Morgun einn fyrir nokkrum vikum dreymdi mig að ég hefði klúðrað þvagprufu með því að míga hastarlega út fyrir plastflösku í viðurvist læknis og hjúkrunarfræðings. Þetta var kæruleysislegt og afdrifaríkt. Af draumkenndum ástæðum var þetta framferði túlkað sem svo að draga bæri hæfi mitt sem uppalanda í vafa. Í kjölfarið mátti ég þola eftirlitsheimsóknir frá barnaverndarnefnd og sú óþægilega tilfinning varð yfirþyrmandi þegar ég reyndi að standa fyrir máli mínu að á mér yrði ekki tekið mark, sama hvað ég segði.
Veit ég þó vel að þannig virkar barnavernd ekki í praxis. Fjölskylda mér nákomin á í erfiðleikum með einn sona sinna, unglingspilt, en fjölskylduaðstæður eru samt almennt góðar. Þau hafa engu að síður þurft á ráðgjöf barnaverndarnefndar að halda og segja að þau hitti þar fyrir úttaugað fólk með dökka bauga undir augum, fólk sem hafi engan áhuga á að atast í hæfum foreldrum.
Um þetta ætlaði ég þó ekki að skrifa. Það sem átti sér hér stað hjá mér þarna var hringrás kaffis. Allt kaffið sem í mig fer skilar sér auðvitað út úr líkamanum aftur (þ.e. að hinum mikla vatnshluta sínum t.d.). Að þessu sinni skiluðu taugaveiklunarviðbrögð kaffiþambsins sér hins vegar í hinum óþægilega draumi en sem betur fór hélst vökvinn í líkamanum þar til ég var vaknaður.
Tilefnið að færslunni var svo aftur allt annað: enn eitt smáatvikið á Kaffitári. Rétt áðan kom lítil telpa með rifna og tætta barnabók til kasóléttrar móður sinnar og bað hana um að lesa bókina fyrir sig. Mamman sagði að bókin væri of löng. Þetta er krúttleg bók um sæta kettlinga í mannahlutverkum. Þessi bók er til heima og hérna áður fyrr las ég hana oft fyrir krakkana. Næstum eins og þetta sé sama eintakið því okkar eintak er alveg jafn lúið og þetta.
Rétt í þessu var erlendur túristi að setjast ofan á bókina hérna við hliðina á mér. Hún hvílir undir rassinum á honum og hann hefur ekki hugmynd um það. Þetta er gamall karl. Börnin hans eru kannski á aldur við mig. Hann talar óskiljanlegt tungumál. Gæti verið flæmska eða eitthvað.