðarkerfi.
Við fáum það áfram þrátt fyrir allt. En það er að gefa hressilega eftir. Samt sést það ekki á yfirborðinu. Krúttkynslóðin drekkur áfram kaffi latte á Kaffitári. Menn hnýta áfram bindi um hálsinn og mæta á fundi. En á meðan missir einhver húsið og hugsanlega sveltur einhver annar.